Sport

13. umferð hefst í kvöld

Fjórir leikir fara fram í 13. umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu í kvöld og eru margar athyglisverðar viðureignir á dagskrá. Af mörgum stórum leikjum fer sennilega sá allra stærsti fram í Eyjum þar sem heimamenn fá íslandsmeistara KR í heimsókn. Bæði lið þurfa nauðsynlega á öllum þremur stigunum að halda; ÍBV til að halda pressu á FH á toppi deildarinnar og KR-ingar til að eiga einhverja glætu á að verja titilinn. Eyjamenn hafa verið á fljúgandi siglingu að undanförnu í deildinni og unnið þrjá leiki í röð en það er spurning hvort að tapið gegn KA í bikarnum í síðustu viku sitji eitthvað í leikmönnum liðsins. KR-ingar fengu skell gegn FH í bikarnum og þurfa að spila mun betur en í þeim leik til að eiga einhverja möguleika á að leggja ÍBV af velli. Kristinn Hafliðason mun ekki leika með KR vegna meiðsla en talið er að Bjarki Gunnlaugsson verði hugsanlega í leikmannahópi liðsins í fyrsta skipti í langan tíma. Fylkismenn fá tækifæri til að rétta sinn hlut aðeins fjórum dögum eftir að hafa tapað fyrir Keflavík í bikarnum, en liðin mætast í Keflavík í kvöld. Fylkir hefur verið í frjálsu falli undanfarnar vikur og verða hreinlega að sigra til að halda sér við toppinn. Keflavík gæti hinsvegar með tapi sogast alvarlega niður í fallbaráttunni. Lykilmenn hjá báðum liðum eiga við meiðsli að stríða svo að vel gæti hugsast að ungir og efnilegir leikmenn liðanna fái tækifæri í leiknum. ÍA sækir KA heim á Akureyri og endurheimta Stefán Þór Þórðarson sem var í banni í síðasta leik. Þannig munu gestirnir örugglega ná að stilla upp sínu sterkasta liði en hjá heimamönnum er Dean Martin í leikbanni auk þess sem Steinn V. Gunnarsson og Örn Kató Hauksson eru tæpir. Í Hafnarfirði mætast þau tvö lið sem hafa náð bestum árangri í deildinni upp á síðkastið, FH og Víkingur. Ólafur Jóhannsson, þjálfari FH, hefur ekki verið að breyta sínu liði mikið á milli leikja og er vís til þess að stilla upp sama liði og lagði KR sannfærandi af velli í bikarnum í síðustu viku. Víkingar hafa heldur verið að gefa eftir og náð aðeins einu stigi af sex mögulegum í síðustu tveimur leikjum og gæti sjálfstraust liðsins hafa dalað eitthvað við það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×