Sport

Af nógu að taka

Eyjólfur Sverrisson, sem tók við stöðu landsliðsþjálfara U-21 árs landsliðsins í fótbolta síðastliðið haust af Ólafi Þórðarsyni, mun á næstu dögum velja 16 manna hóp sinn fyrir fyrsta leikinn undir hans stjórn, gegn Eistum í Tallinn 18. ágúst næstkomandi. Eyjólfur hefur verið rétt tæplega ár í starfi án þess að stýra liðinu í einum leik en hann hefur verið duglegur við að mæta á leiki og skoða leikmenn, nokkuð sem síðasti þjálfari hefði að ósekju mátt gera meira af. Eyjólfs bíður ærið verkefni við að byggja upp trú á liðinu en árangur þess í síðustu undankeppni var fyrir neðan allar hellur, sex töp í sex leikjum. Langflestir leikmanna liðsins úr síðustu undankeppni eru orðnir of gamlir og segja má að sex leikmenn, Ólafur Ingi Skúlason, Viktor Bjarki Arnarsson, Sigmundur Kristjánsson, Hannes Sigurðsson, Tryggvi Bjarnason og Jökull Elísabetarson, séu eftir af þeim sem léku eitthvað hlutverk hjá Ólafi Þórðarsyni, fráfarandi þjálfara liðsins. Í þessari grein er gengið út frá því að liðið muni, undir stjórn Eyjólfs, spila sömu leikaðferð og A-landsliðið, enda er það orðið raunin með flest landslið í Evrópu til að auðvelda mönnum stökkið úr U-21 árs landsliðinu upp í A-landsliðið og gera þeim auðveldara að ganga beint inn í stöður þar. Markverðir Það er ljóst að Bjarni Þórður Halldórsson, markvörður Fylkis, verður fyrsti markvörður í þessum hóp. Hann hefur átt gott tímabil með Fylkismönnum, byrjaði frábærlega en hefur í takt við aðra leikmenn liðsins gefið aðeins eftir upp á síðkastið. Hvað varðar varamarkvörð stendur Eyjólfur frammi fyrir þeirri spurningu hvort hann vilji velja Pál Gíslason Jónsson, markvörð Breiðabliks, sem hefur spilað alla leiki liðsins á tímabili en er í 1. deild eða hvort hann velur Hrafn Davíðsson, vararmarkvörð ÍBV sem hefur ekki spilað leik í sumar, eða Magnús Þormar, varamarkvörð Keflavíkur, sem hefur leyst Ólaf Gottskálksson af með þokkalegum árangri í tveimur leikjum í sumar þótt hann virki ekki mjög öruggur. Að mínu mati ætti hann að velja Pál Gísla sem hefur varið mark Breiðabliks undanfarin tvö ár og er bæði í betri leikæfingu en Hrafn og Magnús auk þess sem hann er með meiri reynslu. Vörnin Ef Eyjólfur stillir upp þremur miðvörðum þá liggur beinast við að hann velji þá Sverri Garðarsson hjá FH, Tryggva Bjarnason hjá ÍBV og nýjasta atvinnumanninn, Sölva Geir Ottesen. Sverrir hefur átt frábært tímabil með FH og verið vaxandi alveg frá því að hann kom frá Molde fyrir tímabilið í fyrra. Tryggvi hefur sýnt mun meiri stöðugleika heldur en í fyrra og hefur líkamlegan styrk og hæð sem er dýrmætt fyrir liðið. Sölvi Geir hefur varla stigið feilspor síðan hann byrjaði að spila með Víkingum í 1. deildinni í fyrra og það kemur fáum á óvart að hann skuli vera orðinn atvinnumaður. Hann er grimmur, fljótur og sterkur og framtíðarmaður í A-liðinu. Aðrir miðverðir líkt og Helgi Pétur Magnússon frá ÍA og Einar Hlöðver Sigurðsson hjá ÍBV standa þessum þremur langt að baki. Eyjólfur mun væntanlega stilla upp varnarsinnuðum vængmönnum. Þrír leikmenn koma helst til greina, Jökull Elísabetarson hjá KR, Framarinn Gunnar Þór Gunnarsson og Víkingurinn Steinþór Gíslason. Jökull hefur engan veginn náð sér á strik í sumar og því væri sennilega best fyrir Eyjólf að velja Steinþór hægra megin. Steinþór hefur spilað vinstri bakvörð hjá Víkingi en er réttfættur. Hann hefur komið gífurlega á óvart í sumar, er virkilega skynsamur leikmaður sem þekkir sín takmörk. Hann er með sjálfstraust um þessar mundir, nokkuð sem Jökull hefur ekki. Vinstra megin er Gunnar Þór nánast eini möguleikinn fyrir utan kannski FH-inginn Davíð Þór Viðarsson sem er þó mikilvægari á miðjunni. Gunnar Þór hefur verið mikið meiddur í sumar en sýndi það í fyrra að hann er fljótur, sterkur og góður á boltanum. Miðjan Davíð Þór ætti að vera varnartengiliður. Hann er skynsamur leikmaður sem dreifir spilinu vel og getur haldið vel sem akkeri. Eini gallinn er að Davíð Þór hefur lítið spilað í sumar. FH-liðið er á mikilli siglingu þessa dagana og því fær Davíð Þór ekki tækifæri. Hann er hins vegar óumdeilanlega mikilvægur fyrir liðið þar sem hann er leiðtogi á velli. Ólafur Ingi Skúlason verður lykilmaður á miðjunni hjá íslenska liðinu. Hann er líkamlega sterkur, duglegur og kjarkmikill. Hann gefst aldrei upp og það mun reyna verulega á hann ef hann á að spila með Emil Hallfreðssyni á miðjunni. Emil hefur átt frábært tímabil fyrir FH, er leikmaður sem getur unnið leiki upp á eigin spýtur en verður seint sakaður um mikinn dugnað í varnarleiknum. Hann er með frábæra tækni, mikinn hraða og sjálfstraustið í botni þessa dagana. Sóknin Það eru í raun aðeins tveir leikmenn sem kom til greina í framlínuna. Hannes Sigurðsson er öflugasti framherjinn í þessum aldursflokki. Hann er sterkur í loftinu, með góðan vinstri fót en eina vandamál hans er að hann fær ekki að spila nóg hjá Viking. KR-ingurinn Kjartan Henry Finnbogason hefur verið það eina jákvæða við KR-liðið í sumar. Hann er duglegur, líkamlega sterkur og mikill markaskorari. Hann hefur spilað vel í lélegu KR-liði í sumar og það ætti að gera það að verkum að hann sé tekinn fram yfir leikmenn eins og Hörð Sveinsson hjá Keflavík, Garðar B. Gunnlaugsson hjá Val og Hjálmar Þórarinsson hjá Þrótti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×