Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir breyta ekki vöxtum

Vextir á lífeyrissjóðslánum eru að minnsta kosti 0,2 prósentustigum hærri en eðlilegt væri ef sjóðirnir hefðu tekið tillit til breytinga á húsnæðislánakerfinu 1. júlí síðastliðinn. Þetta þýðir að vaxtatekjur lífeyrissjóðanna eru allt að 180 milljónum krónum hærri á ári en ef miðað væri við nýju íbúðabréfin. Vextir lífeyrissjóðslána hafa miðast við ávöxtunarkröfu húsbréfa. Nú hefur húsbréfum verið skipt út fyrir íbúðalán og eru vextir á þeim lægri en á húsbréfunum. Lífeyrissjóðirnir halda sig hins vegar ennþá við ávöxtunarkröfu á húsbréfum. Að sögn Guðbjargar Önnu Guðmundsdóttur hjá greiningardeild Íslandsbanka eru húsbréfin ekki jafn gott viðmið og var fyrir þróun grunnvaxta. "Ætla mætti að lífeyrissjóðir endurskoði vaxtagrunn sinn með hliðsjón af þessu. Ef þeir gera það ekki þá njóta einstaklingar sem eiga lán hjá sjóðunum ekki lækkandi markaðsvaxta," segir hún. Alls eiga lífeyrissjóðirnir útlán upp á um níutíu milljarða króna hjá sjóðsfélögum sínum. Hækkun á vöxtum þessara lána um 0,2 prósentustig skilar því 180 milljónum króna aukalega til lífeyrissjóðanna á ári.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×