Fleiri fréttir

Samningur um kjarnorkuþróun milli Líbýu og Bandaríkjanna

Bandaríkin munu undirrita samstarfsyfirlýsingu við Líbýu um þróun kjarnorku til orkunota. Líbýska fréttastofan Jana greindi frá þessu í dag. Í yfirlýsingu segir að Líbýsk nefnd um alþjóðlegt samstarf hafi verið falið að skrifa undir samstarfssamning við Bandaríkin um friðsamlega notkun kjarnorku.

Fréttamanni BBC rænt

Alan Johnston fréttaritara breska ríkisútvarpsins BBC í Palestínu var rænt á Gaza í dag. Lögreglan segir ekki ljóst hverjir standa á bakvið ránið. Heimildarmenn staðfestu að maðurinn væri Alan Johnston, en bílaleigubíll hans fannst í Gasaborg. Lögreglan vinnur nú að rannsókn mannránsins.

Atvinnuleysi minnkar milli ára

Atvinnuleysi í febrúar síðastliðnum reyndist 1,3 prósent og jókst um þrjú prósent milli mánaða. Þetta leiða tölur Vinnumálastofnunar í ljós. Atvinnuleysi er töluvert minna en á sama tíma fyrir ári þegar það var 1,6 prósent og hefur fækkað í hópi atvinnulausra um rúmlega 300 manns á tímabilinu.

Reykingabanni í Danmörku frestað fram á sumar

Reykingabanni á bæði opinberum og almennum vinnustöðum í Danmörku sem taka átti gildi um næstu mánaðamót hefur verið frestað til 15. ágúst. Flestir flokkar á danska þinginu samþykktu fyrir áramót að styðja slíkt frumvarp en það er þó ekki enn þá komið fram eftir því sem segir á vef Jótlandspóstsins.

Sjálfsmorðsárás á Internet kaffihúsi

Maður sem var meinaður aðgangur að hryðjuverkasíðu á Internet kaffihúsi í Casablanca í Marokkó sprengdi sjálfan sig í loft upp á staðnum í gærkvöldi. Þrír særðust í sjálfsmorðsárásinni, þar á meðal kaffihúsaeigandinn. Atvikið átti sér stað þegar maðurinn kom inn ásamt félaga sínum og lenti í deilu við eigandann út af aðgangi að vefsíðu íslamskra öfgamanna.

300 stöður lagðar niður hjá Danmarks Radio

Stjórnendur danska ríkisútvarpsins, Danmarks Radio, hafa uppi áform um að leggja niður allt að 300 stöður innan stofnunarinnar til þess að spara í rekstri hennar. Eftir því sem fram kemur á vef Jótlandspóstsins þarf að spara í rekstri stofnunarinnar eftir að kostnaður við uppbyggingu á húsnæði DR í Örestad fór mikið fram úr áætlun.

Skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás

Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa á heimili sínu ráðist að konu og slegið hana að minnsta kosti tvisvar í andlitið þannig að hún nefbrotnaði meðal annars og hlaut heilahristing.

Færeyskir feðgar yfirheyrðir í Baugsmálinu

Yfirheyrslum yfir feðgunum Niels H. Mortesen og Hans Mortensen, framkvæmdastjórum færseyska fyrirtækisins SMS, í Baugsmálinu lauk nú fyrir hádegi en þeir voru spurðir um samskipti SMS og Baugs í tengslum við 16. ákærulið Baugsmálsins.

Amma í fallhlífarstökki

Það er ekki oft sem áttatíu og níu ára gamlar konur stökkva í fallhlíf úr þrjú þúsund metra hæð en það gerði Hilda Person í Ástralíu í gær. Hilda vildi með stökkinu safna fé til krabbameinsrannsókna. Dóttir Hildu varð krabbameini að bráð fyrir ári og vildi Hilda leggja sitt af mörkum til að fé fengist til frekari rannsókna. Hilda stökk út úr flugvélinni með lokuð augun og þjálfara sinn á bakinu. Bæði lentu þau heilu og höldnu. Hilda segir þetta hafa verið skemmtilega upplifun og ætlar í fleiri ævintýraferðir til styrktar krabbameinsrannsóknum.

Rannsaka ástæðu rafmagnstruflana

Enn er óljóst hver var ástæða rafmagnstruflana á Suðvesturlandi í fyrrinótt, sem olli sumstaðar tjóni. Stjórnendur orkufyrirtækja á svæðinu ætla að fara saman yfir atburðarásina. Orkuveita Reykjavíkur mun bæta það tjón, sem rakið verður til hennar vegna rafmagnstruflananna í fyrrinótt, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Ein afleiðing þessa var sú að loka þurfti fyrir heitt vatn í Árbæjarhverfi fram eftir degi í gær og dælustöð við Ánanaust varð óvirk.

