Viðskipti innlent

Ákærður fyrir innherjasvik hjá Glitni

Friðfinnur gegndi stöðu framkvæmdastjóra fjárstýringar hjá Glitni. Hann fór síðan til starfa hjá Íslandsbanka.
Friðfinnur gegndi stöðu framkvæmdastjóra fjárstýringar hjá Glitni. Hann fór síðan til starfa hjá Íslandsbanka. Fréttablaðið/valli
Sérstakur saksóknari hefur ákært Friðfinn Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárstýringar Glitnis, fyrir innherjasvik. Honum er gefið að sök að hafa selt hlutabréf sín í bankanum þrátt fyrir að búa yfir vitneskju um slæma stöðu hans í aðdraganda bankahrunsins.

Þingfesting ákærunnar er á dagskrá Héraðsdóms Reykjaness 4. júní næstkomandi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins námu viðskiptin á annan tug milljóna króna.

Friðfinnur var meðal þeirra starfsmanna sem fengu há lán hjá Glitni nokkrum mánuðum fyrir fall bankans. Einkahlutafélag hans, Laugalind, fékk 171 milljón að láni og varð gjaldþrota í fyrrasumar. Engar eignir fengust upp í þrjú hundruð milljóna skuldir, að því er greint var frá í DV.

Þetta er annað innherjasvikamálið sem embætti sérstaks saksóknara höfðar frá bankahruni. Hitt var á hendur Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, sem seldi hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir 194 milljónir króna í september 2008. Baldur fékk tveggja ára fangelsisdóm fyrir brotið.- sh





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×