Fleiri fréttir

Kona bæjarstjóri í Eyjum í fyrsta sinn

Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar, gegnir þessa dagana starfi bæjarstjóra í fjarveru Elliða Vignissonar, sem er í leyfi til fimmta desember. Þetta kemur fram á fréttavefnum eyjar.net. Rut er fyrsta konan sem gegnir starfi bæjarstjóra í Vestmannaeyjum.

Ríkið í mál við olíufélögin

Dómsmálaráðuneytið hefur falið Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni lögmanni að höfða skaðabótamál á hendur stóru olíufélögunum vegna ólöglegs verðsamráðs á tíunda áratug síðustu aldar. Vilhjálmur sagði í samtali við fréttastofu að krafan varðaði einkum meint samráð vegna útboða á olíuvörum fyrir Landhelgisgæsluna og lögregluembættin í landinu en sagði kröfugerð ekki hafa verið mótaða

Al Kæda fordæma heimsókn páfa til Tyrklands

Al Kæda vængurinn í Írak hefur fordæmt heimsókn Benedikts páfa til Tyrklands og segir að hún sé hluti af krossferð til þess að skilja Tyrkland frá heimi múslima.

Fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands veikist á dularfullan hátt

Jegor Gaidar, fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands, liggur á sjúkrahúsi í Moskvu eftir að hafa veikst á dularfullan hátt í heimsókn til Írlands á dögunum. Gaidar, sem er mörgum talinn maðurinn á bak við efnahagsumbætur í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna, féll í öngvit í Dyflinni þar sem hann var að kynna nýja bók sína og var um tíma óttast um líf hans

Pabbi er kominn

Rúmensk kona ætlar í mál við kirkjuna eftir að hún fékk jarðneskar leifar föður síns sendar í pósti, vegna þess að byggingafélag hafði keypt kirkjugarðinn undir íbúðablokkir. Faðir hennar lést fyrir sextán árum.

Stuðningsmenn al-Sadrs mótmæla fundi Malikis með Bush

Ráðherrar og þingmenn sem hliðhollir eru sjíaklerknum Muqtada al-Sadr hafa sagt sig úr ríkisstjórn Íraks og hætt þátttöku í starfi írakska þingsins til þess að mótmæla fundi forsætisráðherrans Nouris al-Malikis með George Bush Bandaríkjaforseta í Jórdaníu.

Vísindamaður spáir hruni mannkyns vegna hlýnunar

Jörðin er komin með hitasótt, sem gæti þýtt átta stiga hlýnun loftslags og útrýmt lífi á stórum hluta hennar og milljörðum manna. Þannig hljóðar dómsdagsspá hins umdeilda vísindamanns, James Lovelocks. Samkvæmt spánni mun svona heit Jörð ekki geta framfleytt nema rúmlega 500 milljónum manna, eða tæplega tíunda hluta núverandi mannkyns.

Hafði afskipti af manni sem skemmdi eigin bíl

Lögreglan í Reykjavík fær oft óvenjuleg mál á sitt borð og í gær kom eitt slíkt upp í höfuðborginni. Þá hafði lögrela afskipit af karlamanni sem var að vinna skemmdir á bíl. Við nánari athugun kom í ljós að maðurinn var sjálfur eigandi bílsins en lögregla segir ekki vitað hvað honum hafi gengið til.

Vilja að afgreiðslu RÚV-frumvarps verði frestað

Stjórn Alfreðs, félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður, skorar á forystumenn Framsóknarflokksins að fresta afgreiðslu frumvarps um Ríkisútvarpið um óákveðinn tíma eða á meðan málið er rætt betur innan flokksins.

Var Stonehenge heilunarmiðstöð ?

Breskur prófessor í fornleifafræði hefur sett fram þá tilgátu að hið fornfræga mannvirki Stonehenge hafi í upphafi verið lækningastaður, hvert menn komu til þess að fá bót meina sinna. Helstu samlíkinguna sé að finna í kraftaverkastaðnum Lourdes, í Frakklandi.

Íslendingar taka upp stjórnmálasamband við Líberíu

Íslendingar hafa tekið upp stjórnmálasamband við Afríkuríkið Líberíu. Fastafulltrúar landanna hjá Sameinuðu þjóðunum undirrituðu yfirlýsingu þess efnis í New York í gær. Líbería er í Vestur-Afríku með strönd að Atlantshafi og þar búa um 3,5 milljónir manna.

Reyndu að hafa hraðbanka á brott með sér

Lögregla leitar nú óprúttinna manna sem reyndu í nótt að hafa hraðbanka í útibúi Landsbankans að Klettshálsi í Reykjavík á brott með sér. Mennirnir höfðu náð að losa hraðbankann og drösla honum út úr anddyri útibúsins en þar virðast þeir hafa gefist upp enda eru hraðbankar níðþungir.

