Sport

Schumacher vann í Ungverjalandi

Michael Schumacher setti enn eitt met með því að vinna tólfta sigur sinn á tímabilinu í formúlu eitt kappakstrinum þegar hann vann ungverska kappaksturinn í gærdag. Sigur Schumachers sá einnig til þess að Ferrari vann keppni bílasmiða sjötta árið í röð þótt enn séu fimm keppnir eftir á tímabilinu. Ferrari braut 200 stiga múrinn í gær (202 stig) og hefur 111 stiga forskot á Renault þegar aðeins 90 stig eru eftir í pottinum. Schumacher og félagi hans Rubens Barrichello urðu í fyrstu tveimur sætunum líkt og sex sinnum áður á tímabilinu. Schumacher sjálfur er á góðri leið með því að vinna heimsmeistaratitilinn í sjöunda sinn en hann hefur 38 stiga forskot á félaga sinn hjá Ferrari þegar 50 stig eru eftir í pottinum. Enginn nema Barrichello getur náð Schumacher því það eru síðan 17 stig í Jenson Button hjá BAR-Honda sem er með rétt rúmlega helming stiga Michaels Schumacher. Schumacher hefur unnið 12 af 13 keppnum ársins, fyrstu fimm og svo síðustu sjö. Í einu keppninni sem hann stóð ekki efstur á palli (Mónakó-kappaksturinn) kláraði hann ekki keppnina sökum þess að það var keyrt aftan á hann.  "Þetta var svo fullkomið og stórkostleg frammistaða hjá öllum í Ferrari-liðinu. Við byrjuðum tímabilið frábærlega en héldum áfram á fullu þótt við værum komnir með gott forskot," sagði Schumacher sem fagnaði vel með félögum sínum úr ítalska keppnisliðinu. Schumcaher hefur alltaf passað upp á að mennirnir á bak við Ferrari-bílinn fái athygli og það breyttist ekkert þegar 82. sigur hans á ferlinum var kominn í hús. Sjöundi heimsmeistaratitilinn ætti að koma í hús í belgíska kappakstrinum eftir tvær vikur, allt annað væri stórfrétt úr fyrirsjáanlegri formúlu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×