Skoðun

Í hvað fara útgjöld heimilanna?

Í síðustu viku ræddi ég um rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna. En fleira áhugavert leynist í skýrslu þessari. Samkvæmt henni eru 80% heimila í eigin húsnæði en 20% í leiguhúsnæði og 10% heimila eiga sumarhús. Oft er talað um að Íslendingar séu mjög tæknivæddir og í skýrslunni eru upplýsingar um bifreiðaeign, sjónvarpa-, tölvu- og símaeign. Á fjórtán af hundraði heimila var enginn bíll á árinu 2002 en þrír eða fleiri á 5% heimila. Einungis 3% heimila eru ekki með sjónvarp og 50% eru með eitt sjónvarp, en restin er með fleiri en eitt sjónvarp. Flestir eru með einn heimilissíma en um10% eru ekki með heimilissíma. Aftur á móti eru yfir 80% heimila með farsíma og þar af eru 13% heimila með þrjá eða fleiri farsíma. Fjögur af hverjum fimm heimilum eru með tölvu og flestar eru þær nettengdar. Fróðlegt er að skoða mismun útgjalda heimila á höfuðborgarsvæðinu og í öðru þéttbýli. Í heild eru útgjöld heimila á höfuðborgarsvæðinu 8% hærri en í öðru þéttbýli. Útgjöld til kaupa á mat og drykkjarvörum eru um 2% lægri á höfuðborgarsvæðinu en aftur á móti er reiknuð húsaleiga (þ.e. húsnæðisverð) höfuðborgarbúa 46% hærri en þeirra sem búa í öðru þéttbýli. En í hvað fara útgjöld meðalheimilisins? Töluvert hefur verið á undanförnum árum verið fjallað um aukin útgjöld einstaklinga til heilsugæslu og lyfjakostnaðar. Meðalheimilið ver um 4.900 krónum á mánuði í lyf og lækningavörur. Þessi útgjaldaliður hefur hækkað um hvorki meira né minna en 124% frá árinu 1995. Þá eru útgjöld meðalheimilis til heilbrigðisþjónustu um 5.600 krónur á mánuði og er hækkunin um 50% frá árinu 1995. Stór hluti af útgjöldum meðalheimilisins fer í mat og drykkjarvörur, eða 46 þúsund á mánuði. Þar af fara um 4.900 krónur í sætindi og 4.700 krónur í gosdrykki og safa í hverjum mánuði. Meðalheimilið greiðir þar að auki 14.900 krónur í þjónustu veitingahúsa á mánuði, sem er 50% hækkun frá 1995. Þá eyddi meðalheimilið 6.600 krónum í áfengi og 4.400 krónum í tóbak á mánuði á árinu 2002. Þessi útgjöld hafa hækkað um ríflega 75% frá árinu 1995. Hér erum við að ræða kostnað að meðaltali. Það leiðir hugann að því hver sé lágmarkskostnaður við að reka heimili á Íslandi. Ólíkt flestum nágrannaríkjum okkar eru engar upplýsingar til hér á landi um hver sé lágmarksframfærslukostnaður á hverja fjölskyldutegund. Þar til þær upplýsingar liggja fyrir verður öll umræða um fátækt hér á landi fremur ómarkviss.



Skoðun

Sjá meira


×