Fleiri fréttir

Enn barist við skógarelda

Slökkviliðsmenn, í Suður-Kaliforníu, gera sér vonir um að í kvöld eða nótt verði hægt að ná tökum á skógareldum sem hafa logað í Orange-sýslu síðan snemma í gær. Um 1.200 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Erfiðlega hefur gengið að berjast við eldana því vindasamt er á svæðinu, miklir þurrkar og hiti óvenju mikill miðað við árstíma.

45 ára ferli að ljúka

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri. Þetta tilkynnti hann formlega í gærkvöldi. Þar með lýkur 45 ára ferli eins litríkasta stjórnmálamanns Frakklands.

Danir skammaðir fyrir fiskveiðistjórnun

Evrópusambandið hefur gagnrýnt fiskveiðistjórnun Dana harðlega, og sjávarútvegsráðherra landsins viðurkennir að sú gagnrýni eigi rétt á sér. Stikkprufur sem gerðar voru hjá dönskum fiskimönnum leiddi í ljós að 13 prósent sinntu ekki skráningarskyldu sinni og lönduðu framhjá eftirlitskerfinu.

Lögmenn mótmæla í Pakistan

Lögmenn í Pakistan mótmæltu víða um landið og sniðgengu réttarsali í dag í mótmælaskyni við brottvikningu æðsta dómara landsins úr embætti. Musharaf forseti tók ákvörðunina vegna misnotkunar dómarans í embætti. Meira en 20 lögmenn slösuðust í átökum við lögreglu í Lahore og hundruðir lögmanna í svörtum jakkafötum fylktu liði í öðrum borgum.

Smáralindardeila á Spáni

Auglýsing frá Giorgio Armani junior hefur vakið athygli á Spáni. Auglýsingin sýnir litla stúlku í bikiníi. Fyrir skemmstu þurfti Dolce og Gabbana að hætta við auglýsingu sem sýndi mann halda konu niðri við jörðina á meðan aðrir karlmenn horfðu á.

Samningur um kjarnorkuþróun milli Líbýu og Bandaríkjanna

Bandaríkin munu undirrita samstarfsyfirlýsingu við Líbýu um þróun kjarnorku til orkunota. Líbýska fréttastofan Jana greindi frá þessu í dag. Í yfirlýsingu segir að Líbýsk nefnd um alþjóðlegt samstarf hafi verið falið að skrifa undir samstarfssamning við Bandaríkin um friðsamlega notkun kjarnorku.

Fréttamanni BBC rænt

Alan Johnston fréttaritara breska ríkisútvarpsins BBC í Palestínu var rænt á Gaza í dag. Lögreglan segir ekki ljóst hverjir standa á bakvið ránið. Heimildarmenn staðfestu að maðurinn væri Alan Johnston, en bílaleigubíll hans fannst í Gasaborg. Lögreglan vinnur nú að rannsókn mannránsins.

Reykingabanni í Danmörku frestað fram á sumar

Reykingabanni á bæði opinberum og almennum vinnustöðum í Danmörku sem taka átti gildi um næstu mánaðamót hefur verið frestað til 15. ágúst. Flestir flokkar á danska þinginu samþykktu fyrir áramót að styðja slíkt frumvarp en það er þó ekki enn þá komið fram eftir því sem segir á vef Jótlandspóstsins.

Sjálfsmorðsárás á Internet kaffihúsi

Maður sem var meinaður aðgangur að hryðjuverkasíðu á Internet kaffihúsi í Casablanca í Marokkó sprengdi sjálfan sig í loft upp á staðnum í gærkvöldi. Þrír særðust í sjálfsmorðsárásinni, þar á meðal kaffihúsaeigandinn. Atvikið átti sér stað þegar maðurinn kom inn ásamt félaga sínum og lenti í deilu við eigandann út af aðgangi að vefsíðu íslamskra öfgamanna.

300 stöður lagðar niður hjá Danmarks Radio

Stjórnendur danska ríkisútvarpsins, Danmarks Radio, hafa uppi áform um að leggja niður allt að 300 stöður innan stofnunarinnar til þess að spara í rekstri hennar. Eftir því sem fram kemur á vef Jótlandspóstsins þarf að spara í rekstri stofnunarinnar eftir að kostnaður við uppbyggingu á húsnæði DR í Örestad fór mikið fram úr áætlun.

