Viðskipti innlent

Sparnaður Sigurjóns fimmfaldaðist á þremur árum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, lét Landsbankann breyta samsetningu sparnaðar síns í ágúst 2008. Hann keypti skuldabréf í erlendum fyrirtækjum eins og TAQA, sem er stærsta orkufyrirtækið í Abu Dhabi og í rússneska olíurisanum Gazprom í evrum. Af þessum sökum hefur sparnaður hans margfaldast á nokkrum árum vegna gengishagnaðar.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, lét Landsbankann breyta samsetningu sparnaðar síns í ágúst 2008. Hann keypti skuldabréf í erlendum fyrirtækjum eins og TAQA, sem er stærsta orkufyrirtækið í Abu Dhabi og í rússneska olíurisanum Gazprom í evrum. Af þessum sökum hefur sparnaður hans margfaldast á nokkrum árum vegna gengishagnaðar.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, gerði róttækar breytingar á lífeyrissparnaði sínum rétt fyrir bankahrunið. Þá fimmfaldaðist sparnaður Sigurjóns á þremur árum og stóð í 566 milljónum króna í haust, en þessar upplýsingar komu fram við aðalmeðferð í máli hans gegn Landsbankanum. Tveimur mánuðum fyrir hrun keypti hann eignir í erlendum myntum, m.a skuldabréf rússneska fyrirtækisins Gazprom.

„Stefnandi þykir ekki góður félagsskapur í dag. Hann hefur þurft að þola símhleranir og gæsluvarðhald(...) Hann er holdgervingur Icesave og þykir tiltölulega réttlaus maður í íslensku samfélagi," sagði Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns við aðalmeðferð málsins en í því krefst hann viðurkenningar og afhendingar á sérstökum lífeyrissparnaði sem hann hafði hjá bankanum.

Í hnotskurn snýst málið um að Landsbankinn hefur viljað leysa sparnaðinn upp, að kröfu Fjármálaeftirlitsins, sem telur fyrirkomulagið ganga í berhögg við lög. Það sem vakti fyrst athygli eftirlitsaðila voru lánveitingar sem lífeyrissjóður Sigurjóns veitti honum sjálfum með tveimur veðskuldabréfum sem tryggð voru í húsinu hans, samtals upp á 70 milljónir króna, í nóvember 2008.

Að undangenginni málshöfðun fékk Sigurjón lögbann á aðgerðir Landsbankans en í málinu núna krefst Landsbankinn m.a að lögbannið verði fellt úr gildi. Sigurður G. fór ítarlega og í löngu máli yfir að sparnaðarform Sigurjóns væri lögmætt. Ekkert bannaði „sjóðfélagalán" af þesu tagi. Hann vitnaði m.a til bréfs frá yfirmanni lögfræðisviðs Landsbankans máli sínu til stuðnings.

Síðan hafi Fjármálaeftirlitið byrjað að skoða málið og skrifað Sigurjóni bréf. Fjármálaeftirlitið hafi m.a óskað eftir upplýsingum frá Landsbankanum um lokun einkalífeyrissparnaðar hans og verið að ýta á eftir bankanum í þessum efnum.

Vitnað var til bréfs frá lögfræðisviði Landsbankans þar sem kom fram það mat stjórnenda bankans að fyrirkomulag einkalífeyrissparnaðar Sigurjóns væri „óheppilegt" og arfleifð frá gamla Landsbankanum. Þó væri um bindandi samninga að ræða sem gerðir hafi verið í tíð eldra fyrirkomulags. Því gæti bankinn ekki rift þessum samningum bótalaust.

Gagnrýndi Fjármálaeftirlitið harðlega

Hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður vitnaði til bréfs FME til Landsbankans. „Sem betur fer voru menn þá innan Landsbankans sem voru tilbúnir að standa upp í hárinu á stjórnvaldi sem var að taka sér vald sem það hefði ekki," sagði Sigurður en hann gagnrýndi harkalega framgöngu FME í málinu gegn Sigurjóni.

Landsbankinn hafi ekki talið forsendur til að leggja eignasöfn Sigurjóns niður. Bankinn hafi unnið að lokun eignasafna í góðri sátt við viðskiptavini sína. Landsbankinn hafi í fyrstu talið sig bundinn af samningum sem bankinn tók yfir og því hafi ekki verið lagagrundvöllur til riftunar á samningunum bótalaust. „Þarna er því lýst yfir af hálfu Landsbankans: Við getum ekki farið út úr þessum samningum þar sem þeir eru löglegir," sagði Sigurður við aðalmeðferðina.

