Sport

Miklir yfirburðir hjá ÍA

Fyrirfram var búist við hörkuleik þegar KA tók á móti Skagamönnum á heimavelli sínum á Akureyri í gær. Sú varð aldeilis ekki raunin og lauk leiknum með stórsigri gestanna, 0-5. Skagamenn voru miklu betri allan leikinn en framan af áttu þeir í erfiðleikum með að skapa sér færi þó svo að þeir hefðu farið með tveggja marka forystu inn í hálfleik. Það var síðan eftir að KA-menn höfðu misst tvo leikmenn útaf með rautt spjald, fyrst Ronnie Hartvig og síðan Pálmi Rafn Pálmason á 54. mínútu, að allar flóðgáttir opnuðust. Gestirnir tóku þá öll völd á vellinum og voru með boltann nánast allan þann tíma sem eftir var. Marktækifærin voru eftir því og bættu leikmenn ÍA við þremur mörkum til viðbótar á síðasta hálftímanum. Skagamenn spiluðu oft á köflum mjög lipurlega þar sem boltinn gekk hratt manna á milli og enduðu flestar sóknir hjá þeim með skoti eða sendingu fyrir markið þar sem Sandor Matus greip vel inn í. KA menn spiluðu gjörsamlega hugmyndasnauðan bolta og var stundum eins og þeir vissu ekki hvað þeir ættu að gera á vellinum. Er það mikið áhyggjuefni fyrir KA. Liðið er nú komið í vond mál í 9. sæti deildarinnar og verða að fara að vakna til lífsins ef ekki á illa að fara. KA-ÍA  0-5 0-1, Ellert Jón Björnsson 20 mín. 0-2, Stefán Þ. Þórðarson 43 mín, víti 0-3, Ellert Jón Björnsson 59 mín, 0-4, Þorsteinn Gíslason 85 mín. 0-5, Gunnlaugur Jónsson 89 mín.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×