Chirac styður engan

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, lýsti því formlega yfir í gærkvöldi að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum í næsta mánuði. Hann lýsti ekki yfir stuðningi við neinn frambjóðanda líkt og búist var við.

Verð á veitingum mikil vonbrigði

Geir Haarde forsætisráðherra segir það mikil vonbrigði að verð á veitingahúsum skuli ekki hafa lækkað meira en raun ber vitni. Hagstofan hafði reiknað með lækkun hjá veitingahúsum upp á tæplega 9 prósent, en raunlækkun er einungis rúmlega þrjú prósent. Geir sagði í hádegisviðtali Stöðvar 2 að það væri algjört lágmark að veitingaþjónustan skilaði sínu í átaki um að lækka matarverð: „Mér finnst þetta ekki gott.“

3-400 störf á landsbyggðina

Þrjú til fjögurhundruð störf gætu lagst landsbyggðinni til á ári að mati formanns Samfylkingarinnar ef störf óháð staðsetningu væru auglýst sem slík.

Tsvangirai laminn af lögreglu

Morgan Tsvangirai leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve hefur verið laminn af lögreglu sem heldur honum í varðhaldi. Þetta segir lögmaður Tsvangirai. Hann var handtekinn í gær ásamt fimm samherjum sínum eftir að óeirðalögregla leysti upp mótmælafund. Lögmenn leita nú leiða til að fá aðgang að sexmenningunum en enn er óvíst hvort þeir hafi verið ákærðir fyrir einhverjar sakir.

Hús í Bolungarvík rýmd vegna snjóflóðahættu

Fimm íbúðarhús voru rýmd í Bolungarvík í morgun vegna snjóflóðahættu. Eftir samráð snjóflóðasérfræðinga Veðurstofunnar og lögreglustjórans á Vestfjörum var tekin ákvörðun um þetta vegna óstöðugra snjóalaga og snjóflóða, sem fallið hafa á norðanverðum Vestfjörðum undanfarna daga. Þau flóð hafa öll fallið utan við byggð. Húsin sem voru rýmd i mrogun eru unmdir Traðargili, en nokkur snjór er í giljum, þótt ekki sé hægt að tala um fannfergi vestra, að sögn heimamanna.

Forsetahjónin heimsóttu Ártúnsskóla

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff forsetafrú komu í heimsókn í Ártúnsskóla í Reykjavík í morgun. Skólinn hlaut íslensku menntaverðlaunin 2006 fyrir nýsköpun og farsælt samhengi í fræðslustarfi.

Bretar settu upphrópunarmerki í stað spurningamerkja

Bretar tóku skýrslu um gereyðingarvopn í Írak og skiptu út spurningamerkjum fyrir upphrópunarmerki til að rökstyðja innrás í landið. Þetta segir Hans Blix fyrrverandi yfirmaður Vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina.

Skildu eftir marijúana fyrir 1,4 milljarða

Farmur af marijúana, að verðmæti allt að 1,4 milljörðum íslenskra króna, fannst í yfirgefnum sendiferðabíl í Kaliforníu. Bifreiðin var ólæst og vélarhlífin heit en enginn var ökumaðurinn.

Simbabve nálgast suðumark

Yfirvöld í Simbabve handtóku í dag einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í landinu fyrir að rjúfa bann við pólitískum samkomum. Ástandið er afar viðkvæmt í landinu enda er atvinnuleysi mikið og efnahagurinn því sem næst í rúst.

Ströng stefna gagnvart innflytjendum

Íslendingar hafa ströngustu innflytjendastefnu í lýðfrjálsum heimi. Þetta fullyrðir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði sem segir tómt mál að tala um að takmarka flæðið frá Evrópu til landsins á grundvelli undantekninga frá EES samningi.

Snaraði þrettán fílakálfum

Indverski spekingurinn Sri Chinmoy er enn í fullu fjöri þótt hann sé kominn hátt á áttræðisaldur. Í vikunni brá hann sér til Taílands þar sem hann gerði sér lítið fyrir og lyfti 13 fílakálfum á þremur dögum.