FME ekki af baki dottið

FME hafi ekki fallist á þetta. „Það er haldið áfram að rangtúlka lög. Og það er haldið áfram að hóta," sagði Sigurður. Hann vitnaði til bréfs frá 19. október 2010. FME hafi ekki fallist á röksemdarfærslu Landsbankans. FME hafi talið samningsform um lífeyrissparnað ekki átt sér lagastoð, en hafi ekki getað bent á neina reglu máli sínu til stuðnings.

Landsbankinn hafi allt þangað til í nóvember 2010 staðið í lappirnar. „Síðan gerist það óvænt að það virðast allir hætta í Landsbankanum sem hafa einhvern dug. Og þá er bara sagt, við verðum að loka," Sagði Sigurður. Síðan hafi Landsbankinn ritað Sigurjóni bréf í nóvember 2010, þegar nýir yfirmenn voru búnir að taka við og þá hafi kveðið við nýjan tón.

Enginn vildi hýsa sparnaðinn

„Stefnandi (Sigurjón) hefur allt frá því að hann fékk lögbannið lagt á, leitað logandi ljósi að öðrum vörsluaðila fyrir þessi verðmæti sem dregin voru af launum hans á grundvelli reglna sem Landsbankinn hafði fengið samþykktar af því stjórnvaldi einu sem var bært til þess að samþykkja þær. Það hefur ekki fundist neinn til þess fyrr en á dögunum þegar að MP banki lýsti sig fúsan til þess en sá banki lýtur sama eftirliti og (Landsbankinn). Því miður virðist það ekki ætla að ganga hnökralaust því FME er með alls kyns einkennilegheit í þessu máli," sagði Sigurður.

Þá vitnaði hann til ákvæðis í lögum um eftirlit með fjármálastarfsemi þar sem kemur fram að vörsluaðilar ráði fyrirkomulagi séreignasparnaðar. Í 36.gr. sömu laga kæmi fram að FME setti reglur um form vörslu og hvernig því væri skilað til eftirlitsins. Þetta hefði allt saman verið gert í tilviki Sigurjóns.

„Það þarf að staðfesta að það sé í gildi samningur um viðbótarlífeyrissparnað og það þarf að koma í veg fyrir að Landsbankinn selji þessar eignir. Sumar þessaara eigna er vonlaust að selja nema með stórfelldu tjóni því við búum við gjaldeyrisshöft. Og það liggur ekkert á að losa um þær, nema það getur verið spurning um orðspor fyrir Landsbankann að vera bara ekki með samning við Sigurjón, en það er bara einfaldlega ekki lögmæt ástæða til riftunar. (...) Þeir sem eru í stjórnsýslunni þeir verða að fara að lögum. Eins og starfsmenn Landsbankans benda á," sagði Sigurður G. Guðjónsson.

Hluti lífeyrissparnaðarins fór í kaup á tveimur veðskuldabréfum sem gefin voru út af Sigurjóni sjálfum og eru tryggð í fasteigninni hans, eins og áður segir. „Allir lífeyrissjóðir lána sjóðfélögum sínum peninga með veð í eignunum þeirra. Það er ekkert saknæmt eða ólögmætt við það að einkalífeyrissparnaður Sigurjóns kaupi tvö skuldabréf af honum sjálfum," sagði Sigurður. Hann sagði ekkert óeðlilegt við þetta, en þetta hafi verið kveikjan að málinu. Bæði skatturinn og fjármálaráðuneytið hafi farið af stað.

Frjór og með glögga hugsun, en ekki lögbrjótur

„Maðurinn er frjór, hann hefur glögga hugsun, en hann fer að lögum," sagði Sigurður. Hann sagði þetta ekki ástæðu sem Landsbankinn gæti notað til riftunar. Sigurður benti á að það hafi verið lögfræðingar Landsbankans og starfsmenn bankans í eignastýringu sem hafi gengið frá kaupum á þessum bréfum fyrir Sigurjón, eftir að hann var hættur í bankanum, í nóvember 2008.

Guðmundur Ingvi Sigurðsson, sem gætir hagsmuna Landsbankans í málinu, krafðist þess aðallega að dómkröfum Sigurjóns yrði hafnað. Þá krafðist hann þess að lögbann sem Sigurjón fékk gefið út á Landsbankann hinn 15. desember 2010 yrði fellt úr gildi.

