Sport

KA-menn áfram í bikarnum

KA-menn tryggðu sér í dag sæti í átta liða úrslitum VISA-bikars karla í knattspyrnu með því að leggja Víking að velli, 4-2, í leik liðanna í Víkinni. Fyrri hálfleikur er með þeim fjörugri sem sést hafa í íslensku knattspyrnunni á þessu tímabili, fimm mörk litu dagsins ljós og eitt var dæmt af vegna rangstæðu. Víkingar fengu draumabyrjun en Viktor Bjarki Arnarsson skoraði strax á 5. mínútu. Viktor Bjarki fékk boltann um 25 metra frá marki KA-manna og þrumaði boltanum í stöngina og inn án þess að Sandor Matus, markvörður KA-mann hreyfði legg né lið. Pálmi Rafn Pálmason jafnaði metin fyrir KA-menn á 14. mínútu en hann lék þá Sölva Geir Ottsen, varnarmann Víkinga, grátt áður en hann renndi boltanum framhjá Martin Trancik, markverði Víkinga. Pálmi Rafn var síðan aftur á ferðinni fimm mínútum en þá nýtti hann slæm mistök í vörn Víkinga og skoraði með þrumuskoti frá vítateig. Víkingar gáfust þó ekki upp og jöfnuðu metin á 24. mínútu. Þá var brotið á Hauki Armin Úlfarssyni innan vítateigs, vítaspyrna var dæmd og úr henni skoraði Daníel Hjaltason af öryggi. Hinn marksækni Atli Sveinn Þórarinsson kom KA-mönnum aftur yfir á 31. mínútu með fallegu marki og einni mínútu síðar var mark sem Víkingurinn Grétar Sigurðsson skoraði dæmt af vegna rangstæðu. Í síðari hálfleik færðist meiri ró yfir leikinn og Jóhann Þórhallsson gulltryggði sigur KA-manna þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka eftir að hann komst einn í gegnum vörn Víkinga sem var sofandi einu sem oftar í leiknum. Víkingur - KA 2-4 1-0 Viktor Bjarki Arnarsson (5.), 1-1 Pálmi Rafn Pálmason (14.), 1-2 Pálmi Rafn Pálmason (19.), 2-2 Daníel Hjaltason, víti (24.), 2-3 Atli Sveinn Þórarinsson (31.), 2-4 Jóhann Þórhallson (70.)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×