Sport

Ragnheiður varð í 14. sæti

Ragnheiður Ragnarsdóttir, Sundfélagi Hafnarfjarðar, varð í 14. sæti í undanrásum í 100 metra fjórsundi á heimsmeistaramótinu í sprettsundi í Indianapolis í gærkvöldi. Ragnheiður synti á 1 mínútu 3,74 sekúndum og bætti met sitt frá í riðlakeppninni um 44 hundraðshluta úr sekúndu. Hún hefur því bætt Íslandsmetið um 59 hundraðshluta úr sekúndu í lauginni í Conseco Fieldhouse í Indianapolis. Ragnheiður var einni sekúndu og 27 hundraðshlutum úr sekúndu frá því að komast í úrslit en það er svipaður munur og varð á Broke Hanson, sem náði bestum tíma, og Amöndu Beard sem varð þriðja í sundinu. Úrslitin í 100 metra fjórsundi verða í synt í kvöld. Í gærkvöldi var keppt til úrslita í átta greinum og sigruðu Bandaríkjamenn í fimm þeirra. Aron Peirsol sigraði í 100 metra baksundi, Brendan Hansen í 100 metra bringusundi, Ian Crooker í 100 metra flugsundi og Haley Cope í 100 metra bringusundi kvenna. Þá sigruðu Bandaríkjamenn í 4x200 metra skriðsundi. Oussama Mellouli frá Túnis kom fyrstur í mark í 400 metra fjórsundi karla, Brooke Hanson Ástralíu í 50 metra bringusundi kvenna og Sachiko Yamada frá Japan í 800 metra skriðsundi kvenna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×