Guðmundur sagði að 18. gr. laga um meðferð einkamála, sem fjallar um samaðild, ætti við í málinu, enda væri fyrir dómi tekist á um ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins, en því hefði ekki verið gefinn kostur að svara fyrir eigin ákvarðanir þar sem því hefði ekki verið stefnt. Með þessu vildi Guðmundur að dómarinn, Hervör Pálsdóttir, tæki til sjálfstæðrar skoðunar hvort ástæða væri til frávísunar málsins, en í tilvitnuðu ákvæði segir: „Ef þeim sem bera óskipta skyldu er ekki öllum veittur kostur á að svara til sakar skal vísa máli frá dómi."

Guðmundur sagði að málið hefði verið höfðað til að fá ógildingu á ákvörðunum sem FME tók. Staðan væri sú að FME hefði tekið ákvörðun sem Landsbankanum bæri að virða. Fyrir lægi ákvörðun FME um lokun sparnaðarleiðar. Ákvörðuninni hefði ekki verið hnekkt og hún hefði ekki verið felld úr gildi. Þá hefði þessari ákvörðun ekki verið breytt og enn þann dag í dag væri skylda Landsbankans að fylgja ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Guðmundur sagði að Landsbankanum hafi verið skylt að gera úrbætur. Þær hafi falist í því að leggja sparnarðarleið Sigurjóns niður. Landsbankinn hafi þurft að fylgja fyrirmælum FME, enda gæti eftirlitið beitt bankann dagssektum eða hreinlega svipt hann starfsleyfi sínu. Því hafi bankanum verið skylt að fara eftir ákvörðunum eftirlitsins.

Ekkert í gögnum Landsbankans finnst um samþykki fyrir umdeildri sparnaðarleið

Guðmundur Ingvi sagði við aðalmeðferðina að ekkert fyndist í gögnum Landsbankans um að samþykki hafi verið veitt fyrir ákvörðun um stofnun séreignarsparnaðarleiðar Sigurjóns. Innri endurskoðandi bankans hafi aldrei fundið neina fundargerð eða gögn þar sem þessi umdeilda sparnaðarleið hafi verið samþykkt.

Öll réttindi voru flutt í einkalífeyrissjóð Sigurjóns apríl 2008, en samkvæmt verklagsreglum Íslenska lífeyrissjóðsins, þar sem þessi sparnaður var áður, hefði þessi flutningur átt að eiga sér stað mánuði síðar, en Sigurjón hafi fengið þetta afgreitt á einum degi.

Guðmundur vék að því að Sigurjón hefði óskað eftir breytingu á sparnaðarformi í ágúst 2008, tveimur mánuðum fyrir hrun. Þá hafi hann óskað eftir því að kaupa skuldabréf í Gazprom í evrum og skuldabréfum í Iceland Foods í pundum. Þá keypti hann skuldabréf í félaginu TAQA, sem er stærsta orkufyrirtækið í Abu Dhabí og í Landsvirkjun. Hins vegar hafi kaupin á skuldabréfum í Iceland Foods ekki gengið eftir þar sem samþykki félagsins á honum sem kröfuhafa þurfti að liggja fyrir.

Braut eigin starfsreglur

Ekki var óskað eftir samþykki regluvarðar á þessum viðskiptum, þ.e breytingu á samsetningu sparnaðar, og því var um að ræða brot á starfsreglum Landsbankans. „Hann braut því eigin starfsreglur bankans," sagði Guðmundur. Þá sagði hann Sigurjón hafa fengið fyrirgreiðslu af því tagi sem engum öðrum viðskiptavinum bankans hafi boðist.

Hinn 3. október 2008 krafðist Sigurjón bóta frá Landsbankanum þar sem ekki tókst að ganga frá kaupum á bréfum í Iceland Foods. Sigurjón taldi sig hafa orðið fyrir 35 milljóna króna tjóni og voru þessar bætur greiddar nánast samstundis. „Það er mat innri endurskoðanda Landsbankans að Sigurjón hafi (með þessu innsk.blm) misnotað aðstöðu sína í starfi," sagði Guðmundur um þennan gjörning, en hann las upp úr bréfi FME þar sem þessar athugasemdir voru reifaðar. „Þetta eru alvarlegar ásakanir."

