Erlent

Enn ein árásin í Írak

Enn á ný varð gerð sjálfsmorðsárás í miðborg Bagdad í morgun, en í þetta skipti virðist skotmarkið hafa verið röð umsækjenda um störf hjá öryggissveitum Íraks. Þeir stóðu í röð til að láta ljósrita skilríki sín þegar bílsprengja sprakk. Fólk þeyttist í loft upp og tíu bílar brunnu til ösku. Ellefu fórust og fjöldi særðist. Talið er að hryðjuverkahópur Abus Musabs al-Zarqawis beri ábyrgð á árásinni, eins og ráninu á þremur vestrænum verktökum í vikunni. Tveir þeirra hafa nú verið drepnir, þar sem ekki hefur verið orðið við kröfum þeirra um að kvenföngum í haldi Bandaríkjamanna verði sleppt. Talsmenn herliðsins í Írak segja einungis tvær konur í haldi, báðar vísindamenn sem áttu þátt í gjöreyðingavopnaáætlun Saddams Hússeins. Íröksk yfirvöld sögðu í morgun að öðrum fanganum, Rihab Taha, sem þekkt er sem doktor sýkill, yrði sleppt í dag í kjölfar þess að mál hennar var endurskoðað. Ekki er vitað hvort að mannræningjarnir sækjast sérstaklega eftir því að þessar tvær konur sleppi, eða hvort þeir vita ekki að fleiri konur eru ekki í haldi. Talsmenn hersetuliðsins, sem hafa bæði Taha og hinn sérfræðinginn, Huda Ammash, betur þekkt sem fröken miltisbrandur, í haldi, segja ekki koma til greina að sleppa þeim. Því er alls óvíst um þriðja gísl mannræningjanna, sem þeir hótuðu að skera á háls innan sólarhring.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×