Fleiri fréttir

Þrír í röð hjá Nadal - Draumurinn úti hjá Federer

Spænski tennisleikarinn Rafael Nadal varð í dag þriðji karlspilarinn síðan árið 1980 til að vinna opna franska meistaramótið þriðja árið í röð. Hann lagði Roger Federer í úrslitaleik 6-4, 4-6, 6-3 og 6-4. Leikurinn stóð yfir í þrjá klukkutíma og 10 mínútur og var án nokkurs vafa einvígi tveggja bestu tennisleikara heims.

Hafsteinn kom fyrstur í mark í Bláalónsþrautinni

Hjólreiðamenn fengu sannkallað draumaveður í dag þegar hin árlega Bláalónsþraut á fjallahjólum fór fram í 11. sinn. Hjóluð var 60 km leið frá Hafnarfirði um Djúpavatnsleið, til Grindavíkur og þaðan í mark í Bláa Lóninu. Smelltu á spila til að sjá skemmtilegt myndbrot sem tekið var í keppninni.

Forseti Real Madrid vill halda David Beckham

Sky sjónvarpsstöðin greindi frá því nú fyrir stundu að forseti Real Madrid, Ramon Calderon, hefði lýst því yfir að hann ætlaði að gera allt sem í hans valdi stæði til að halda David Beckham í röðum spænska félagsins áfram. Beckham hefur þegar samþykkt að ganga í raðir LA Galaxy í sumar. Frekari fréttir af málinu koma væntanlega síðar í dag.

Cotto rotaði Judah í elleftu lotu

Miguel Cotto varði í nótt WBA titil sinn í millivigt hnefaleika þegar hann rotaði andstæðing sinn Zab Judah í 11. lotu bardaga þeirra í Madison Square Garden í New York. Judah náði sér aldrei á strik eftir að hafa fengið skurð snemma í bardaganum. Cotto náði honum niður á hné í níundu lotu og kláraði dæmið með góðum vinstri krók í þeirri elleftu. Bardaginn var stöðvaður skömmu síðar.

Allardyce: Owen fer ef hann kærir sig um það

Sam Allardyce, stjóri Newcastle, segir að framherjinn Michael Owen geti farið frá Newcastle ef honum sýnist svo. "Michael er með ákvæði í samningi sínum sem leyfir honum að fara ef ákveðið hátt tilboð berst í hann og því get ég ekki haldið honum. Við erum að græða á svona ákvæði með Joey Barton og gætum því allt eins tapað á því með Michael," sagði Allardyce.

Wenger ætlar að standa við samning sinn

Arsene Wenger segist ætla að standa við samning sinn við Arsenal en hann gildir út næsta ár. Mikið hefur verið rætt um framtíð Wenger og Thierry Henry hjá félaginu undanfarið, en stjórinn segist ekki ætla að byrja að taka upp á því að svíkja samninga á gamalsaldri.

Úrslit Gæðingamóts Geysis

Gæðingamót Geysis og SS lauk nú í dag. Glæsilegasta par mótsins var Guðmundur F. Björgvinsson og Hvellhetta frá Ásmundarsstöðum. Hulda Gústafsdóttir vann töltið á Völsung frá Reykjavík og Sigurbjörn Bárðarson sigraði A flokk á Stakk frá Halldórsstöðum. Meðfylgjandi eru úrslit mótsins.

3-0 fyrir ÍA gegn KR - Kári skoraði eftir 15 sekúndur

KR-ingar eru komnir í mjög vond mál í leiknum gegn ÍA á Skaganum þar sem Kári Steinn Reynisson skoraði þriðja mark Skagamanna eftir aðeins 15 sekúndna leik í síðari hálfleik. Teitur Þórðarson gerði tvær breytingar á liði sínu í hálfleik en hans menn fengu blauta tusku í andlitið strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og því á brattann að sækja fyrir þá svarthvítu.

Skagamenn 2-0 yfir gegn KR í hálfleik

Staðan er ekki góð hjá botnliði KR þegar flautað hefur verið til leikhlés í viðureign liðsins við ÍA á Skaganum í fimmtu umferð Landsbankadeildarinnar. Skagamenn hafa yfir 2-0 í hálfleik og hafa nýtt færi sín vel gegn hugmyndasnauðum KR-ingum. Bjarni Guðjónsson og Helgi Pétur Magnússon skoruðu mörk ÍA. Skagamenn hafa átt 7 skot að marki KR og 2 á rammann en KR hefur átt 4 skot og ekker þeirra rataði á markið.