Amma í fallhlífarstökki

Það er ekki oft sem áttatíu og níu ára gamlar konur stökkva í fallhlíf úr þrjú þúsund metra hæð en það gerði Hilda Person í Ástralíu í gær. Hilda vildi með stökkinu safna fé til krabbameinsrannsókna. Dóttir Hildu varð krabbameini að bráð fyrir ári og vildi Hilda leggja sitt af mörkum til að fé fengist til frekari rannsókna. Hilda stökk út úr flugvélinni með lokuð augun og þjálfara sinn á bakinu. Bæði lentu þau heilu og höldnu. Hilda segir þetta hafa verið skemmtilega upplifun og ætlar í fleiri ævintýraferðir til styrktar krabbameinsrannsóknum.

Chirac styður engan

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, lýsti því formlega yfir í gærkvöldi að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum í næsta mánuði. Hann lýsti ekki yfir stuðningi við neinn frambjóðanda líkt og búist var við.

Tsvangirai laminn af lögreglu

Morgan Tsvangirai leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve hefur verið laminn af lögreglu sem heldur honum í varðhaldi. Þetta segir lögmaður Tsvangirai. Hann var handtekinn í gær ásamt fimm samherjum sínum eftir að óeirðalögregla leysti upp mótmælafund. Lögmenn leita nú leiða til að fá aðgang að sexmenningunum en enn er óvíst hvort þeir hafi verið ákærðir fyrir einhverjar sakir.

Bretar settu upphrópunarmerki í stað spurningamerkja

Bretar tóku skýrslu um gereyðingarvopn í Írak og skiptu út spurningamerkjum fyrir upphrópunarmerki til að rökstyðja innrás í landið. Þetta segir Hans Blix fyrrverandi yfirmaður Vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina.

Skildu eftir marijúana fyrir 1,4 milljarða

Farmur af marijúana, að verðmæti allt að 1,4 milljörðum íslenskra króna, fannst í yfirgefnum sendiferðabíl í Kaliforníu. Bifreiðin var ólæst og vélarhlífin heit en enginn var ökumaðurinn.

Simbabve nálgast suðumark

Yfirvöld í Simbabve handtóku í dag einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í landinu fyrir að rjúfa bann við pólitískum samkomum. Ástandið er afar viðkvæmt í landinu enda er atvinnuleysi mikið og efnahagurinn því sem næst í rúst.

Snaraði þrettán fílakálfum

Indverski spekingurinn Sri Chinmoy er enn í fullu fjöri þótt hann sé kominn hátt á áttræðisaldur. Í vikunni brá hann sér til Taílands þar sem hann gerði sér lítið fyrir og lyfti 13 fílakálfum á þremur dögum.

Rændi 101 árs gamla konu

Myndband sem sýnir óprúttinn ræningja hrinda hundrað og eins árs gamalli konu í gólfið og ræna svo handtösku hennar hefur vakið mikla reiði í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir mikla leit er ræninginn enn ófundinn

Spánverjar minnast hryðjuverka

Spánverjar minnast nú þess að þrjú ár eru liðin frá því að sprengjuárásir voru gerðar á lestarkerfi landsins en 191 lést í árásunum. 11 metra hár minnisvarði úr gleri var afhjúpaður í því tilefni en innan í hann eru áritaðar samúðaróskir og saknaðarkveðjur sem skrifaðar voru í kjölfar árásanna.

Olmert fundar með Abbas

Forsætisráðherra Ísraels, Ehud Olmert, kom til Jerúsalem í dag til þess að eiga viðræður við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu. Þetta er annar fundur þeirra á innan við mánuði. Búist er við því að viðræðurnar eigi eftir að snúast um nýlegt samkomulag Fatah og Hamas hreyfinganna um þjóðstjórn í Palestínu og hvernig samskiptum Ísraels við hana verður háttað.

Bandaríkin flýta klukkunni

Bandaríkjamenn hafa flýtt klukkum sínum eina klukkustund þremur vikum fyrr en venjulega. Þetta gera þeir til þess að spara orku og menga minna. Þingmenn segja að þetta muni minnka til muna útblástur skaðlegra efna í andrúmsloftið og gæti sparað almenningi miklar fjárhæðir.

