Innlent

Ameríkanar á slóð gamalla sanninda

Breska dagblaðið Guardian greindi í síðustu viku frá nýjum uppgötvunum varðandi þrumur sem myndast í gosstrók eldgosa. Í greininni er vitnað til rannsókna vísindamannanna Earle Williams hjá MIT og Stephen McNutt hjá Alaskaháskóla, sem segja að í stað hefðbundinna hugmynda um að rafhleðsla myndist þegar aska nuddast saman þá vilji þeir meina að vatn og ís í bergkviku geti af sér "skítug þrumuveður" í gosstróknum. Vísindamennirnir ætla að kynna rannsóknir sínar á þingi bandarískra jarðeðlisfræðinga í San Francisco í vikunni. Bandarísku vísindamennirnir telja að íslag myndist á öskuagnir sem stíga upp af eldgosum þegar raki þéttist í gosstróknum. Þetta telja þeir sanna að meira magn vatns sé í bergkviku en áður hafi verið talið og því kunni að þurfa að breyta hættumati vegna eldgosa. "Í eldgosum er alveg haugur af eldingum, rétt eins og nú síðast í Grímsvatnagosinu," segir Þórður Arason, jarðeðlisfræðingur á sérþjónustudeild veðursviðs Veðurstofu Íslands. "Sérstaklega er það ef vatn og kvika ná að snertast að einhverju leyti eins og í gosum undir jökli eða sjó. Þá verður mikill eldingagangur, en það á líka við um önnur gos því alltaf er nokkur raki í jarðskorpunni og í kvikunni." Þórður segist hafa séð greinina sem birta á á ráðstefnu ameríska jarðeðlisfræðifélagsins í San Francisco og þótti menn þar fara villur vegar. "Vitað er að ef vatni er skvett á kviku, eða þess vegna glóandi járnplötu, þá verður sprenging eða hvellsuða á vatninu. Þessa tilraun er auðvelt að gera og kemur þá í ljós að hleðsluaðskilnaður verður í gufunni. Vatnsgufan verður jákvætt hlaðin," segir Þórður og bendir á að þetta hafi verið vitað í mörg hundruð ár. "Fyrstu tilraunir manna með rafmagn vor raunar þannig að menn bjuggu til rafmagn með því að skvetta vatni á glóandi kol. Þetta hefur verið margreynt, en menn síðan verið að koma með einhverjar útskýringar, sem hafa kannski ekki heyrt af þessu." Þórður segir hafa komið fram við mælingar í gosmekki Surtseyjargossins, 1963 til 1967, að aska hafi verið neikvætt hlaðin og vatnsgufa jákvætt.
Þórður Arason jarðeðlisfræðingur segir lengi hafa verið vitað að væri vatni skvett á glóandi flöt yrði hleðsluaðskilnaður í gufunni sem upp stigi við hvellsuðuna.Mynd/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×