HK yfir gegn Fram í hálfleik

Nú er kominn hálfleikur í tveimur leikjum af þremur í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Nýliðar HK hafa yfir 1-0 gegn nýliðum Fram á Kópavogsvelli þar sem Jón Þorgrímur Stefánsson skoraði mark heimamanna. Markalaust er hjá FH og Fylki í Hafnarfirði og í sjónvarpsleiknum á Sýn hefur ÍA náði 1-0 forystu gegn KR með marki Bjarna Guðjónssonar. Sá leikur hófst klukkan 20.

ÍA - KR í beinni á Sýn í kvöld

Þrír leikir fara fram í fimmtu umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu í kvöld. FH tekur á móti Fylki í Hafnarfirði kl 19:15 og á sama tíma tekur HK á móti Fram. Klukkan 19:45 verður sjónvarpsstöðin Sýn svo með beina útsendingu frá leik ÍA og KR á Skaganum, en þessi fornfrægu lið eru í kjallara deildarinnar eftir fjórar umferðir.

Kynbótahross að týnast inn á FM 07

Nú eru kynbótahross farin að týnast inn á Fjórðungsmót sem haldið verður á Austurlandi dagana 28. Júni til 1. júlí næstkomandi. Samkvæmt heimildum WorldFengs eru nú þegar skráð 15 kynbótahross. Má þar nefna Mátt frá Torfunesi, Mola frá Skriðu og Hött frá Hofi I.

Frábær stemning á Gaddstaðaflötum

Það er óhætt að segja að stemningin hafi verið góð á Gaddstaðaflötum í dag þar sem forkeppni fór fram á Opnu Gæðingamóti Geysis og SS, en þar öttu kappi margir af sterkustu hestum landsins. Efstur inn í úrslit í A flokki opnum er Stakkur frá Halldórsstöðum með eink. 8,56.

Richard Keyes hraunaði yfir Færeyinga (Myndband)

Þáttastjórnandinn Richard Keyes á Sky Sports sjónvarpsstöðinni ætti að vera flestum áhugamönnum um enska boltann af góðu kunnur. Hann hljóp þó illa á sig þegar hann greindi frá leik Færeyinga og Skota á dögunum, þar sem hann úthúðaði Færeyingum óafvitandi í beinni útsendingu. Smelltu á hlekkinn í fréttinni til að sjá myndbandið.

Messi fetar aftur í fótspor Maradona - Nú með hönd Guðs

Argentínumaðurinn Leo Messi hjá Barcelona var í sviðsljósinu í kvöld þegar Barcelona og Espanyol skildu jöfn 2-2. Messi skoraði bæði mörk Barcelona í leiknum en það fyrra skoraði hann greinilega með höndinni. Hann hefur því á stuttum tíma hermt faglega eftir báðum mörkum landa síns Maradona frá því gegn Englendingum á HM árið 1986. Nú er bara spurning hvort kappinn talar um að þarna hafi hönd Guðs verið að verki.

Gríðarleg dramatík á Spáni

Dramatíkin var allsráðandi í næst síðustu umferðinni í spænska boltanum í kvöld. Real Madrid og Barcelona voru efst og jöfn í deildinni fyrir leiki kvöldsins, en eftir miklar sveiflur og dramatík er ljóst að það ræðst ekki fyrr en í lokaumferðinni hvort liðið hampar titlinum. Argentínumaðurinn Leo Messi stal enn og aftur senunni með Barcelona, en í þetta sinn á röngum forsendum.

Eins marks tap í Serbíu

Íslenska landsliðið í handknattleik stendur ágætlega að vígi eftir eins marks tap 30-29 fyrir Serbum ytra í kvöld. Þetta var fyrri leikur liðanna í umspili um laust sæti á EM í Noregi á næsta ári. Íslenska liðið var skrefinu á undan lengst af í leiknum í kvöld og hafði yfir 14-13 í hálfleik, en góður lokakafli tryggði heimamönnum sigurinn.

