Sport

Tíu stiga tap gegn Pólverjum

Íslenska landsliðið tapaði þriðja og síðasta æfingaleiknum gegn Pólverjum með tíu stiga mun, 85-75, í Keflavík í gærkvöld. Íslenska liðið vann þar með einn af þremur leikjum sem verður að teljast nokkuð viðunandi miðað við styrkleika pólska liðsins. Íslenska liðið leiddi með einu stigi, 39-38, í hálfleik í leiknum í gær en í þeim síðari tók pólska liðið öll völd á vellinum, náði níu stiga forystu eftir þriðja leikhluta og hélt henni til loka leiksins. Það var afskaplega slakur sóknarleikur sem felldi íslenska liðið að þessu sinni. Keflvíkingurinn Magnús Gunnarsson bar sóknarleikinn uppi en hann skoraði 32 stig leiknum og hitti úr 7 þriggja stiga skotum. Aðrir voru langt frá sínu besta og Hlynur Bæringsson, stigahæsti leikmaður íslenska liðsins í fyrstu tveimur leikjunum hitti meðal annars aðeins úr einu skoti af sjö. Stig íslenska liðsins: Magnús Gunnarsson 32 Jakob Sigurðsson 7 Eiríkur Önundarson 6 Hlynur Bæringsson 6 Sigurður Þorvaldsson 6 Páll Axel Vilbergsson 6 Fannar Ólafsson 6 Friðrik Stefánsson 2 Páll Kristinsson 2 Lárus Jónsson 2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×