Fleiri fréttir

Klinsmann ánægður með varamennina

Jurgen Klinsmann, þjálfari Þjóðverja var að vonum ánægður með 1-0 sigur sinna manna á Pólverjum í gær. Hann var sérstaklega ánægður með innkomu varamannanna í leiknum en það var Oliver Neuville sem skoraði sigurmark heimamanna en hann hafði komið inná stuttu áður.

Walter Zenga tekur við Gaziantepspor í Tyrklandi

Walter Zenga, fyrrum landsliðsmarkvörður Ítalíu hefur verið ráðinn þjálfari hjá Tyrkneska liðinu Gaziantepspor. Zenga var þjálfari hjá Rauðu Stjörnunni í Belgrad í vetur. Hann var einnig orðaður við Livorno en fór heldur til Tyrklands og ætlar að rífa liðið upp sem átti ekki gott tímabil í vetur.

Ítölsk lið á eftir Klose

Fiorentina og Palermo hafa mikinn áhuga að fá til sín Miroslav Klose, landsliðsmann Þjóðverja og leikmann Werder Bremen. Klose sem er 28 ára gamall hefur nú þegar skorað tvö mörk á HM. Samningur hans við Bremen rennur ekki út fyrr en 2008 og spurning hvort hann hafi áhuga að söðla um og fara yfir Alpana til Ítalíu.

Spánverjar bjartsýnir á gott gengi á HM

Luis Aragones, þjálfari Spánar segir að lið hans hafi sett allt á haus hjá veðbönkum eftir 4-0 sigur liðsins gegn Úkraínu í gær. Spánverjar léku sannkallaðan konfekt fótbolta og voru án efa að sýna bestu tilþrif á HM til þessa.

England mætir Trinidad og Tóbagó

Að venju verða þrír leikir á dagskrá á HM í dag. Klukkan 13.00 hefst leikur Ekvador og Kosta Ríka. England mætir Trinidad og Tóbagó klukkan 16.00. Kvöldleikurinn er svo leikur Svía og Paragvæ og hefst hann klukkan 19.00. Allt þetta og miklu meira á Sýn.

Þykir ekki mikið til Englendinga koma

Beenhakker sagði að sínir menn bæru virðingu fyrir Englendingum en þeir hefðu hins vegar ekki hrifist af leik Englendinga gegn Paragvæ. „Við sáum Englendingana í tómum vandræðum allan leikinn á móti Paragvæ.“

Neuville skaut Pólverja úr keppni

Oliver Neuville tryggði Þjóðverjum dýrmætan 1-0 sigur á Pólverjum í A-riðli í kvöld með marki á annari mínútu í uppbótartíma. Neuville átti góða innkomu af varamannabekknum í leiknum, líkt og David Odonkor, sem lagði markið upp fyrir félaga sinn og fór langt með að tryggja liðinu sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Pólverjar hafa tapað báðum leikjum sínum til þessa og eiga litla von um að komast áfram.

Ekki hægt að segja nei við Barcelona

Eiður Smári Guðjohnsen sagði að tækifærið til að ganga í raðir Evrópumeistara hefði verið of gott til að hafna því. Eiður gekk formlega í raðir spænska risans í dag eftir að hafa gengist undir læknisskoðun. Kaupverðið var rúmur milljarður króna og samningurinn er til fjögurra ára.

Camoranesi kann ekki þjóðsönginn

Miðjumaðurinn Mauro Camoranesi hjá ítalska landsliðinu, viðurkennir að hann syngi ekki ítalska þjóðsönginn af þeirri einföldu ástæðu að hann kunni hann ekki. Camoranesi er fæddur í Argentínu, en fékk ítalskt ríkisfang árið 2003 og hefur síðan verið í landsliði ítala. Hann hefur þó aldrei farið leynt með það að hann upplifi sig alltaf sem Argentínumann en ekki Ítala.

