Viðskipti innlent

Nýi Glitnir verður að Íslandsbanka á ný

Íslandsbanki varð að Glitni sem varð að Nýja Glitni sem verður Íslandsbanki.
Íslandsbanki varð að Glitni sem varð að Nýja Glitni sem verður Íslandsbanki.

Nýi Glitnir, sem áður hét Íslandsbanki, hefur ákveðið að taka upp gamla nafnið á ný. Nafnabreytingin tekur gildi þann 20. febrúar næstkomandi.

„Breytingaferlið, sem mun eiga sér stað á næstunni, var kynnt starfsmönnum bankans í dag en samhliða nafnbreytingunni voru kynntar áherslubreytingar í starfsemi bankans," segir í tilkynningu frá bankanum og sagt að allir starfsmenn bankans muni koma með virkum hætti að stefnumótunarstarfinu.

„Á undanförnum mánuðum hafa orðið miklar breytingar í íslensku efnahagslífi. Mikilvægt er að íslenskt bankakerfi komist sem allra fyrst á fullt skrið til þess að styðja við einstaklinga og atvinnufyrirtæki. Stjórn og starfsfólk bankans munu taka þátt í uppgjöri við fortíðina af heilindum og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að liðsinna óháðum aðilum við úttekt á starfsemi undanfarinna ára," segir í tilkynningu frá bankanum og því bætt við að það sé stefna stjórnar bankans að fá erlent ráðgjafafyrirtæki til þess að fara yfir allt innra eftirlit bankans. „Starfsfólk bankans gerir sér fulla grein fyrir því að nafnið Glitnir hefur beðið hnekki í því aftakaveðri sem gengið hefur yfir íslenskt fjármálalíf undanfarna tvo mánuði," segir Birna Einarsdóttir bankastjóri.

„Með nafnabreytingunni er þó ekki verið að setja nýjar umbúðir utan um gamla starfsemi, heldur verið að leggja áherslu á að bankinn er í dag fyrst og fremst íslenskur banki. Helsta hlutverk Íslandsbanka verður að þjóna íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Því hlutverki ætlum við að sinna af alúð og ábyrgð," segir hún.

Breytingin á bankanum gerist ekki á einni nóttu að sögn Glitnismanna og munu þær koma innan frá. „Starfsfólk bankans mun leggjast í mikla stefnumótunarvinnu næstu tvo mánuðina þar sem grunnurinn verður lagður að nýjum banka", segir Birna, og bætir við að markmiðið sé að halda kostnaði vegna nafnabreytingarinnar í lágmarki. Hún segir starfsfólk bankans gera sér fulla grein fyrir að breytingarnar fela í sér miklar áskoranir. Nafnabreytingin verður lágstemmd að hennar sögn og áhersla lögð á að láta verkin tala.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.