Íranar bjartsýnir eftir friðarráðstefnu í Bagdad

Utanríkisráðuneytið í Íran sagði í dag að alþjóðlega ráðstefnan í Bagdad, þar sem Íran og Bandaríkin áttu fyrstu viðræður síðan árið 2003, hefði verið gott fyrsta skref í áttina að auknu öryggi og stöðugleika í Írak. Ráðamenn í Tehran gáfu einnig til kynna að þeir vonuðust til þess að seinni fundurinn um málefni Íraks eigi eftir að verða jafngóður. Seinni fundurinn á að eiga sér stað í Apríl og hann munu sækja utanríkisráðherrar þeirra landa sem sem sóttu fundinn í gær.

Leiðtogar stjórnarandstöðu í Zimbabwe handteknir

Yfirvöld í Zimbabwe hafa handtekið leiðtoga stjórnarandstöðunnar þar í landi fyrir að hafa ætlað að halda fjöldabænafund þrátt fyrir bann stjórnvalda við að halda pólitískar samkomur.

Dómari í máli Saddams flýr Írak

Yfirdómarinn í máli Saddams Hússeins hefur flúið Írak og beðið um pólitískt hæli í Bretlandi. Dómarinn, Raouf Abdel-Rahman, er hluti af hinum kúrdíska minnihluta í Írak. Hann var yfirdómari í dómstólnum sem fann Saddam Hússein sekan og dæmdi hann síðan til dauða.

Hamas og Fatah takast á

Liðsforingi í Hamas samtökunum lét lífið í dag í skotabardögum við liðsmenn Fatah hreyfingarinnar á norðuhluta Gaza-svæðisins. Átökin hófust í Beit Hanoun en þar voru gerðar árásir með klasasprengjum og handsprengjum í morgun.

Stefnir í uppgjör í Zimbabwe

Stjórnarandstæðingar í Zimbabwe hafa heitið því að halda samkomu þrátt fyrir að stjórnvöld hafi sett bann á allar stjórnmálasamkomur næstu þrjá mánuði. Bannið var sett á vegna ofbeldis sem braust út á samkomu stjórnarandstæðinga í síðasta mánuði.

Illa búið að breskum hermönnum

Yfir tuttugu þúsund breskir hermenn eru sagðir þjást af þunglyndi og öðrum geðsjúkdómum eftir að hafa verið sendir til Íraks og Afganistans. Þúsund manns úr þessum hópi eru á götunni og sú heilbrigðisþjónusta sem þeim býðst er bágborin. Nokkur dæmi eru um að þeir sem gegnt hafa herþjónustu í Írak hafi stytt sér aldur.

Rússar kjósa í sveitastjórnarkosningum í dag

Meira en 30 milljón Rússar munu kjósa í sveitastjórnarkosningum í landinu í dag. Almennt er talið að kosningarnar séu nær því að vera undirbúningur fyrir þingkosningarnar en þær fara fram á næstunni.

29 látnir og 12 slasaðir í Írak í morgun

Bílsprengja sprakk í morgun í miðborg Bagdad og létu að minnsta kosti 19 manns lífið. Frá þessu skýrði lögregla í borginni í morgun. Sprengingin varð í Karrada hverfinu í Bagdad en í því búa mestmegnis sjía múslimar.

Fjöldamótmæli í Madríd

Tugþúsundir manna flykktust út á götu Madrídar, höfuðborgar Spánar í gær, til að mótmæla því að Jose Ignacio de Juana Chaos, liðsmaður Aðskilnaðarhreyfingar Baska, ETA, hefði verið færður úr öryggisgæslu yfir í stofufangelsi.

Fyrstu frjálsu kosningarnar í Máritaníu í 50 ár

Kosningar eru hafnar í norðvestur-Afríkuríkinu Máritaníu en þetta verða fyrstu frjálsu kosningarnar í landinu í tæplega fimmtíu ár. Meira en ein milljón manna verða á kjörskrá og kjósa á milli 19 frambjóðenda.

Bjórnum varpað beint úr ísskápnum

Bandarískur hugbúnaðarverkfræðingur kynnti nýja og afar gagnlega uppfinningu í vikunni sem nú er senn á enda. Tækið sem hann fann upp getur skotið bjórdósum beint úr ísskápnum yfir í stofusófann.