Sparnaðurinn fimmfaldaðist á þremur árum

Fram kom að Sigurjón hefði flutt 108 milljónir króna úr sparnaði sínum í apríl 2008 en í ágúst sama ár hafi þessi fjárhæð verið komin upp í 292 milljónir króna. „Ansi mögnuð ávöxtun," sagði lögmaðurinn. Síðan hafi þessi fjárhæð verið komin upp í 566 milljónir króna hinn 29. september 2011. Með öðrum orðum þá jókst sparnaður Sigurjóns úr 108 milljónum króna í 566 milljónir á rúmum þremur árum, en í millitíðinni bætti Sigurjón við sparnaðinn með greiðslum. Leiða má að því líkum að ávinningurinn sé ávöxtur gengishagnaðar, en tveimur mánuðum fyrir hrun breytti hann samsetningu sjóðsins og keypti skuldabréf erlendu fyrirtækjanna, Gazprom og TAQA, í erlendum myntum, eins og áður segir.

Bankastjórarnir fengu bætur fyrir að halda áfram í vinnunni

Fram kom í málflutningi að Halldór J. Kristjánsson, sem gegndi starfi bankastjóra við hlið Sigurjóns, hefði óskað eftir því að hætta í bankanum í ágúst 2008, ekki voru gefnar nánari skýringar á þessu. Stjórn Landsbankans hafi þá krafist þess að hann héldi áfram störfum og fékk hann 125 milljónir króna greiðslu gegn því að halda áfram. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, sagði að stjórn bankans hefði boðið Sigurjóni sambærilega upphæð, sem hefði síðan farið inn í lífeyrissjóð hans, sem útskýrði hækkun á sparnaði á árinu 2008.

Eins og vikið er að framar þá gaf Sigurjón út veðskuldabréf upp á 70 milljónir króna tryggt með veði í eigin fasteign. Lífeyrissjóðurinn hans keypti síðan þessi bréf af honum. Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður Landsbankans, sagði að í bréfi regluvarðar Landsbankans til FME kæmi fram að Sigurjón hefði sjálfur tekið ákvörðun um kaupin.

Þá vék Guðmundur að því að sá starfsmaður Landsbankans sem hafi séð um breytingu á lífeyrissparnaðinum hefði verið sendur í leyfi, en síðan ráðinn aftur með samþykki FME.

Sagði samanburð við venjulegt sjóðfélagalán ekki standast

Guðmundur sagði samanburð lögmanns Sigurjóns við venjulegt sóðfélagalán ekki standast. „Þetta er ekki eins og að taka lán hjá lífeyrissjóði. Þú ert einn í aðgreindum sjóði," sagði Guðmundur. Hann sagði að því væri alls ekki hægt að bera þetta saman við hefðbundin sjóðfélagalán í lífeyrissjóðum þar sem sjóðfélagar væru þúsundir talsins.

Guðmundur sagði að þegar þetta hefði verið skoðað hefði alls ekki verið óeðlilegt hjá FME að grípa til einhvers konar aðgerða. „FME er ekki hér til að útskýra gjörðir sínar, en miðað við allt þetta má halda því fram að FME hafi ekki verið út á þekju þegar eftirlitið tók þessar ákvarðanir," sagði Guðmundur. Hann sagði alveg skýrt að í samningi milli Landsbankans og Sigurjóns væri uppsagnarákvæði sem gerði bankanum kleift að segja upp samningi um lífeyrissparnað. Uppsagnarákvæðið væri tvíhliða og Landsbankinn hafi því verið innan heimilda þegar ákvörðun var tekin um uppsögn samnings.

Að lokinni aðalmeðferð var málið dómtekið, en niðurstaða ætti að liggja fyrir innan fjögurra vikna. thorbjorn@stod2.is

Athugasemd frá Sigurði G. Guðjónssyni lögmanni Sigurjóns:
Sigurður vill árétta að Sigurjón hafi á árinu 2008, eftir stofnun lífeyrissjóðsins í apríl, lagt um 200 milljónir króna inn í lífeyrissjóðinn af greiðslum sem hann átti inni hjá Landsbankanum. Þar sé m.a um að ræða greiðslur sem Landsbankinn hafi reynt að rifta eftir bankahrunið, án árangurs. Það sé því ekki sanngjarnt að tala um að sparnaður hans hafi fimmfaldast. Í fréttinni er byggt á upplýsingum sem komu fram við aðalmeðferð málsins fyrir dómi, en lögmaður Landsbankans sagði að staða sjóðsins hefði verið 108 milljónir króna við stofnun en 566 milljónir króna í september 2011.


Tengdar fréttir

Sigurjón krefst afhendingar á sparnaðinum sínum

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankstjóri Landsbankans, krefst viðurkenningar á því að í gildi sé samningur milli hans og Landsbankans um viðbótarlífeyrissparnað og þá krefst hann afhendingar á skuldabréfum sem keypt voru fyrir sparnaðinn, en aðalmeðferð í máli hans gegn Landsbankanum stendur nú yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×