Um­­fjöllun og við­töl: KR - Leiknir R. 1-1 | Ömur­­­legt gengi KR á heima­velli heldur á­­­fram

Árni Konráð Árnason skrifar
Leiknismenn fagna marki sínu.
Leiknismenn fagna marki sínu. Vísir/Hulda Margrét

KR og Leiknir gerðu 1-1 jafntefli í 7. umferð Bestu deildarinnar í mjög svo kafla skiptum leik í dag og var þetta í jafnframt í fyrsta skipti sem að Leiknir sækir stig gegn KR-ingum í mótsleik. Mark KRinga gerði Hallur Hansson en mark Leiknis gerði Mikkel Dahl. 

Þetta var fyrsta mark beggja leikmanna í Bestu deildinni.

Brynjar Hlöðversson knúsar Mikkel Dahl eftir að sá síðarnefndi jafnaði metin í Vesturbænum.Vísir/Hulda Margrét

Fyrri hálfleikur var afar bragðdaufur og tíðindalítill. KRingar byrjuðu fyrri hálfleikinn betur og sóttu strax hátt á völlinn. Það tók KR einungis tíu mínútur að setja boltann í net Leiknismanna. 

Það gerði Hallur Hansson eftir fyrirgjöf frá Aroni Kristni Lárussyni. Aron sendi boltann frá vinstri kanti að markteig Leiknismanna og Hallur Hansson klafsar boltanum í netið, 1-0 fyrir KR og jafnframt fyrsta mark Færeyingsins í Bestu deildinni.

KR-ingar fagna marki Halls.Vísir/Hulda Margrét

Einungis þremur mínútum síðar voru Leiknismenn afar nálægt því að gera sjálfsmark. Það atvikaðist þannig að Arnór Ingi ætlaði að losa pressuna en sparkaði boltanum í Dag Austmann og boltinn var á leið í markið en Viktor Freyr henti sér á boltann og forðaði sjálfsmarki.

Öðrum þremur mínútum síðar, eða á 16. mínútu leiksins átti Kennie Chopart frábæra fyrirgjöf, inn fyrir vörn Leiknismanna og rataði boltinn á Þorstein Má sem að þrumaði boltanum í netið. 

Þorsteinn þó rangstæður og markið því ekki dæmt, frábært slútt hjá Þorsteini engu að síður.

Aron Kristófer Lárusson lagði upp mark KR.Vísir/Hulda Margrét

Við tók „kick and run“ fótbolti og var það sem að eftir lifði fyrri hálfleiks mjög bragðdauft og tíðindalítið, KR leiddi 1-0 í hálfleik.

Leiknismenn byrjuðu síðari hálfleik af meiri krafti en þann fyrri. Leiknismenn spiluðu á móti vind og það virtist henta leikstílnum þeirra töluvert betur. 

Þeir uppskáru hornspyrnu á 54. mínútu. Boltinn fór fyrir mark KR-inga þar sem að Róbert Hauksson kemur boltanum í átt að marki en Beitir ver boltann út í teig þar sem að Mikkel Dahl var vel vakandi og kemur boltanum í netið og gerir jafnframt sitt fyrsta mark í Bestu deildinni, 1-1 á Meistaravöllum.

Róbert Hauksson kom að jöfnunarmarki Leiknis.Vísir/Hulda Margrét

Mikkel Dahl var síðan aftur á ferðinni á 71. mínútu þegar að Róbert Hauksson, sem var kominn að enda vallarins, átti sendingu út í teiginn á Mikkel Dahl en skot hans langt yfir markið af stuttu færi. Kjörið tækifæri fyrir Leiknismenn að taka forystu í leiknum.

Á 80. mínútu leiksins gerðu Leiknismenn í þrígang atlögu að marki KRinga en KRingum tókst í sífellu að bægja hættunni frá áður en að Ívar Orri dæmdi brot á Sindra Björnsson. Virkilega spennuþrungið augnablik.