Rændi 101 árs gamla konu

Myndband sem sýnir óprúttinn ræningja hrinda hundrað og eins árs gamalli konu í gólfið og ræna svo handtösku hennar hefur vakið mikla reiði í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir mikla leit er ræninginn enn ófundinn

Ísfirðingar vilja aðgerðir í atvinnumálum

Fullt var út úr dyrum á almennum borgarafundi á Ísafirði í dag þar sem þess var krafist að gripið yrði til sértækra aðgerða til að bjarga atvinnulífi á staðnum. Þingmenn og sveitarstjórnarmenn voru hvattir til að leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um brýn úrlausnarefni í atvinnu- og byggðamálum.

Saksóknari og Samkeppniseftirlitið gegn breytingartillögum Sjálfstæðismanna

Saksóknari efnahagsbrota segir í bréfi til efnahags og viðskiptanefndar að breytingar sem sjálfstæðismenn vilja gera á nýju frumvarpi til samkeppnislaga, hefðu bein áhrif á mál olíuforstjórana sem er fyrir dómstólum. Þetta kemur fram í bréfi hans til efnahags og viðskiptanefndar, þar sem hann leggst gegn breytingunum.

Vatnstjón vegna eldingar

Gríðarlegt tjón varð í morgun vegna mestu flóða í íbúðarhúsnæði sem slökkviliðið í Reykjavík hefur þurft að kljást við. Orsökina virðist mega rekja til dæla á vegum borgarinnar sem urðu óvirkar þegar eldingu laust niður í raflínur í grennd við borgina. Skammhlaupið olli hitavatnsleysi í Árbæ og sló út rafmagn í álverunum í Straumsvík og á Grundartanga.

Stóraðgerð lögreglu á Suðurnesjum

Tugir lögreglumanna og tollvarða á Suðurnesjum tóku þátt í stórri aðgerð í gærkvöld til að stemma stigu við vaxandi umsvifum fíkniefnasala í umdæminu. Farið var í sex húsleitir, tólf voru handteknir og hald lagt á talsvert af fíkniefnum.

Varaði við að byggð risi nærri álverinu

Fyrrverandi forstjóri álversins í Straumsvík fór fram á það við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að ný íbúabyggð myndi ekki rísa nærri álverinu. Þetta kemur fram í fréttaskýringaþættinum Kompási í kvöld. Í bréfinu, sem skrifað var fyrir tólf árum, segir að stækkun ÍSAL þýði meiri mengun frá álbræðslunni og hættu á árekstrum.

Spánverjar minnast hryðjuverka

Spánverjar minnast nú þess að þrjú ár eru liðin frá því að sprengjuárásir voru gerðar á lestarkerfi landsins en 191 lést í árásunum. 11 metra hár minnisvarði úr gleri var afhjúpaður í því tilefni en innan í hann eru áritaðar samúðaróskir og saknaðarkveðjur sem skrifaðar voru í kjölfar árásanna.

Bush fer til Kólumbíu

Þúsundir lögreglumanna og hermanna fylltu götur Bogota í Kólumbíu áður en George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, kom þangað í dag. Heimsókn hans er sú síðasta í röð heimsókna til landa í Suður-Ameríku áður en hann snýr heim á leið.

Nýr gervigrasvöllur formlega afhentur ÍR

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, afhenti í dag ÍR formlega til afnota nýjan gervigrasvöll, sem gerður hefur verið við félagsheimili ÍR að Skógarseli 12. Afhendingin var í tengslum við 100 ára afmæli ÍR. Gervigrasvöllurinn ásamt öryggissvæðum er nær 9 þúsund fermetrar og er hann afgirtur með fjögurra metra hárri stálgrindargirðingu. Gervigrasvöllurinn er flóðlýstur með 18 m háum ljósamöstrum, sex að tölu.

Elding ástæða tugmilljóna tjóns

Svo virðist sem að eldingu hafi lostið niður í loftlínur á milli Kolviðarháls og Geitháls og ollið skammhlaupi í háspennukerfi Landsnets. Atvikið virðist hafa haft áhrif á búnað hjá Reykjavíkurborg sem og álverunum á Grundartanga og í Straumsvík. Samkvæmt því sem Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, sem rekur dreifikerfi Landsvirkjunar, segir á það ekki að gerast undir eðlilegum kringumstæðum. Hvers vegna eldingin hafði þessi áhrif verður rannsakað eftir helgi.

Vestfirðingar krefjast lausna

Um tvö hundruð Vestfirðingar mættu á hvatningar og baráttufund í dag. Blikur eru á lofti í atvinnulífi svæðisins og var fundurinn ákall til kjörinna fulltrúa Vestfjarða á þingi og sveitarstjórnum um að þeir taki höndum saman, leggi flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinist í að leysa brýn verkefni í atvinnu og byggðamálum Vestfjarða.

