Sport

Markov hættur með Búlgara

Þjálfari búlgarska landsliðsins í knattspyrnu, Plamen Markov, hefur sagt starfi sínu lausu í kjölfar lélegs árangurs á EM í Portúgal en þar tapaði liðið öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni. Búlgarska knattspyrnusambandið bauð Markov nýjan samning en honum fannst einfaldlega komið nóg - nú væri best að annar maður tæki við stjórnartaumunum en Markov hélt um þá í hálft þriðja ár. "Þegar ég tók við þessu starfi var markmiðið að setja saman gott lið á alþjóðlegan mælikvarða. Ég tel mig hafa náð því markmiði og er á því að leikmenn liðsins nú séu þeir sem komi til með að halda nafni knattspyrnunnar í Búlgaríu hátt á lofti í nánustu framtíð. Aðalástæðan fyrir afsögn minni er fyrst og fremst töpin þrjú á EM en ég tel liðið mun sterkara en lokastaða okkar í riðlinum sýndi," sagði Plamen Markov. Þeir þjálfarar sem nú hafa hætt eftir EM eru Jacques Santini, sem reyndar var búinn að lýsa því yfir hann myndi hætta eftir EM og taka við Tottenham, Rudi Völler, Þýskalandi, Otto Baric, Króatíu, Inaki Saez, Spáni, og Giovanni Trapattoni, Ítalíu. Ekki er ólíklegt að fleiri fylgi í kjölfar sexmenninganna. Þess má geta að við Íslendingar erum í riðli með Búlgörum í undankeppni HM sem hefst í haust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×