Erlent

Nýr kafli í sögu Afganistans

"Erfið og myrk fortíð er nú að baki og í dag hefjum við nýjan kafla í sögu okkar, í anda vinskapar við alþjóðasamfélagið," sagði Hamid Karzai, þegar hann hafði svarið embættiseið sem fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Afganistans. Karzai hét því að koma á friði og öryggi, meðal annars með því að ráðast gegn fíkniefnaiðnaðinum og hryðjuverkamönnum sem ógna Afganistan. Gríðarleg öryggisgæsla var í Kabúl meðan á athöfninni stóð. Talibanar höfðu hótað því að láta til skarar skríða en rétt eins og í forsetakosningunum í október varð lítið úr því að þeir fylgdu hótunum sínum eftir. Fjöldi afganskra frammámanna og fulltrúa erlendra ríkja var viðstaddur embættistöku Karzai sem fram fór í víggirtri forsetahöllinni. Karzai sór embættiseið frammi fyrir forseta hæstaréttar Afganistans og sór síðan sjálfur inn varaforseta sína, Ahmed Zia Masood og Ustad Mohammed Karim Khalili. Í ræðu sem Karzai hélt eftir að hafa svarið embættiseið hét hann því að gera allt sem í hans valdi og embættis síns stæði til að vinna að framgangi og velferð afgönsku þjóðarinnar. Hann varaði þó við því að enn steðjuðu ógnir að afgönsku þjóðinni. "Ég verð að taka fram að baráttu okkar við hryðjuverk er hvergi nærri lokið, jafnvel þó okkur hafi tekist að draga úr þessari sameiginlegu ógn við allt mannkyn." Hryðjuverkaógnin var Dick Cheney, varaforseta Bandaríkjanna, einnig ofarlega í huga þegar hann ávarpaði bandaríska hermenn í Afganistan áður en hann hélt til embættistöku Karzai. "Frelsið á sér enn óvini hér í Afganistan og verkefni ykkar er að gera þessum óvinum lífið leitt," sagði hann við mikinn fögnuð hermanna. Karzai kynnir ríkisstjórn sína í næstu viku. Fyrir henni liggur að koma á miðstjórn sem nær til alls landsins, í dag er stórum landsvæðum stjórnað af stríðsherrum sem hafa miklar tekjur af eiturlyfjaframleiðslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×