Sport

Jón Arnór stóð sig vel gegn Kína

Jón Arnór Stefánsson stóð sig vel með sumarliði Dallas sem tók á móti kínverska landsliðinu í fyrrakvöld en Kína vann leikinn 85-80. Jón Arnór byrjaði inni á í leiknum og stal senunni þótt mesta athyglin hafi verið á þeim Devin Harris og Pavel Podkolzine sem Dallas valdi í nýafstöðnu nýliðavali. Harris er bakvörður líkt og Jón (aðeins minni) og Pavel er 2,26 metra miðherji frá Rússlandi. Mikið hefur verið talað um komu Harris, sem skoraði 15 stig í þessum leik, en hann mun örugglega keppa um stöðuna við Jón Arnór á þessu undirbúningstímabili. Jón Arnór hóf leikinn af krafti og var hrósað bæði fyrir áræðni sem og gott auga fyrir að koma öðrum leikmönnum liðsins inn í leikinn. Hann var með 8 stig og 3 stoðsendingar á 25 mínútum.  Jón Arnór þótti líkjast Steve Nash í leik sínum en honum var einnig hampað fyrir að spila góða vörn í leiknum. Dallas kemur til með að leika þrjá leiki gegn kínverska landsliðinu, sem er að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í Aþenu. Þjálfari liðsins er Del Harris, sem er einn af aðstoðarmönnunum hjá Don Nelson, þjálfara Dallas. Dallas-liðið er hins vegar á leiðinni í tvær sumardeildir, fyrst í Los Angeles og svo seinna í Utah. Allir þessir leikir eru mikilvægir fyrir Jón Arnór til að sýna sig og sanna áður en stóru karlarnir í liðinu snúa aftur í haust. Það var ekki mikið fundið að leik Jóns Arnórs að þessu sinni, einna helst að hann væri búinn að snoða sig, kvenþjóðinni í Dallas til mikillar mæðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×