Það var hart barist.Vísir/Hulda Margrét

Leiknismönnum tókst þó ekki að tryggja stigin þrjú þrátt fyrir mörg færi og endaði leikurinn því 1-1 í þessum mjög svo kaflaskipta leik. KRingar mun betri í fyrri hálfleik og Leiknismenn áttu mögulega sínar verstu 45 mínútur frá upphafi móts í fyrri hálfleik. 

Leiknismenn komu aftur á móti mun sterkari inn í síðari hálfleikinn og fengu fullt af færum til þess að komast yfir og KRingar í raun heppnir að sleppa með stig.

Af hverju skildu liðin jöfn?

KRingar stýrðu leiknum frá A-Ö í fyrri hálfleik en komu bara slakir inn í seinni hálfleikinn. Eftir að Leiknismenn skora stjórnuðu þeir leiknum. Öfugt farið með Leiknismenn sem að voru arfaslakir í fyrri hálfleik en sýndu mikinn karakter í þeim síðari og skoruðu mark og hefðu vel getað bætt við fleirum.

Hverjir stóðu upp úr?

Kennie var góður á boltann í leiknum og hélt stöðugleika í spilamennsku sinni út leikinn. Leiknisliðið í heild sinni var frábært í síðari hálfleik. Markmennirnir báðir þeir Beitir og Viktor áttu flottan leik og björguðu liðum sínum oft.

Kennie var sprækur að venju.Vísir/Hulda Margrét

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Leiknismanna einkenndist af „kick and run“ fótbolta, með vindinn í bakinu endaði boltinn oft á tíðum langt frá leikmanni og fengu þeir því engin færi. Þessu héldu Leiknismenn áfram út fyrri hálfleikinn. Þetta virkaði betur hjá þeim í þeim síðari þegar að mótvindurinn hægði á boltanum og þeir fóru þá að spila meira með jörðu.

Emil Bergir í þann mund að sparka langt.Vísir/Hulda Margrét

Hvað gerist næst?

Leiknismenn fá Blika í heimsókn 29. maí kl. 19:15. Blikar sem að eru á eldi í deildinni munu ekki gera Sigurði Höskuldssyni og lærisveinum hans auðvelt fyrir í leit sinni að sínum fyrsta sigri.

Þá fer KR í Hafnarfjörðinn og mætir FH sama dag, á sama tíma.

Mér fannst við eiga að vinna þetta bara

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis Reykjavíkur.Vísir/Hulda Margrét

Leiknismenn komu tvíefldir í seinni hálfleikinn í dag, aðspurður hafði Sigurður Heiðar - þjálfari Leiknis Reykjavíkur - þetta að segja: 

„Fórum yfir stöðuna, eins og þú segir, örugglega versti fyrri hálfleikur hjá okkur í sumar þessi fyrri hálfleikur hérna í dag. Fórum yfir hlutina gerðum smá breytingar og hugarfarið í seinni hálfleik og krafturinn, þetta var gjörsamlega frábært. Risa hrós á liðið – mér fannst við eiga að vinna þetta bara.“ 

Leiknismenn fengu fjölda færa til þess að komast yfir gegn KRingum en náðu ekki að klára færin. Leiknismenn eru einungis með 3 stig eftir 7 umferðir en telja verður að jafntefli gegn KR sé afar sterk úrslit fyrir Leiknismenn. 

Eru Leiknismenn komnir í gang?

„Við erum alveg búnir að vera í gangi, eins og ég sagði fyrir leik. Mér er ekkert búið að líða eins og við séum eitthvað afhroð og eiga að vera með 2 stig, mér finnst við vera búnir að vera betri en það. Við notum þetta og allt sem að er jákvætt og reynum að byggja ofan á það,“ sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson að endingu.

Myndir

Kjartan Henry kom inn af varamannabekk KR í síðari hálfleik.Vísir/Hulda Margrét
Brynjar Hlöðversson fór mikinn í dag.Vísir/Hulda Margrét
Brynjar Hlöðversson segist ekkert hafa gert er Þorsteinn Már féll til jarðar.Vísir/Hulda Margrét

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira