Erlent

Júsjenkó sigurstranglegri

Spennan magnast í Úkraínu þar sem styttist í forsetakosningar - aftur. Kannanir benda til sigurs stjórnarandstöðunnar eins og síðast. Forsetakosningarnar verða endurteknar á sunnudaginn kemur og það er greinilegt að frambjóðendurnir tveir ætla að berjast um hvert einasta atkvæði. Stjórnarandstæðingurinn Viktor Júsjenkó ætlar sér að sigra með afburðum. Á útifundi í dag sagði hann mörg stjórnmálaöfl munu standa að nýrri ríkisstjórn. Valið verði í nýja ríkisstjórn á grundvelli heiðarleika, fagmennsku og föðurlandsástar. „Aðeins heiðarlegir embættismenn eiga heima í nýju ríkisstjórninni. Það verður ekkert pláss fyrir falsara, spillta embættismenn og aðskilnaðarsinna,“ sagði Júsjenkó. Svipaða sögu er að segja úr röðum stuðningsmanna forsætisráðherrans, Viktors Jánúkovítsj, sem virðast þó ekki fylltir sama eldmóði og fylgismenn Júsjenkós. Kannanir benda enda til að Júsjenkó vinni, eins og raunar fyrir síðustu kosningar sem hæstiréttur Úkraínu ógilti vegna víðtækra kosningasvika.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×