Erlent

Óvissa um orsök sprengingarinnar

Algjör óvissa er um hvað olli kröftugri sprengingu í fjölbýlishúsi í Stokkhólmi í nótt. Lögregla segir að maðurinn sem bjó í íbúðinni þar sem sprengingin varð sé grunaður um að hafa stolið bókum fyrir margar milljónir króna af konunglega bókasafninu í Stokkhólmi. Það var klukkan hálffimm í morgun sem öflug sprenging skók fjölbýlishús við Súrbrunnsgötu í miðborg Stokkhólms. Sprengingin varð í íbúð á fimmtu hæð hússins. Íbúðin sprakk, útveggir hrundu og svo virðist sem risíbúðin fyrir ofan hafi sprungið í tætlur. Lýsingar nágranna eru dramatískar og segir einn þeirra að fyrst hafi hvellurinn heyrst og svo hafi skarkallinn komið frá glerbrotum og öðru slíku. Annar nágranni segist hafa vaknað við sprenginguna, hús hans hafi nötrað og þegar hann hafi litið út um gluggann sá hann götuna þakta múrbrotum og tígulsteinum. Bílar voru kramdir og gluggar í húsum hinum megin við götuna brotnir. Það þykir ótrúleg heppni að aðeins skyldu tveir slasast. Lögreglan hefur ekki enn getað skorið úr um orsök sprengingarinnar en kringumstæður virðast í meira lagi dularfullar. Eins manns er saknað, þess sem bjó í íbúðinni sem sprengingin varð í. Í upphafi grunaði lögregluna hryðjuverk eða gassprengingu. Nú liggur fyrir að maðurinn sem saknað er starfaði hjá konunglega sænska bókasafninu í Stokkhólmi og var grunaður um að hafa stolið þaðan fjölda sjaldgæfra miðaldarita að verðmæti margra milljóna sænskra króna. Honum var sleppt úr gæsluvarðhaldi á föstudaginn var og lögreglan útilokar ekki að semhengi sé á milli atburðarins og rannsóknarinnar á bókastuldinum, sem má líkja við að starfsmaður léti greipar sópa á Árnastofnun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×