Hamilton á ráspól í fyrsta sinn

Ungstirnið Lewis Hamilton á McLaren tryggði sér í kvöld sinn fyrsta ráspól á ferlinum í Formúlu 1 þegar hann náði besta tíma í tímatökum fyrir Kanadakappaksturinn sem fram fer í Montreal á morgun. Félagi hans Fernando Alonso náði öðrum besta tímanum og Nick Heidfeld stakk sér framúr Ferrari-mennina Raikkönen og Massa í þriðja sætið.

Jafnt hjá Val og Keflavík

Valur og Keflavík skildu jöfn 2-2 í leik dagsins í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Gestirnir komust í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Þórarni Kristjánssyni og Baldri Sigurðssyni en Hafþór Ægir Vilhjálmsson skoraði fyrir heimamenn á 58. mínútu og það var svo Daníel Hjaltason sem jafnaði fyrir Valsmenn skömmu fyrir leikslok. Valsmenn eru í öðru sæti deildarinnar en Keflavík í þriðja.

Ég hef aldrei séð annað eins

Friðrik Ingi Rúnarsson, framkvæmdastjóri KKÍ, varð vitni að uppþotinu sem varð undir lok leiks Íslands og Kýpur á Smáþjóðaleikunum í dag. Völlurinn logaði í slagsmálum í góðan tíma áður en lögregla náði að skakka leikinn og réðist einn leikmanna Kýpur að dómaranum, tók hann hálstaki og henti honum í gólfið. Friðrik segist aldrei hafa orðið vitni að öðru eins.

Ísland sigraði eftir slagsmálaleik

Íslenska körfuboltalandsliðið fór með sigur af hólmi á Smáþjóðaleikunum í Mónakó og tryggði sér endanlega sigurinn með sigri á Kýpur í dag. Lið Kýpur var yfir í leiknum þegar skammt var til leiksloka, en þá misstu leikmenn liðsins stjórn á skapi sínu og kom til slagsmála í lokin. Íslenska liðinu var dæmdur 20-0 sigur í leiknum og vann því alla leiki sína í mótinu.

Federer: Léleg stemming á Roland Garros

Roger Federer segir að stemmingin á opna franska meistaramótinu líði fyrir að VIP sætin við miðju vallarins séu oftar en ekki tóm og því sé stemmingin ekki eins góð og til að mynda á Wimbledon-mótinu. Federer mætir Rafael Nadal í úrslitaleik mótsins á morgun.

Zab Judah mætir í hringinn á ný í kvöld

Villingurinn Zab Judah stígur í kvöld inn í hnefaleikahringinn í fyrsta skipti í meira en ár eftir keppnisbann þegar hann tekur á móti Miguel Cotto í bardaga um WBA beltið í veltivigt. Bardaginn verður sýndur beint á Sýn. Judah stormaði inn á sjónvarsviðið um aldamótin og var ósigrandi, en skapsmunir hans og óútreiknanleg hegðun hans hafa gert honum erfitt fyrir allar götur síðan.

Áttuðu sig ekki á smæð Danmerkur

Aganefnd Knattspyrnusambands Evrópu féll á landafræðiprófinu þegar hún ákvað að refsa danska knattspyrnusambandinu fyrir ólætin í leik Dana og Svía á Parken í Kaupmannahaöfn um síðustu helgi.

Aliadiere fer til Middlesbrough

Forráðamenn Middlesbrough hafa gefið það út að félagið hafi náð samkomulagi við Arsenal um kaup á franska framherjanum Jeremie Aliadiere. Hinn 24 ára gamli framherji hefur verið í herbúðum Arsenal lengur en flestir aðrir núverandi leikmenn liðsins, en hefur fá tækifæri fengið hjá Arsene Wenger.

Öruggur sigur hjá Justin Henin

Belgíska tenniskonan Justin Henin vann í dag þriðja sigur sinn í röð á opna franska meistaramótinu í tennis þegar hún valtaði yfir hina 19 ára gömlu Önu Ivanovic í úrslitaleik 6-1 og 6-2. Þetta var jafnframt fjórði sigur hennar á mótinu á síðustu fimm árum og undirstrikaði hún þar með yfirburði sína á leirvöllum.

Slúðrið á Englandi í dag

Teitur Þórðarson, þjálfari KR, er nefndur á nafn í ensku slúðurblöðunum í dag þar sem Daily Express fullyrðir að hann hafi áhuga á að taka við liði Motherwell í Skotlandi. Ekkert mun vera til í þessum skrifum blaðsins, en að venju er af nógu að taka í bresku pressunni þennan daginn.

