Skoðun

Eignaskattar og aldraðir

Málefni aldraðra - Ólafur Ólafsson, formaður Félags eldri borgara Mikið hafa stjórnvöld hampað lækkun prósentu eignaskatts úr 1.2% í 0.6%, og loforðum um að afnema hann. En Adam var ekki lengi í paradís. Þegar eignaskattur var lækkaður í 0,6% var jafnframt "fríeignamörkum" haldið óbreyttum, milli áranna 2002 og 2003 eða kr. 4.720.000. Fríeignamörk kalla ég þá upphæð sem einstaklingur getur dregið frá sinni eign áður en eignaskattur er lagður á. Núna árið 2004 hafa stjórnvöld hækkað þessi mörk um heil 2.5 % í kr. 4.838.000. Á þessum sama tíma hafa stjórnvöld hækkað matsverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu um 20-30%, þannig að eignaskattur af íbúðum hefur aukist verulega að nýju. Þetta er nákvæmlega sama aðferð og ríkisstjórnin hefur notað að hækka ekki persónuafslátt vegna tekjuskatts og auka þar með skattheimtu. Hjá flestum eldri borgurum er skuldlaus íbúð, þar sem þeir hafa búið í 40-50 ár, stærsti hluti eigna þeirra. Enda greiddu, eldri borgarar árið 2003 29% af öllum eignasköttum í stað 25% áður. Maður verður að vona að það sé loks að renna upp einhver glæta meðal ráðamanna, að það sé ódýrast fyrir þjóðfélagið að gera eldri borgurum það kleift að búa í sinni íbúð eins lengi og kostur er. Aukinn eignaskattur gerir illt verra. Með minnkandi starfsgetu gætu hjón þurft aðstoð á heimilinu, sem gæti kostað t.d. hálfa miljón á ári. En að vista þau hjón á hjúkrunarheimili kostar 9 miljónir á ári. Er stjórnvöldum fyrirmunað að reikna út þann sparnað sem hlýst af því að gera þessum hjónum það kleift að búa áfram heima? Fjöldi aldraðra eykst um nokkur hundruð á ári, og þannig er um milljarða sparnað að ræða ef fólki er gert kleift að búa áfram heima. Þó er ótalin hin mannlega hlið málsins. Eignaskattur af íbúðarhúsnæði gerir fólki erfiðara að búa áfram í eigin íbúð. Þess vegna verður að vera næsta skref til að lækka eignaskatt að hækka "fríeignamörk" verulega þannig að venjuleg íbúð sé undanþegin eignaskatti.



Skoðun

Sjá meira


×