Skoðun

Hvort er æðra valdhafar eða þjóðin

Hverjir eiga að ráða? - Ingólfur Margeirsson, rithöfundur Svokallað fjölmiðlafrumvarp, sem nú hefur verið afturkallað, var fyrir löngu hætt að snúast um eignarrétt á fjölmiðlum. Í meðferð stjórnarherranna fjallaði málið um vald, valdbeitingu, og stjórnarfarslegan rétt þjóðar. Málið snerist um lýðræðið og lýðveldið. Hinn gamli, franski byltingarsinni Danton sagði eitt sinn í frægri ræðu: "Þjóðin er ætíð æðri valdhöfunum". Hárrétt hjá honum. Þjóðin kýs valdherrana. Valdherrarnir kjósa ekki þjóðina. Á hvaða stoðum hvílir lýðveldið ef valdhafar eru orðnir þjóðinni meiri og máttugri.? Er það ekki einmitt það sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ætlaði að framkvæma? Ríkisstjórnin hefur meirihluta á þingi en ekki meðal þjóðarinnar. Þess vegna er mikilvægt að þjóðin - fólkið í landinu - ráði sem minnst í sínum málum og komist ekki náálægt ákvarðanatöku um eigin málefni. Það skulu Davíð og félagar gera. Fyrir mér málið sáraeinfalt. Forseta finnst ákveðið frumvarp einkennilegt, hann er þinginu ósammála og telur rétt að þjóðin ákveði réttmæti frumvarpsins. Hann skrifar því ekki undir og skýtur málinu til þjóðarinnar. Þetta kemur reyndar flestum á óvart því þjóðin er orðin vön linum forsetum og harðri stjórnarpólitík. Nú skal gert út um málið í þjóðaratkvæði samkvæmt heimild í stjórnarskrá. Valdhöfum líst illa á þessa ráðagerð, því svo gæti farið að þjóðin felldi frumvarpið. Betra sé að halda málinu innan veggja þingsins þar sem stjórnarherrarnir hafa höld og taglir í sinni hendi vegna meirihluta. Forsætisráðherra ákveður því að draga frumvarpið til baka, breytir mjúklega helstu ádeiluatriðum og segir hróðugur í fjölmiðlum að þessu nýja frumvarpi geti forseti ekki neitað. Annað telja þó forsvarsmenn í Framsóknarflokknum enda lafhræddir við snarminnkandi fylgi kjósenda. Valdhafar eru nú komnir með málið í svikamyllu; neiti forseti enn einu sinni að skrifa undir og sendi málið til þjóðarinnar, eru miklar líkur á, að þjóðin sé orðin svo leið á þessu þrátefli að hún samþykki einfaldlega lögin. Og valdhöfum takist að brjóta lýðræðið og vilja þjóðarinnar á bak aftur með valdaklækjum. Þannig mun ríkisstjórnin ennfremur lifa af þennan hildarleik og stjórnarsamstarfið ekki í yfirvofandi hættu. En lýðræðið myndi bíða ósigur og sannað yrði að valdhafar eru æðri fólkinu í landinu



Skoðun

Sjá meira


×