Sport

Hélt hreinu síðustu 358 mínúturnar

Antonios Nikopolidis er hokinn af reynslu í gríska markinu en þessi yfirvegaði markvörður fékk aðeins á sig fjögur mörk í Evrópukeppninni - í sex leikjum Grikkja. Nikopolidis hélt hreinu alla útsláttarkeppnina. Frökkum, Tékkum eða Portúgölum tókst ekki að skora hjá honum í útsláttarkeppninni. Portúgalir fundu engar leiðir framhjá sterkum varnarmúr Grikkja í úrslitaleiknum en Grikkir spiluðu sinn vanalega skipulagða og varnarsinnaða leik. Grikkir fengu heldur ekki mark á sig síðustu 358 mínúturnar í keppninni. Síðastur til að skora var Rússinn Dmitri Bulykin en Rússar, sem fóru heim eftir riðlakeppnina, voru eina liðið sem náði að leggja nýkrýnda Evrópumeistara að velli. Síðan þá unnu þeir 1-0 sigur á Frökkum í 8 liða úrslitum, 1-0 sigur á Tékkum í undanúrslit og 1-0 sigur á Portúgal í úrslitaleiknum. Nikapolidis varði öll tólf skotin sem á hann komu í úrslitakeppni Evrópumótsins. Nikopolidis er 33 ára og er nú orðinn markvörður gríska liðsins Olympiacos CFP. Hann varð grískur meistari með Panathanaikos á síðasta tímabili en sat á bekknum seinni hluta mótsins. Hann var í liðinu í 18 af fyrstu 20 leikjum liðsins en missti síðan sæti sitt. Í lok tímabilsins gerði hann þriggja ára samning við Olympiacos CFP og það er óhætt að þeir hafi verið heppnir að krækja í kappann. Nikopolidis varði 21 skot í Evrópukeppninni eða alls 84% skotanna sem á hann komu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×