Erlent

Rumsfeld rekinn?

Donald Rumsfeld verður ekki langlífur í embætti, fái félagar hans í Repúblíkanaflokknum einhverju ráðið. Bæði þingmenn og þungavigtarmenn í flokknum gagnrýna Rumsfeld og segja hann ótrúverðugan. Í þessu felst óbein gagnrýni á stefnu og störf Bush forseta. Stutt er síðan George Bush Bandaríkjaforseti ákvað að Rumsfeld héldi áfram sem varnarmálaráðherra en eftir kosningar var talið að hann væri meðal þeirra sem yrði skipt út. En nú virðist óvíst að Bush takist að halda í Rumsfeld þar sem þungavigtarþingmenn úr röðum Repúblíkana vilja að hann verði rekinn og gagnrýna hann fyrir að hlusta ekki nægilega vel á ráðgjafa sína úr röðum hermanna. Gagnrýni á Rumsfeld hefur vaxið mjög undanfarið, ekki síst í kjölfar svars hann við umkvörtunum bandarísks hermanns í Írak þegar Rumsfeld var þar í heimsókn nýlega. Þegar hermaðurinn kvartaði undan skorti á vopnum og farartækjum svaraði Rumsfeld: „Maður fer í stríð með þann her sem maður hefur.“ Íhaldsmenn hafa gert aðför að Rumsfeld undanfarið, saka hann um að misreikna sig og vera ótrúverðugur. Meðal gagnrýnendanna eru þingmennirnir John McCain og Trent Lott og hershöfðinginn fyrrverandi, Norman Schwarzkopf. Þeir segja ótækt að hann hafi ekki fjölgað hermönnum í Írak fyrir löngu og að með öllu sé ólíðandi að hermenn vanti vopn. Fréttaskýrendur segja að í þessu felist um leið breyting á viðhorfi ráðandi repúblíkana gagnvart stríðinu í Írak. Fram til þessa hafa þeir stutt stefnu Bush forseta en nú eru sagðar komnar upp verulegar efasemdir um framgang mála í landinu. Þó að McCain sé þekktur fyrir að fara sínu fram eru aðrir gagnrýnendur á meðal tryggustu fylgismanna Bush, sem er túlkað sem svo að efasemdirnar séu ekki bundnar við nokkra þverhausa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×