Ást verður hluti af leiknum

Hinn þaulreyndi leikjahönnuður Peter Molyneux hefur tilkynnt að hann vilji að ást sé hluti af næsta leik sem hann hannar, Fable 2. „Þetta er djarfa áætlunin mín - ég ætla þér að upplifa eitthvað í Fable sem þú sem tölvuleikjaspilari hefur aldrei upplifað áður.“ lýsti Molyneux yfir.

Fimm landa heimsókninni senn lokið

George Bush forseti Bandaríkjanna og Hugo Chavez forseti Venesúela ferðast þessa dagana um Suður-Ameríku til að styrkja tengslin við bandamenn sína. Vart þarf að taka fram að þeir ferðast hvor í sínu lagi enda svarnir óvinir.

Fulltrúar Írans og BNA ræddust við

Forsætisráðherra Íraks biðlaði, á ráðstefnu í Bagdad í dag, til nágrannaríkja sinna um aðstoð við að binda enda á vargöldina sem ríkir í landinu. Fulltrúar Bandaríkjanna og Írans ræddust þar við með beinum hætti en stjórnmálasamband á milli ríkjanna hefur legið niðri í 28 ár.

Friðsöm mótmæli í dag

Þúsundir manna gengu fylktu liði um götur Kaupmannahafnar í dag til að mótmæla niðurrifi Ungdómshússins á Norðurbrú í vikunni. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa krafist rannsóknar á framgöngu lögreglunnar í garð mótmælenda um síðustu helgi.

Sluppu með skrekkinn

Þrír íslenskir námsmenn, búsettir í bænum Naples í Flórídaríki í Bandaríkjunum sluppu með skrekkinn í nótt. Þeir voru á leið heim af skemmtistað þegar á þá var ráðist með hafnaboltakylfu. Þeim tókst að komast undan ræningjanum og brátt var svæðið umkringt 18 lögreglubílum.

Írakar vongóðir eftir fyrsta fund

Utanríkisráðherra Íraks, Hoshyar Zebari, var vongóður eftir fyrsta alþjóðlega fundinn um framtíð Íraks og hvernig sé hægt að koma ró á í landinu. „Fundurinn var jákvæður og uppbyggjandi,“ sagði Zebari. „Niðurstöður fundarmanna voru góðar.“

Sagaði húsið í tvennt

Þjóðverji einn ákvað að binda endi á skilnaðardeilu við konu sína með því að saga timburhús þeirra í tvennt með keðjusög og fara með sinn hluta í burtu með gaffallyftara.

Tveimur þjóðverjum rænt í Írak

Tveimur þýskum ríkisborgunum hefur verið rænt í Írak. Áður óþekktur uppreisnarhópur setti í dag myndband af þeim á netið og gaf þýskum stjórnvöldum tíu daga til þess að draga hermenn sína frá Afganistan. Annars myndu þeir aflífa fólkið. Hópurinn kallar sig „Örvar Réttlætisins.“ Þýsk stjórnvöld ætla sér að gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að frelsa fólkið.

Tvö þúsund manna mótmæli í Kaupmannahöfn

Tvö þúsund manns ganga nú fylktu liði frá Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn að Norðurbrú og krefjast þess að nýtt Ungdómshús verði reist á þeim slóðum í stað hússins umdeilda sem stóð við Jagtvejen og var rifið í vikunni. Mótmælin eru friðsamleg en lögregla hefur uppi mikinn viðbúnað.

Bush kominn til Úrugvæ

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hélt í dag ferðalagi sínu um Suður-Ameríku áfram. Í dag fundaði hann með forseta Úrugvæ en þeir vilja ólmir skrifa undir fríverslunarsamninga við Bandaríkin, jafnvel þó svo þeir þyrftu að yfirgefa fríverslunarbandalag ríkja í Suður-Ameríku

Söngvari Boston látinn

Söngvari hljómsveitarinnar Boston fannst látinn á heimili sínu í gær. Brad Delp, sem var 55 ára, var söngvari sveitarinn þegar hún gerði lögin „More Than a Feeling“ og „Long Time“ vinsæl.

Sjá næstu 50 fréttir