Skoðun

Frá degi til dags

Þingmenn sem þegja Eitt furðulegasta fyrirbærið á Alþingi Íslendinga eru þingmenn sem þegja - hafa sig lítt eða ekkert í frammi í þinginu og heyrast sjaldan eða aldrei í ræðustól. Von er að menn spyrji til hvers þetta blessaða fólk hafi verið að gefa kost á sér til þingstarfa. Ekki nóg með að það þegi á vinnustað sínum heldur sjást sjaldan eftir það blaðagreinar eða pistlar á netinu. Alþingismenn njóta ýmissa fríðinda, til dæmis fá þeir ókeypis tölvur og farsíma og þingið greiðir kostnað við að halda úti vefsíðum þeirra sem það kjósa. Ef marka má lista yfir heimasíður alþingismanna á vefsíðu Alþingis (althingi.is) hafa aðeins 25 af 63 þingmönnum sýnt því áhuga að hasla sér völl á netinu. En ekki tekur betra við þegar farið er að smella á tenglana inn á þessar 25 vefsíður. Þá kemur í ljós að þær eru flestar óvirkar og óuppfærðar mánuðum og jafnvel árum saman. Þorri þingmanna, sem heldur úti vefsíðu, virðist með öðrum orðum fátt hafa að segja við kjósendur sína sem vafra um á netinu. Má í því sambandi minna á að allur þorri íslenskra heimila er nettengdur. Ögmundur sækir á Björn Lofsverðar undantekningar eru frá þessari þögn þingmanna á netinu. Fremstur í flokki er, eins og alþjóð veit, Björn Bjarnason ráðherra (bjorn.is), en á undanförnum mánuðum hefur hann fengið harða samkeppni frá Ögmundi Jónassyni, þingflokksformanni Vinstri grænna, sem heldur úti líflegri vefsíðu (ogmundur.is). Aðrir þingmenn sem uppfæra reglulega eru helst Ágúst Ólafur Ágústsson, Björgvin Sigurðsson, Helgi Hjörvar og Jóhanna Sigurðardóttir úr Samfylkingu og Hjálmar Árnason úr Framsóknarflokki. Þá sýnir Einar K. Guðfinnsson, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, viðleitni til að halda versíðu sinni lifandi. Flestir aðrir alþingismenn haga sér gagnvart netinu eins og þreyttir og syfjaðir embættismenn. Er skömm að því.



Skoðun

Sjá meira


×