Markalaust í hálfleik í Dortmund

Staðan í leik Þjóðverja og Pólverja í A-riðlinum á HM er jöfn 0-0 í hálfleik. Leikurinn hefur verið hinn fjörugasti þrátt fyrir markaleysið, en greinilegt er að hvorugt liðið ætlar að gefa tommu eftir í baráttunni. Lukas Podolski fékk líklega besta færi leiksins rétt áður en flautað var til hlés, en skot hans fór framhjá markinu.

Messi meiddur

Læknir argentínska landsliðsins í knattspyrnu hefur staðfest að ungstirnið Lionel Messi hafi meiðst á vinstri fæti á æfingu liðsins í dag. Messi verður skoðaður betur á morgun, en þetta gæti þýtt að stuðningsmenn argentínska liðsins þyrftu að bíða þess eitthvað að sjá þennan snjalla samherja Eiðs Smára Guðjohnsen leika listir sínar á mótinu. Messi gat sem kunnugt er ekki leikið með Barcelona í úrslitaleiknum í meistaradeildinni vegna meiðsla.

Al Jaber í sögubækurnar

Gamla brýnið Sami Al Jaber hjá Sadí Arabíu, varð í dag 14. leikmaðurinn í sögu HM til að skora mark í þremur heimsmeistarakeppnum á ferlinum. Jaber hafði skorað mark úr vítaspyrnum á síðustu tveimur mótum áður en hann skoraði fyrir Sáda í dag. Aðeins tveir menn hafa náð þeim einstaka árangri að skora í fjórum heimsmeistarakeppnum.

Leikur Þjóðverja og Pólverja að hefjast

Michael Ballack kemur inn í byrjunarlið Þjóðverja á ný þegar liðið tekur á móti grönnum sínum Pólverjum í A-riðli HM nú klukkan 19. Leikurinn fer fram á hinum glæsilega heimavelli Dortmund sem tekur 65.000 áhorfendur í sæti. Þess má til gamans geta að báðir framherjar þýska liðsins, Lukas Podolski og Miroslav Klose, eru fæddir í Póllandi.

Túnisar mörðu jafntefli gegn Sádum

Túnis og Sádí Arabía gerðu 2-2 jafntefli í síðasta leik fyrstu umferðar HM í dag, en liðin leika í H-riðli. Radhi Jaidi, leikmaður Bolton, bjargaði stiginu fyrir Túnis þegar hann skallaði knöttinn í netið á lokaandartökum leiksins.

Ronaldo fær annan séns

Brasilíski framherjinn Ronaldo sem að leikur með Real Madrid mun fá annan séns í byrjunarliði Brasilíu þrátt fyrir afleita frammistöðu í leiknum gegn Króötum á þriðjudag.

Spánn valtaði yfir Úkraínu

Spánverjar voru með algera yfirburði í leiknum og léku sér á köflum að Úkraínumönnunum. Þetta er án efa besta frammistaðan sem sést hefur á mótinu til þessa og verða Spánverjar að teljast mjög líklegir til árangurs eftir þessa frammistöðu.

Eiður búinn að skrifa undir hjá Barcelona

Landsliðsfyrirliðinn Eiður Smári Guðjohnsen er búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við Evrópumeistara Barcelona. Frá þessu var greint í fréttum NFS nú fyrir stundu. Jón Örn Guðbjartsson var staddur á blaðamannafundinum í Katalóníu og sagði gríðarlega stemmingu í kring um nýjustu kaup spænsku meistaranna. Kaupverðið er rúmur milljarður króna og mun Eiður spila í treyju númer 7 og tekur við númerinu sem Henrik Larsson spilaði í á síðustu leiktíð.

Si, claro

Það var í dag sem það gerðist, að Spánverjar sprengdu HM í loft upp. Þetta var engin venjuleg sólarlandaferð, þegar þeir tóku Úkraínu 4-0, alveg nýtt spánskt fótgöngulið, sem fór með Shevchenko og félaga einsog þeir væru í fjórða flokki.

