Viðskipti innlent

Samnýta 3G og GSM dreifikerfi hvors annars

3G farsími frá Sony Ericsson
3G farsími frá Sony Ericsson

Vodafone og Nova hafa samið um samnýtingu farsímakerfa hvors annars og hafa stjórnir félaganna þegar samþykkt samning þess efnis. Samningurinn felur í sér að Vodafone fær aðgang að nýju dreifikerfi Nova fyrir þriðju kynslóð farsíma (3G) og Nova fær aðgang að GSM farsímakerfi Vodafone.

Fram kemur í fréttatilkynningu að samnýting dreifikerfa fyrir 3G þjónustu hafi færst í vöxt í Evrópu og telji stjórnir Vodafone og Nova að samningurinn feli í sér verulegt hagræði fyrir bæði félögin. Samkomulagið sé í samræmi við útboðslýsingu Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir 3G tíðniheimildir sem veitir rétthöfum svigrúm til samnýtingar á dreifikerfum.

Markmið samningsins er að draga úr kostnaði við uppbyggingu dreifikerfa þar sem Vodafone kemur til með að bjóða sína 3G þjónustu á dreifikerfi Nova í stað þess að félögin komi upp tveimur kerfum samhliða með tilheyrandi kostnaði.

Nova er íslenskt þjónustufyrirtæki í eigu fjárfestingarfélagsins Novator. Nova mun bjóða 3G farsíma- og netþjónustu á Íslandi síðar á þessu ári. Markmið fyrirtækisins er að 3G þjónusta þess nái til höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness fyrir lok þessa árs og til 80% landsmanna á næsta ári.

Vodafone á Íslandi er fjarskiptafyrirtæki í eigu Teymis hf. GSM þjónusta Vodafone nær til 98% landsmanna.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.