Sport

Keane og Beckham að ná sér

Roy Keane, fyrirliði Manchester United, hefur jafnað sig af meiðslum og verður að öllum líkindum til í slaginn með Írum gegn Sviss í kvöld. Írska landsliðið mætti Kýpur á laugardaginn var og vann, 3-0. Sviss burstaði Færeyinga í fyrsta leik sínum, 6-0. Brian Kerr, knattspyrnustjóri Íra, sagði að Manchester United hefði gefið grænt ljós á að Keane yrði með gegn Sviss. "Hann er nánast orðinn heill heilsu eftir að hafa brákað rifbein," sagði Kerr. Keane er ekki sá eini sem stríðir við rifbeinsmeiðsli því David Beckham, leikmaður Real Madrid, meiddist á rifbeini í leik Englendinga gegn Austurríki. Hann gekkst undir rannsókn í gær. Englendingar mæta Póllandi í kvöld. Steven Gerrard æfði ekki með enska liðinu fyrr í þessari viku en að sögn talsmanns liðsins var það gert til að minnka álagið á Gerrard og fyrirbyggja frekari meiðsli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×