Stjórnarformaðurinn hættur

Bob Murray, stjórnarformaður 1.deildarliðs Sunderland, sagði starfi sínu lausu í dag eftir 20 ára starf. Félagið féll úr úrvalsdeildinni í vor eftir afleita leiktíð og nú standa yfir viðræður við fjárfesta sem hafa í hyggju að kaupa félagið. Murray ákvað því að segja af sér til að greiða fyrir kaupunum og sagði sjálfur að hann væri sáttur við framlag sitt til félagsins í þessa tvo áratugi - nú væri kominn tími til að hleypa öðrum að.

Ólöf á þremur yfir pari

Ólöf María Jónsdóttir úr golfklúbbnum Keili lauk fyrsta keppnisdeginum á BMW-mótinu á Ítalíu á þremur höggum yfir pari, eða 75 höggum í dag. Ólöf er nokkuð langt frá efstu mönnum á mótinu.

Túnisar yfir gegn Sádum

Túni hefur yfir 1-0 í leikhléi gegn Sádi-Arabíu í leik liðanna í H-riðlinum á HM, en þetta er lokaleikurinn í fyrstu umferð mótsins. Það var Ziad Jazari sem skoraði mark Túnis með glæsilegu skoti eftir 22 mínútur.

Fabregas og Ramos yngstir Spánverja á HM

Cesc Fabregas, leikmaður Arsenal og Sergio Ramos, leikmaður Real Madrid, urðu í dag yngstu leikmennirnir í sögu spænska landsliðsins til að spila leik á HM. Ramos varð tvítugur fyrir skömmu, en Fabregas er rétt skriðinn yfir nítján árin. Það var Julen Guerrero sem átti eldra metið frá 1994 þegar hann kom við sögu hjá liðinu 20 ára og 161 daga gamall.

Pólskir stuðningsmenn handteknir

Lögreglan í Dortmund handtók í dag 55 stuðningsmenn pólska landsliðsins fyrir ólæti og vopnaburð, en þessir fornu fjendur mætast í A-riðli í kvöld. Nokkrir af þessum stuðningsmönnum voru sagðir "góðkunningjar lögreglunnar" en mikill viðbúnaður er fyrir leik liðanna. Tugþúsundir stuðningsmanna liðanna eru þegar farnir að safnast saman í borginni. Talsmaður lögreglu tók þó fram að yfir höfuð hefðu samskipti stuðningsmanna þjóðanna verið til mikils sóma.

Pulis kominn aftur til Stoke

Stjórn Stoke City hefur ráðið Tony Pulis sem næsta knattspyrnustjóra félagsins, en hann var sem kunnugt er rekinn frá félaginu í fyrra. Pulis stýrði liðinu á árunum 2002-2005, en var nú síðast hjá Plymouth. Pulis tekur við starfinu af hollendingnum Johan Boskamp, sem nú er kominn til Belgíu.

Everton kaupir Lescott

Enska úrvalsdeildarliðið Everton hefur gengið frá kaupum á varnarmanninum Joleon Lescott frá Wolves fyrir 5 milljónir punda. Lescott hefur skrifað undir fjögurra ára samning við félagið, en hann er 23 ára gamall. David Moyes, stjóri Everton, segir að félagið hafi lengi haft augastað á leikmanninum, sem hann kallaði besta miðvörð í ensku 1. deildinni á síðustu leiktíð.

Aragones mjög sáttur við sína menn

Luis Aragones, þjálfari spænska landsliðsins, var mjög sáttur við frammistöðu sinna manna í sigrinum á Úkraínu í dag. "Ég er viss um að við höfum alla burði til að verða eitt af bestu liðunum í þessari keppni. Ég átti von á erfiðari leik gegn Úkraínu, en eftir að við settum annað markið á þá, var eins og þeir brotnuðu," sagði Aragones eftir auðveldan 4-0 sigur Spánverja.

Neville meiddur, Rooney klár

Englendingar urðu fyrir nokkru áfalli í dag þegar bakvörðurinn Gary Neville þurfti að hætta á æfingu liðsins eftir aðeins 15 mínútur vegna meiðsla á læri. Neville hefur barist við þessi meiðsli síðan tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni lauk og er nú talinn afar tæpur fyrir leikinn gegn Trinidad á morgun. Sven-Göran Eriksson fullyrðir hinsvegar að Wayne Rooney sé klár í slaginn og gæti hann jafnvel komið við sögu á morgun. Hann ætlar að tefla fram sama byrjunarliði og í opnunarleiknum.

