Innlent

Skuldajöfnun ekki sjálfvirk

Komið getur upp sú staða í reikningshaldi Orkuveitu Reykjavíkur að viðskiptavinir skuldi peninga á einum stað, en eigi inni annars staðar vegna ofáætlunar, t.d. á heitavatnsnotkun. Dragist greiðslur vegna skuldar safnast á hana vextir og gjöld, en viðskiptavinir fyrirtækisins fá ekki vexti á inneign sína. Orkuveitan rekur rafmagns-, hita-, vatns- og boðveitu. Eysteinn Jónsson, sviðsstjóri sölusviðs Orkuveitunnar, segir sjálfsagt mál að láta inneign á einu sviði ganga upp í skuld á öðru, en fólk verði hins vegar að bera sig eftir því. "Við prófuðum að hafa þetta sjálfvirkt, en þá kom í ljós að menn voru með ýmislegt annað, s.s. sameiginlega bílskúra, skráða á eigið nafn og vildi alls ekki láta rugla þessum hlutum saman," sagði hann og bætti við að inneignir væri greiddar út færi fólk fram á það. "Oft á tíðum vill fólk samt láta inneign ganga upp í næstu reikninga." Eysteinn segir greiðslu vaxta á inneignir verða flókna í framkvæmd því þá þyrfti Orkuveitan að standa skil á fjármagnstekjuskatti, auk þess sem fyrirtækið hafi í raun lítinn áhuga á að geyma fyrir fólk peninga. Hann sagði inneignir liggja óhreyfðar þar til fólk léti heyra frá sér, en þó væri fólk sem ætti inni fjárhæðir um lengri tíma látið vita.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×