Innlent

Íslensk hrefna í hitabeltinu

Íslensk hrefna er nú stödd í hitabeltinu samkvæmt frétt á vef Hafrannsóknarstofnunar. Þann 17. nóvember bárust merki um gervitungl frá hrefnu sem merkt hafði verið í Faxaflóa 27. ágúst og voru það fyrstu upplýsingarnar sem bárust frá því dýri. Hrefnan var þá stödd yfir Mið-Atlantshafshryggnum, um 500 sjómílur vestur af Norður-Spáni. Merkið er einungis virkt á sex daga fresti til að auka endingartíma rafhlöðunnar og þann 23. nóvember bárust aftur sendingar frá hrefnunni sem þá hafði farið um 700 km sunnar og hélt sig á hafsvæðinu við Azoreyjar. Þann 5. desember bárust enn sendingar frá dýrinu og var það þá statt í Kanarístraumnum, um 1000 km norðvestan við Grænhöfðaeyjar. Hrefnan var þá um 3700 km frá merkingarstaðnum í Faxaflóa. Þessar sendingar eru talsvert sunnar og austar en áður hafa borist frá merktum hrefnum. Hafa ber þó í huga að ekki hefur áður tekist að fylgjast með ferðum hrefna svo langt fram á veturinn og ekkert lát var á suðurferð hinna tveggja hrefnanna þegar síðast bárust sendingar frá þeim (8. nóvember 2002 og 8. október 2004). Ekki er ljóst hvaða leið hrefnan fór á Azoreyjasvæðið en ekki er útilokað að hún hafi fylgt sömu upphafsstefnu og hinar tvær, þ.e. suðvestur eftir Reykjaneshrygg, en síðan sveigt til austurs eftir Mið-Atlantshafshryggnum til Azoreyjasvæðisins. Þótt þessar rannsóknir hafi þegar skilað mikilsverðum upplýsingum um far hrefnu að haustlagi og vonir standi til að frekari upplýsingar fáist frá þessu dýri, er þörf á frekari rannsóknum til að varpa ljósi á hegðun tegundarinnar og aðsetur hennar að vetrarlagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×