Skoðun

Tími til að standa á eigin fótum

Lilja Mósesdóttir skrifar
Fram til þessa hefur okkur tekist að ná frekar mjúkri lendingu hagkerfisins með m.a. gjaldeyris­höftum, hallarekstri ríkissjóðs og frystingu lána fyrirtækja og heimila. Nú er komið að tímamótum í endurreisninni og orðið tímabært að standa á eigin fótum. Byrja verður á að segja samningum við AGS upp áður en til þriðju endurskoðunar kemur. Samhliða því þarf að grípa til aðgerða sem örva efnahagslífið, þannig að það komist sem fyrst upp af botninum. Slíkar aðgerðir eru veruleg vaxtalækkun, almenn niðurfærslu lána og hægfara aðlögun ríkisútgjalda.

Tími AGS liðinnUpphaflegi samningurinn við AGS gerði ráð fyrir að hann tæki enda 30. nóvember nk. en nú er búið að framlengja hann um 9 mánuði eða til loka ágúst 2011. Töfin er tilkomin vegna tilrauna til að beita Íslendinga þrýstingi í Icesave-deilunni. Hlutverk AGS hér á landi er fyrst og fremst að tryggja að Íslendingar greiði upp sem mest af skuldum sínum. Ef það er ekki mögulegt, þá þarf að tryggja að fjármagnseigendur fái nógu háar vaxtagreiðslur. Samningurinn við AGS er í raun fullveldisafsal. Allar ákvarðanir á sviði peningamálstefnunnar, ríkisfjármála og fjármálakerfisins þarf að bera undir sjóðinn áður en þær eru teknar.

Gjaldeyrisvarasjóðurinn er að ná þeirri stærð sem að var stefnt með lánum frá AGS og vinaþjóðunum. Hann er nú um 700 milljarðar, þrátt fyrir að AGS og vinaþjóðirnar eigi enn eftir að lána okkur helminginn af umsamdri upphæð, þ.e. 600 milljarðar. Í dag getum við endurfjármagnað lán fram á árið 2012 sem er lengra tímabil en flestar aðra Evrópuþjóðir geta státað sig af. Við verðum að læra af sögu annarra þjóða og forðast skuldasöfnun með sífellt þyngir vaxtagreiðslur. Vextir á ári af gjaldeyrisvarasjóði sem fenginn er að láni og nemur um 50% eru 24 milljarðar. Spörum 12 milljarða og hættum frekari lántöku hjá AGS og „vinaþjóðum".

Vextir keyrðir niðurSíðustu 3 mánuði hefur verðlag lækkað um 2,3% en slíkt ástand er kallað verðhjöðnun. Verðhjöðnun er merki um að fjárfestar og neytendur haldi að sér höndum en það gerist yfirleitt í kjölfar bankahruns. Ef vextir eru ekki lækkaðir verulega, þá er hætta á að hagkerfið festist í neikvæðum vítahring sífellt meiri samdráttar. Stýrivextir eru nú 7% og vaxtalækkanir peningastefnunefndar hafa verið alltof litlar fram til þessa, ekki síst í ljósi þess að þær hafa ekki áhrif fyrr en eftir 6-8 mánuði. Verðhjöðnun sem nemur 2,3% mun þýða að raunvextir verða rúm 9% sem er alltof hátt ekki síst vegna þess að meirihluti íslenskra fyrirtækja er tæknilega gjaldþrota. Íslensk fyrirtæki gera því lítið annað en að afla tekna fyrir vaxtagreiðslum.

