Sport

Presturinn brást ekki með veðrið

"Maður biður bænirnar sínar og það ber greinilega árangur," segir Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæ og forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar, en það þótti strax í upphafi rétt að setja Gísla í veðurdeildina, sem er sú almikilvægasta þegar halda á landsmót. Mestar líkur þóttu til að klerkurinn gæti þar beitt ítökum sínum og það var ekki að heyra að hann væri neitt stressaður af þessari ábyrgð, var sallarólegur í viðtölum um þetta efni fyrir mótið. Þau Glaumbæjarhjón, Gísli og Þuríður Þorbergsson, voru mjög ánægð með hlutina þegar við hittum þau á vallarsvæðinu á Sauðárkróki á föstudaginn. Þá eins og alla landsmótshelgina var einmuna veðurbíða á Sauðárkróki, sólskin, lygnt og hitinn um og yfir 20 gráðurnar. Mikinn hitaskúr gerði á laugardagskvöld og það var ekki fyrr en á sunnudeginum sem dró ský fyrir sólu, og kannski var það tákn um velvild veðurguðanna til mótshaldsins að um það bil sem mótslit voru á enda byrjaði rigninarúði. Veðurblíðan tók öllu öðru fram á fyrsta degi landsmótsins, fimmtudeginum, þar sem talað var um að Íslandsmet hefði verið slegið, í fimm hlaupagreinum í röð mældist vindurinn núll. Því er haldið fram að slíkt hafi aldrei gerst í frjálsíþróttakeppni í landinu áður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×