Blikar harma söngva stuðningsmanna

Leiðinleg uppákoma átti sér stað á leik Víkings og Breiðabliks í Landsbankadeildinni í gærkvöldi. Stuðningsmenn Kópavogsliðsins sökuðu Garðar Hinriksson dómara um kynþáttafordóma í söngvum sínum eftir að hann gaf leikmanni Blika, Prince Rajcomar, gult spjald. Meistaraflokksráð Breiðabliks hefur gefið út yfirlýsingu þar sem þetta er harmað og beinir þeim tilmælum til stuðningsmanna að stilla sig í framtíðinni.

Ensku landsliðsmennirnir gjafmildir

Leikmenn enska knattspyrnulandsliðsins ætla að spila frítt fyrir þjóð sína fram að HM í Suður-Afríku árið 2010. Þeir hafa nú stofnað sjóð um laun sín sem notaður verður til að gefa til góðgerðamála og talið er að um ein milljón punda muni safnast fram að HM.

Daly með áverka eftir konu sína

Kylfingurinn skrautlegi John Daly spilaði annan hringinn á Memphis mótinu á PGA með skrámur í andliti eftir illdeilur við konu sína. Hann hringdi í lögreglu klukkan 6 að morgni að staðartíma og hélt því fram að konan hefði ráðist að sér með steikarhníf. Hann lét þessa uppákomu ekki á sig fá og hélt áfram að leika í mótinu eins og ekkert hefði í skorist. Þar er Ástralinn Adam Scott í forystu á sjö höggum undir pari.

Besti hringurinn hjá Birgi til þessa

Birgir Leifur Hafþórsson átti ljómandi góðan hring á Opna austurríska mótinu í Vínarborg í dag en hann hóf keppni í morgun og lék þriðja hringinn á 68 höggum. Birgir er því á fjórum höggum undir pari að loknum þremur keppnisdögum. Hann lék fyrsta hringinn í mótinu á einu höggi undir pari og annan hringinn fór hann á pari.

Hálfleikur í spænska

Nú er kominn hálfleikur í leikjum kvöldsins í spænska boltanum og heldur betur farið að draga til tíðinda. Topplið Real Madrid er að tapa 1-0 á útivelli fyrir Zaragoza og staðan í leik Barcelona og Espanyol er jöfn 1-1. Börsungar lentu undir í leiknum en Leo Messi jafnaði metin með því að blaka boltanum í netið með höndinni. Eiður Smári Guðjohnsen er í byrjunarliði Barcelona. Leikirnir eru sýndir beint á rásum Sýnar.

Fín staða hjá íslenska liðinu í hálfleik

Nú er kominn hálfleikur í fyrri leik Íslands og Serbíu í umspili um laust sæti á EM í Noregi á næsta ári. Íslensku strákarnir hafa yfir 14-13 og hafa í fullu tré við heimamenn sem eru ákaft studdir af áköfum áhorfendum. Birkir Ívar Guðmundsson hefur staðið vaktina vel í markinu og er kominn með 12 varin skot. Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson hafa verið atkvæðamestir í markaskorun íslenska liðsins með 4 mörk hvor.

Eiður í byrjunarliði Barcelona

Eiður Smári Guðjohnsen er í byrjunarliði Barcelona sem tekur á móti grönnum sínum í Espanyol í næst síðustu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Leikurinn er sýndur beint á Sýn, en á sama tíma eigast við Zaragoza og Real Madrid í beinni á Sýn Extra. Liðin eru efst og jöfn í deildinni en Real getur í besta falli tryggt sér titilinn í dag ef úrslit verða liðinu í hag.

Ísland leikur til úrslita gegn Kýpur

Íslenska körfuboltalandsliðið leikur til úrslita gegn Kýpur á Smáþjóðaleikunum í Mónakó. Þetta varð ljóst í dag þegar íslenska liðið vann fjórða leik sinn í röð á leikunum með því að leggja San Marino 92-81. San Marino var 12 stigum yfir í hálfleik en íslenska liðið tryggði sér sigurinn með góðri rispu í fjórða leikhluta.

Fimmta umferð Landsbankadeildar hefst í kvöld

Einn leikur er á dagskrá í Landsbankadeild karla í kvöld þegar Víkingur og Breiðablik spila fyrsta leikinn í fimmtu umferðinni á Víkingsvelli klukkan 19:15. Þá verða fjórir leikir í Landsbankadeild kvenna þar sem ÍR mætir Breiðablik, Stjarnan tekur á móti Fjölni, Þór/KA tekur á móti Fylki og Valur fær Keflavík í heimsókn. Allir leikir hefjast klukkan 19:15.