Ef okkur á að takast að komast hratt upp af botni kreppunnar, þá verður að lækka stýrivexti niður í a.m.k. 2%. Slík stýrivaxtalækkun mun draga verulega úr útgjöldum Seðlabankans sem hefur hingað til þurft að greiða viðskiptabönkunum 35 milljarða á ári í vaxtagreiðslur vegna þess að þeir eru fullir af peningum og hagkvæmara er fyrir þá að leggja peninga inn á reikning Seðlabanka en að lána skuldsettu atvinnulífi. Gjaldeyrishöftin munu koma í veg fyrir gengisfall krónunnar þegar stýrivextir fara niður fyrir 2% og halda áfram að vera skjól fyrir óróleika á alþjóðlegum mörkuðum. Rannsóknir geta ekki staðfest skoðun AGS að háir stýrivextir tryggi gengisstöðugleika, en markmið peningamálastefnu AGS er gengisstöðugleiki. Í ljósi reynslunnar af peningastefnu Seðlabankans er mikil bjartsýni að halda að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin og treysta á að stýrivextir komi í veg fyrir gengishrap krónunnar. Auk þess þarf ekki marga spákaupmenn og jöklabréfaeigendur til að ryksuga upp gjaldeyrisvarasjóðinn á örskömmum tíma.

Almenn skuldaleiðréttingStjórnvöld eiga að beita almennri aðgerð til að leiðrétta skuldir heimilanna. Ísland sker sig úr öðrum ríkum sem farið hafa í gegnum fjármálakreppu hvað varðar útbreiðslu verðtryggingar. Sérfræðingar sem rannsakað hafa fjármálakreppur fullyrða að verðbólgurýrnun óverðtryggðra lána hafi komið í veg fyrir að kreppan yrði enn dýpri, þ.e. varnað enn fleiri gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja. Gjaldþrot eru kostnaðarsöm fyrir samfélagið, þar sem fleiri neyðast til að afla tekna í svarta hagkerfinu og gjaldþrota fyrirtæki eru töpuð atvinnutækifæri. Við slíkar aðstæður aukast líkurnar á að heimili fólks, fyrirtæki og auðlindir fari á brunaútsölu. Almenn aðgerð er í samræmi við anda norræna velferðarkerfisins, þar sem áhersla er lögð á að allir sem orðið hafa fyrir sama tjóni fái sömu leiðréttingu en síðan er skattkerfið notað til að ná til baka af þeim sem ekki þurftu á aðstoð að halda. Sértækar aðgerðir eru dýrar og tímafrekar í framkvæmd og ekki í samræmi við ráðleggingar sérfræðinga um að mikilvægt sé að ná fram leiðréttingu skulda fljótt ef skuldavandinn á ekki að tefja endurreisnarferlið.

Hægari niðurskurðurMikilvægt er að ná niður hallanum á ríkissjóði til lækka vaxtaútgjöld hans. Á þessu ári greiðir ríkið 1 krónu af hverjum 5 krónum í vexti sem er óviðundandi ástand þegar til lengdar lætur. Ríkisstjórnin hefur kynnt niðurskurð á næsta ári sem á að nema um 34 milljörðum. Niðurskurður eykur samdráttinn í efnahagslífinu, minnkar tekjur ríkissjóðs og eykur útgjöld til atvinnuleysistryggingasjóðs. Niðurskurður mun komast verst niður á þeim sem hvað veikasta stöðu hafa í samfélaginu, þ.e. öryrkjum, sjúklingum, börnum og atvinnulausum. Kostnaðarminnsta leiðin til að ná hallanum á ríkissjóði niður er að flýta skattlagningu séreignasparnaðarins. Halli ríkissjóðs er um 90 milljarðar en ríkið á inni hjá þeim sem eiga séreignasparnað um 100 milljarða í ógreidda skatta sem myndu þá renna til ríkissjóðs á næsta ári. Skattlagningu séreignasparnar má líkja við vaxtalaust lán, þar sem framtíðarskattgreiðendur geta ekki treyst á að ríkið fái skatt þegar séreignasparnaður er greiddur út. Þó má ekki gleyma, að greiðsla skatts af inngreiddum séreignasparnaði mun síðan þýða á bilinu 10-13 milljarða tekjuauka fyrir ríkissjóð á næstu árum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.