Innlent

Öllum flugfreyjum sagt upp störfum

Öllum íslenskum flugfreyjum, rúmlega 40 talsins, sem starfa hjá Iceland Express verður sagt upp störfum vegna hagræðingar. Gert er ráð fyrir að þær fái starf hjá Astreus, flugfélaginu sem flýgur fyrir Iceland Express. Á starfsmannafundi um klukkan fjögur í dag var þeim rúmlega fjörtíu íslensku flugfreyjum sem starfa hjá félaginu tilkynnt um að þeim yrði öllum sagt upp störfum. Að sögn Ólafs Haukssonar, talsmanns Iceland Express, þurfti að hagræða hjá félaginu, og því hafi verið ákveðið að færa stöður flugfreyja til Astreus, flugfélagsins sem flýgur fyrir Iceland Express. Þeim hafi þess vegna verið sagt upp. Þetta snertir vinnufyrirkomulag og kjarasamninga flugfreyjanna. Fundur hófst þegar hjá Flugfreyjufélagi Íslands um málið og stendur hann enn eftir því sem fréttastofa kemst næst. Enginn hjá flugfreyjufélaginu sá sér fært að gefa viðbrögð sín við þessum uppsögnum enn sem komið er. Flugmennirnir sem fljúga vélum Iceland Express teljast hinsvegar ekki ekki starfsmenn fyrirtækisins og eru ekki í félagi íslenskra atvinnuflugmanna. Í apríl síðastliðnum hóf Iceland Express að fljúga tvisvar á dag til Lundúna og Kaupmannahafnar. Ekki hefur verið gefið upp hver afkoma félagsins var í fyrra en samkvæmt heimildum fréttastofu var þrjátíu milljóna króna tap á rekstrinum. Um áramótin síðustu átti Iceland Express í viðræðum við fjárfesta, í þeim tilgangi að fá nýja aðila til samstarfs um reksturinn. Meðal annars var rætt við Magnús Þorsteinsson sem kenndur er við eignarhaldsfélagið Samson. Magnús er stjórnarformaður Íslandsflugs og flugfélagsins Atlanta. Ekkert kom út úr þeim viðræðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×