Sport

Butt á leiðinni til Newcastle

Nicky Butt, leikmaður Manchester United, er á leiðinni til Newcastle og er kaupverðið talið vera í kringum fjórar milljónir punda. Þar með lýkur langri og farsælli dvöl Butts í Manchester en hann komst á atvinnumannasamning hjá United árið 1993, á átjánda afmælisdegi sínum. Á þessum tíma sem liðinn er hafa margir góðir titlarnir unnist og var Butt yfirleitt einn af fastamönnum liðsins en halla fór undan fæti hjá honum á síðasta tímabili. Þá missti hann stöðu sína sem afturliggjandi miðvallarleikmaður til félaga síns, Phil Neville. Butt fékk tilboð frá Birmimngham á síðasta tímabili en hafnaði því enda vildi hann berjast fyrir stöðu sinni hjá United. Hann virðist nú hafa gefið þá baráttu upp á bátinn og lítur á flutninginn til Newcastle sem tækifæri til að byrja upp á nýtt. Talið hefur verið að koma Butts til Newcastle flýti fyrir för Gary Speed þaðan en Speed er ekki á því og vill ólmur berjast fyrir stöðu sinni í liðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×