Innlent

Psóríasis veldur miklum óþægindum

Langflestir psóríasissjúklingar verða fyrir verulegum óþægindum af völdum sjúkdómsins og haga daglegu lífi sínu eftir dyntum hans. Þetta sýna nýjar rannsóknir sem kynntar voru í dag. SPOEX, samtök psóríasis- og exemsjúklinga, kynntu niðurstöður tveggja rannsókna í dag - einnar sem er hluti Evrópurannsóknar á lífsgæðum psóríasissjúklinga, og annarrar sem fór fram í nokkrum löndum meginlands Evrópu um afstöðu til sjúklinganna og sjálfsmyndar þeirra. Fyrsti alheimsdagur psóríasissjúklinga er á föstudag og er stefnt að því að halda hann framvegis 29. október á ári hverju. Stella Sigfúsdóttir markaðsfræðingur segir að niðurstöður kannananna hafi að flestu leyti verið í þá átt sem hún átti von á, en þó ekki að öllu leyti. Til að mynda kom á óvart hve sjúkdómurinn hefur gríðarlega mikil áhrif á fataval, hvað hann veldur miklum truflunum á svefni og að það sé algengara hjá körlum en konum að psóríasis sé vandamál í kynlífi. Um 9000 Íslendingar hafa psóríasis. Ef marka má niðurstöður kannananna skerðir þessi húðsjúkdómur lífsgæði langflestra þeirra. Valgerður Auðunsdóttir, formaður SPOEX, segir ótrúlega stóran hluta almennings ekki kæra sig um snerta psóríasissjúklinga, hvað þá hafa nánari samskipti við þá en það. Þó er sjúkdómurinn ekki smitandi. Til að eyða fordómum hefur SPOEX nú gefið út bók sem öllum krökkum í 1.-3. bekk á landinu fá gefins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×