Innlent

Refurinn er erfiður

"Við erum farin að sjá ljósglætu," segir Björn Halldórsson, formaður Sambands íslenskra loðdýraræktenda sem nú er staddur í Kaupmannahöfn ásamt Guðna Ágústssyni og föruneyti. Loðdýraræktendur hafa um langt skeið átt nokkuð erfitt uppdráttar. Er tilgangur fararinnar að sýna Guðna uppboðshús loðskinna, sem íslenskir loðdýrabændur hafa átt mikil viðskipti við. Björn segir að verð á skinnum hafi verið gott undanfarin tvö ár, en gengið á dollaranum hafi nú verið að stríða þeim. "Skinnin eru seld í dollurum og gengið hefur verið óvenju lágt að undanförnu." Björn segir það 100 til 150 milljónir sem loðdýrabændur á Íslandi fengju meira ef gengi dollara væri eðlilegt. "Það er ágætis verð á minknum, en refurinn er erfiður." Björn segir horfurnar ekki góðar fyrir refinn, sérstaklega vegna þess að ekki hefur tekist að koma refaskinni eins mikið inn í tískuna og minkinn. "Refurinn er önnur týpa af skinni, sem endist ekki eins lengi. Það hefur líka verið offramleiðsla á skinnum, til dæmis í Finnlandi." Tiltölulega fá refabú eru starfandi á Íslandi og tveir loðdýraræktendur hættu refaframleiðslu á árinu. Minkabændur eru hins vegar um 30 og mikil bjartsýni í greininni. "Við erum að reyna að ná niður fóðurverði og skipuleggja okkur aðeins betur," segir Björn. Þetta tvennt er meðal þess sem Guðni Ágústsson telur að íslenskir loðdýraræktendur geta lært af hinum dönsku. "Faglega og viðskiptalega getum við lært mikið af Dönunum. Það hefði verið gott að vinna með þeim í upphafi þegar þessi loðdýrarækt fór af stað á Íslandi," sagði Guðni. "Þetta er þróaður atvinnuvegur hjá þeim og markviss." Hann segist sérstaklega hafa tekið eftir hve samvinna loðdýrabænda í Danmörku er fagleg og í samræmi við góða viðskiptahætti. Á síðasta sölutímabili, frá desember 2003 til september 2004 náðist næst hæsta verð í Evrópu fyrir íslensk minkaskinn. Aldrei áður hafa íslenskir loðdýraræktendur náð jafn góðum árangri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×