Risatilboð í Torres í vændum?

Breska blaðið Manchester Evening News hefur greint frá því að Manchester United sé að undirbúa risatilboð í spænska framherjann Fernando Torres hjá Atletico Madrid. Blaðið heldur því fram að enska liðið muni bjóða 25 milljónir punda í spænska landsliðsmanninn fljótlega, en hann var einmitt einn af markaskorurum liðsins í sigrinum á Úkraínumönnum á HM í dag og hefur verið einn eftirsóttasti framherji heimsins í nokkur ár.

Dökkt útlit hjá Baros

Tékkneski framherjinn Milan Baros er ekki mjög bjartsýnn á að geta leikið með liðinu á HM eftir að hann reyndi fyrir sér á æfingu í dag, en þurfti að hætta eftir aðeins 30 mínútur. Baros var sprautaður með verkjalyfjum, en allt kom fyrir ekki. Það er því ljóst að tékkneska liðið er í bullandi vandræðum með framherja sína á mótinu, en Jan Koller er meiddur á læri og verður frá í að minnsta kosti eina viku í viðbót.

Auðvelt hjá Spánverjum

Spánverjar burstuðu Úkraínumenn 4-0 í H-riðli heimsmeistaramótsins í dag. Mörk Spánverja skoruðu þeir Xabi Alonso, Fernando Torres og David Villa skoraði tvö mörk. Úkraínumenn léku manni færri frá því í upphafi síðari hálfleiks. Ljóst er að Spánverjar eru til alls líklegir í keppninni.

Það er auðvelt að dekka Ronaldo

Robert Kovac, miðvörður króatíska landsliðsins í knattspyrnu, sagði að það hefði verið auðvelt að dekka brasilíska framherjann Ronaldo í leiknum í gærkvöldi og sagði að Ronaldo hefði verið fjarri sínu besta.

Stóðst læknisskoðun hjá Barcelona

Nú styttist í að haldinn verði blaðamannafundur hjá spænska liðinu Barcelona þar sem tilkynnt verða kaup félagsins á landsliðsfyrirliðanum Eiði Smára Guðjohnsen. Eiður stóðst læknisskoðun hjá félaginu í dag og skrifar undir fjögurra ára samning nú innan stundar.

Spánverjar komnir í 3-0 gegn Úkraínu

Spánverjar eru komnir langt með að vinna sigur í sínum fyrsta leik í H-riðlinum á HM, en liðið hefur náð 3-0 forystu gegn Úkraínu eftir aðeins 50 mínútur og leika manni fleiri. Xabi Alonso kom Spánverjum yfir og David Villa er búinn að skora tvö mörk, annað úr aukaspyrnu og hitt úr víti. Vladislav Vashchuk hefur verið vikið af leikvelli hjá Úkraínu.

Leikir dagsins

Þrír leikir er á dagskrá á HM í dag. Klukkan 13.00 er athyglisverður leikur á milli Spánar og Úkraínu. Klukkan 16.00 er svo leikur Túnis og Sádí Arabíu. Kvöldleikurinn er svo leikur nágrannaþjóðanna Þýskalands og Póllands. Allt þetta og miklu meira á Sýn í dag.

Ótrúlegur sigur Miami

Miami Heat forðaði sér naumlega frá því að lenda undir 3-0 í lokaúrslitum NBA í nótt þegar liðið vann afar dramatískan sigur á Dallas Mavericks á heimavelli sínum 98-96. Svo virtist sem lið Miami væri heillum horfið í gær, en liðið var á kafla 13 stigum undir í fjórða leikhluta. Dwyane Wade bar sína menn á herðum sér og skoraði 42 stig og hirti 13 fráköst fyrir Miami.