Draumaúrslitaleikur á Roland Garros

Það verður sannkallaður draumaúrslitaleikur í karlaflokki á opna franska meistaramótinu í tennis, en nú undir kvöld tryggði Rafael Nadal sér sæti í úrslitum gegn Roger Federer þegar hann sigraði Novak Djokovic 7-5, 6-4 og 6-2. Nadal getur unnið titilinn þriðja árið í röð með sigri á Federer um helgina.

Robben með nýjan samning á borðinu

Umboðsmaður og faðir hollenska knattspyrnumannsins Arjen Robben hjá Chelsea segir son sinn vera langt kominn með að undirrita nýjan fimm ára samning við Lundúnaliðið. Forráðamenn Real Madrid lýstu því yfir í gær að þeir ættu í viðræðum um kaup á leikmanninum og vöktu þær yfirlýsingar litla hrifningu í herbúðum Chelsea.

Birgir Leifur komst áfram í Austurríki

Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG lék annan hringinn á Opna austurríska mótinu í dag á 71 höggi, eða pari vallar. Hann er því samtals á 141 höggi, eða einu höggi undir pari eftir 36 holur. Hann er í 45.-59. sæti sem stendur og öruggur í gegnum niðurskurðinn. Íslenski kylfingurinn fékk 3 fugla á hringnum í dag, 12 pör og 3 skolla.

Viðtöl eftir fyrsta leik San Antonio og Cleveland

Varnarleikurinn var helsta umræðuefni þjálfara og leikmanna San Antonio og Cleveland í nótt eftir fyrsta leik liðanna í lokaúrslitunum í NBA. Í myndbandinu með þessari frétt má sjá viðbrögð þeirra Gregg Popovich, Mike Brown, Tim Duncan og LeBron James eftir leikinn sem San Antonio vann örugglega 86-76.

Boca Juniors mætir Gremio í úrslitum

Það verða Boca Juniors frá Argentínu og Gremio frá Brasilíu sem mætast í úrslitaleik Copa Liberdadores í Suður-Ameríku þetta árið eftir að Boca vann 3-0 sigur á Cucuta í síðari leik liðanna í undanúrslitum keppninnar í gærkvöld. Það var leikstjórnandinn knái Juan Roman Riquelme sem var maðurinn á bak við sigur Boca, sem fór áfram 4-3 samanlagt.

Beckham verður í hópnum hjá Real á morgun

Enski landsliðsmaðurinn David Beckham verður í leikmannahópi Real Madrid á morgun þegar liðið mætir Real Zaragoza í næstsíðustu umferð spænsku deildarinnar. Þar getur Real orðið spænskur meistari fari svo að erkifjendur þeirra í Barcelona tapi fyrir grönnum sínum í Espanyol.

Bolton kaupir Gavin McCann

Enska úrvalsdeildarfélagið Bolton gekk í dag frá kaupum á öðrum leikmanni Aston Villa á skömmum tíma þegar það fékk til sín miðjumanninn Gavin McCann fyrir óuppgefna upphæð. McCann er 29 ára gamall og fer til Bolton ásamt félaga sínum Jlloyd Samuel sem einnig hefur kosið að fara frá Villa.

Federer marði sigur á Davydenko

Roger Federer tryggði sér í dag sæti í úrslitaleik opna franska meistaramótsins í tennis þegar hann marði sigur á Nikolay Davydenko í undanúrslitum 7-5, 7-6 og 7-6. Federer átti erfitt uppdráttar allan leikinn en náði að merja sigur og á því möguleika á að vinna sigur á mótinu í fyrsta sinn þar sem hann mætir Rafael Nadal eða Serbanum Novak Djokovic um helgina.

Beckham varaður við stífum flugferðum

Sérfræðingur í flugfræðum hefur varað David Beckham við því að fljúga stíft milli Bandaríkjanna og Evrópu ef hann ætli sér að spila með enska landsliðinu áfram í undankeppni EM. Hann segir Beckham eiga á hættu að fá blóðtappa í lappirnar sem gæti orðið til þess að hann gæti ekki gengið á ný.

Sjá næstu 50 fréttir