Sport

Anna María leikur sinn 300. leik

Anna María Sveinsdóttir, leikmaður kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta, spilar tímamótaleik í kvöld þegar hún verður fyrsta körfuboltakonan til þess að spila 300 deildarleiki í efstu deild. Keflavíkurliðið tekur þá á móti nýliðum Hauka á Sunnubrautinni í Keflavík en þar hefur heimavöllur Önnu Maríu verið allan hennar feril í efstu deild sem spannar nú 19 tímabil. Anna María lék sinn fyrsta leik gegn KR 6. október 1985 þegar Keflavíkurliðið vann eins stigs sigur í sínum fyrsta leik í efstu deild. Síðan þá hefur Keflavík leikið 343 leiki í efstu deild,  Anna María hefur verið með í 299 þeirra og verið þátttakandi í öllum 22 stóru titlunum sem kvennalið félagsins hefur unnið. Anna María hefur alls unnið 36 titla með Keflavík á þessum 19 árum, 11 Íslandsmeistaratitla, 11 bikarmeistaratitla, 8 deildarmeistaratitla, 2 fyrirtækjabikara og Meistarakeppni KKÍ 4 sinnum. Þá hefur enginn leikmaður leikið fleiri landsleiki (60), skorað fleiri stig í efstu deild (4.720), verið oftar valinn leikmaður ársins (6) eða kosinn oftar í lið ársins (10) svo eitthvað sé nefnt af öllu sem Anna María hefur afrekað á körfuboltavellinum. Hún hefur verið toppleikmaður í toppliði allan þennan tíma sem sést vel á því að Anna María hefur skorað 15,8 stig að meðaltali í þeim 299 deildarleikjum sem eru að baki og Keflavíkurliðið hefur unnið 84% þeirra, 252 af 299. Anna María á að baki 65 leiki sem spilandi þjálfari en hún þjálfaði einnig Keflavíkurliðið 1997-99 og 2001-03. Undir hennar stjórn vann liðið tvo Íslandsmeistaratitla og einn bikarmeistaratitil. Nú er Anna María bara óbreyttur leikmaður, hún sækist ekki eftir fyrirliðastöðunni og nýtur þess aðeins að spila körfubolta en þeir sem þekkja til keppniskonunnar Önnu Maríu Sveinsdóttur segja að hún sé ekki hætt að vinna titla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×