Stór Kaka

Markið sem Kaka leikmaður AC Milan skoraði undir lok fyrri hálfleiks, fer í sögubækur, hreint ótrúlega yfirvegaður leikmaður, skotið hnitmiðað, í hornið fjær, einfalt, stílhreint, og hann einn besti maður liðsins, kannski sá eini sem stóð undir þessum geggjuðu kröfum sem gerðar eru til drengjanna í gulu peysunum.

Santos meiddur og al-Jaber tæpur

Túnis leikur án Francileudo Santos í sínum fyrsta leik í riðlinum. Framherjinn meiddist á fæti í æfingaleik. Sádarnir eiga í vandræðum með að ná fyrirliða sínum Sami al-Jaber góðum fyrir leikinn en hann hefur átt við lærmeiðsli að stríða.

Úrslit í úrtöku hjá Sleipni, Ljúf, Háfeta og Trausta

Sigurður Vignir Matthíasson sigraði í A flokki gæðinga í úrtöku hjá Sleipni, Ljúf, Háfeta og Trausta sem lauk nú í kvöld á Kvist frá Hvolsvelli með 8,59. Þórður Þorgeirsson lenti í öðru sæti á Snædísi frá Selfossi með 8,55 og Elsa Magnúsdóttir húsfreyja á Sólvangi endaði í því þriðja á Þyt frá Kálfhóli með 8,51 en þessi þrjú kepptu fyrir Sleipni.

Raul úti, Shevchenko inni

Raul hefur leikið illa í vetur og allt bendir til þess að hann verði settur út í kuldann fyrir leikinn við Úkraínu. Búist er við að Fernando Torres og David Villa sem báðir hafa hins vegar leikið vel haldi gulldregnum úti.

Beckham róar félaga sína

David Beckham segir að hann sem fyrirliði þurfi að fylgjast með því sem gerist á vellinum. „Ég sagði við Crouchy (Peter Crouch) að hann ætti ekki að stökkva með olbogana úti, það gæti engin mótherji stokkið nógu hátt“.

Brasilía lagði Króatíu

Heimsmeistarar Brasilíu sigruðu Króata 1-0 í F-riðli heimsmeistaramótsins í kvöld með glæsimarki frá Kaka skömmu fyrir leikhlé. Lið Króata sýndi hetjulega baráttu og vel skipulagðan varnarleik, en glæsilegt einstaklingsframtak Kaka gerði gæfumuninn í kvöld. Þetta var áttundi sigur Brasilíumanna í röð á HM og það er afrek sem ekkert lið hefur áður náð í sögu keppninnar.

Brasilía er yfir 1-0 í hálfleik

Brasilíumenn leiða í hálfleik í leiknum gegn Króatíu á HM í Þýskalandi. Það var snillingurinn Kaka sem skoraði markið á 44. mínútu með hnitmiðuðu skoti fyrir utan vítateig. Króatar sem hafa leikið vel í leiknum urðu fyrir áfalli þegar Nico Kovac þurfti að fara meiddur af leikvelli.

Brassar stíga senn á dansgólfið

Nú styttist í leik Brasilíu og Króatíu á HM. Það ríkir mikil eftirvænting eftir því að sjá "Sambakóngana" í brasilíska liðinu stíga inn á það dansgólf sem HM er fyrir þá. Liðin eru þannig skipuð.

Leikur Brasilíu og Króatíu að hefjast

Nú er komið að því sem margir hafa beðið eftir á HM, því heimsmeistarar Brasilíu spila sinn fyrsta leik nú klukkan 19 þegar þeir mæta Króötum í H-riðli. Brassar tefla fram sókndjörfu liði með þá Ronaldo, Adriano, Kaka og Ronaldinho í fararbroddi.

Eiður í háttinn fyrir ellefu

Spænsku dagblöðin sem hafa fullyrt í hverri fréttinni á fætur annarri að Eiður Smári Guðjohnsen sé á leið til Barcelona eru nú einnig farin að velta sér upp úr persónulegum lífsvenjum íslenska landsliðsfyrirliðans.

Sjá næstu 50 fréttir