Olmert fundar með Abbas

Forsætisráðherra Ísraels, Ehud Olmert, kom til Jerúsalem í dag til þess að eiga viðræður við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu. Þetta er annar fundur þeirra á innan við mánuði. Búist er við því að viðræðurnar eigi eftir að snúast um nýlegt samkomulag Fatah og Hamas hreyfinganna um þjóðstjórn í Palestínu og hvernig samskiptum Ísraels við hana verður háttað.

Hvetur stjórnmálaflokka til áherslu á umhverfismál

Framtíðarlandið hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem það hvetur alla stjórnmálaflokka á Íslandi ti þess að svara kalli almennings um auknar áherslur á náttúruvernd og umhverfismál, virða þau verðmæti sem felast í óspilltri náttúru landsins, og vaxtarhugmyndum sem byggja á hugviti, nýsköpun og útrás.

Forsetahjónin heimsækja Ártúnsskóla

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú munu heimsækja Ártúnsskóla á morgun, mánudaginn 12. mars. Ártúnsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2006 í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun og farsælu samhengi í fræðslustarfi en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem að forsetaembættið sendi frá sér í dag.

Elding olli skammhlaupi

Svo virðist sem að eldingu hafi lostið niður í loftlínur á milli Kolviðarháls og Geitháls og ollið skammhlaupi. Atvikið virðist hafa haft áhrif á búnað hjá Reykjavíkurborg sem og álverunum á Grundartanga og í Straumsvík.

Bandaríkin flýta klukkunni

Bandaríkjamenn hafa flýtt klukkum sínum eina klukkustund þremur vikum fyrr en venjulega. Þetta gera þeir til þess að spara orku og menga minna. Þingmenn segja að þetta muni minnka til muna útblástur skaðlegra efna í andrúmsloftið og gæti sparað almenningi miklar fjárhæðir.

Íranar bjartsýnir eftir friðarráðstefnu í Bagdad

Utanríkisráðuneytið í Íran sagði í dag að alþjóðlega ráðstefnan í Bagdad, þar sem Íran og Bandaríkin áttu fyrstu viðræður síðan árið 2003, hefði verið gott fyrsta skref í áttina að auknu öryggi og stöðugleika í Írak. Ráðamenn í Tehran gáfu einnig til kynna að þeir vonuðust til þess að seinni fundurinn um málefni Íraks eigi eftir að verða jafngóður. Seinni fundurinn á að eiga sér stað í Apríl og hann munu sækja utanríkisráðherrar þeirra landa sem sem sóttu fundinn í gær.

Leiðtogar stjórnarandstöðu í Zimbabwe handteknir

Yfirvöld í Zimbabwe hafa handtekið leiðtoga stjórnarandstöðunnar þar í landi fyrir að hafa ætlað að halda fjöldabænafund þrátt fyrir bann stjórnvalda við að halda pólitískar samkomur.

Dómari í máli Saddams flýr Írak

Yfirdómarinn í máli Saddams Hússeins hefur flúið Írak og beðið um pólitískt hæli í Bretlandi. Dómarinn, Raouf Abdel-Rahman, er hluti af hinum kúrdíska minnihluta í Írak. Hann var yfirdómari í dómstólnum sem fann Saddam Hússein sekan og dæmdi hann síðan til dauða.

Hamas og Fatah takast á

Liðsforingi í Hamas samtökunum lét lífið í dag í skotabardögum við liðsmenn Fatah hreyfingarinnar á norðuhluta Gaza-svæðisins. Átökin hófust í Beit Hanoun en þar voru gerðar árásir með klasasprengjum og handsprengjum í morgun.

Vonast til þess að hleypa vatni á fyrir kvöldið

„Við vonumst til þess að þetta verði komið í lag fyrir kvöldið.“ sagði Guðmundur Sigurjónsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar í samtali við Vísi. Loka þurfti fyrir heitt vatn í Árbæjarhverfi í morgun þar sem leki hafði komið að aðalæðinni inn í hverfið.

Stefnir í uppgjör í Zimbabwe

Stjórnarandstæðingar í Zimbabwe hafa heitið því að halda samkomu þrátt fyrir að stjórnvöld hafi sett bann á allar stjórnmálasamkomur næstu þrjá mánuði. Bannið var sett á vegna ofbeldis sem braust út á samkomu stjórnarandstæðinga í síðasta mánuði.

Sjá næstu 50 fréttir