Viðskipti innlent

Atvinnuleysi lækkar lítið

Greiningardeild KB banka er undrandi á því hve lítið atvinnuleysi minnkaði á síðustu misserum þrátt fyrir kröftugan hagvöxt. Atvinnuleysi hefur haldist í um þremur prósentum þótt hagvöxtur sé á bilinu fjögur til fimm prósent. Í Hálf fimm fréttum KB banka í gær kemur fram að greiningardeildin telji fjórar ástæður liggja að baki því hversu lítið atvinnuleysi hafi minnkað. Í fyrsta lagi sé hagvöxtur undanfarinnar mánaða að miklu leyti vegna stórra framkvæmda svo sem stóriðju og húsabygginga. Í öðru lagi hafi mikil framleiðniaukning átt sér stað sem þýðir að hver vinnandi maður eykur afköst sín í stað þess að vinnandi höndum fjölgi. KB banki telur einnig að það kunni að hafa áhrif að mikil fjölgun hafi orðið á vinnumarkaði; margt ungt fólk hafi komið inn á vinnumarkaðinn á síðustu misserum. Í fjórða lagi segir greiningardeild KB banka að svo virðist sem hik sé komið í ráðningar fyrirtækja eftir vaxtahækkanir. Niðurstaða þessarar þróunar segir KB banki vera þá að Seðlabankinn þurfi að íhuga að halda að sér höndum í vaxtahækkunum á næstu misserum þrátt fyrir kröftugan hagvöxt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×