Varar við afnámi styrkja í landbúnaði

Valdimar Einarsson, ráðgjafi á Nýja-Sjálandi, varar við afleiðingum þess að afnema styrkjakerfi íslensks landbúnaðar og að fella niður innflutningshömlur á erlendum landbúnaðarafurðum. Þetta kom fram í erindi hans á morgunverðarfundi Bændasamtaka Íslands sem haldinn var undir yfirskriftinni "Á að vera landbúnaður á Íslandi?" á Hótel Sögu í morgun.

Pálmatrjám fækkað í Los Angeles

Mikinn hroll hefur sett að íbúum Los Angeles vegna þess að borgaryfirvöld hafa ákveðið að fækka stórlega pálmatrjám í borginni. Þau hafa löngum verið talin meðal helstu sérkenna hennar.

Flestir fyrrverandi starfsmenn komnir með vinnu

Flestir fyrrverandi starfsmanna Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eru komnir með aðra vinnu. Fimmtíu og sex fyrrverandi starfsmenn Varnarliðsins, sem búsettir eru á Suðurnesjum, eru ekki komnir með aðra vinnu.

Talin hafa sett barn sitt í örbylgjuofn

Bandarísk kona hefur verið handtekin vegna gruns um að hún hafi myrt mánaðargamalt barn sitt með því að setja það í örbylgjuofn. Engir ytri áverkar sáust á barninu en sum líffæra þess voru hins vegar illa brennd og þykir það benda til að það hafi verið myrt á þennan óhugnanlega hátt. Móðirin neitar öllum ásökunum.

Saudi-Arabía tilbúin að fara í stríð

Saudi-Arabía er reiðubúin að beita öllu sínu afli, hvort sem er í peningum, vopnum eða oíu til þess að koma í veg fyrir að sjía múslimar í Írak kúgi og myrði súnní múslima, þegar Bandaríkjamenn byrja að flytja herlið sitt frá landinu.

Gæði íss ófullnægjandi í 62 prósentum tilvika

Örverufræðileg gæði íss úr vél voru ófullnægjandi hjá 62 prósentum fyrirtækja samkvæmt könnun sem gerð var á vegum matvælaeftirlits umhverfissviðs Reykjavíkur. 22 prósent fyrirtækja voru með fullnægjandi niðurstöður og 16 prósent fengu senda athugasemd.

Framsóknarráðherra lét hlera síma sjálfstæðismanna

Sjálfstæðismenn töldu að símar forystumanna Sjálfstæðisflokksins, Morgunblaðsins og Vísis væru hleraðir á fjórða áratug síðustu aldar, í tíð vinstristjórnar sem þá var við völd. Maðurinn sem sagður er hafa flett ofan af þessum meintu hlerunum var Bjarni Benediktsson, sem seinna átti eftir að fyrirskipa hleranir á símum vinstrimanna þegar hann varð dómsmálaráðherra.

Sjúkraflugvél Landsflugs ekki í Eyjum í gærkvöld

Kallað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar í gærkvöldi til að sækja alvarlega veikan sjúkling til Vestmannaeyja þar sem sjúkraflugvél Landsflugs var ekki í Eyjum þegar til átti að taka.

Hald lagt á átta kíló af kókaíni það sem af er ári

Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri situr í gæsluvarðhaldi eftir að hafa verið handtekinn í Leifsstöð með stærstu kókaínsendingu sem fundist hefur í fórum eins manns til þessa. Tollgæslan hefur lagt hald á samtals átta kíló af kókaíni það sem af er árinu eða áttfalt meira en allt árið í fyrra.

Aukin framlög til endurreisnar og þróunar í Afganistan

Íslensk stjórnvöld hyggjast auka framlög til endurreisnar- og þróunarverkefna í Afganistan auk þess sem standa á að flugflutningum í þágu þeirra bandalagsríkja sem hafa liðsafla í sunnanverðu Afganistan. Frá þessu greindi Geir H. Haarde forsætisráðherra á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í Ríga í Lettlandi í dag.

Rafmagn fór af Keflavíkurflugvelli

Rafmagn fór af öllu flugvallarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli um sexleytið í morgun vegna bilunar í spennnistöð á Fitjum. Fram kemur á vef Víkurfrétta að vararafstöðvar hafi séð flugturni og allri nauðsynlegri flugstarfsemi fyrir rafmagni og því hafi ekki orðið orðið nein truflun á flugstarfsemi vegna þessa.

MacDonalds sækir um einkaleyfi á samlokum

MacDonalds, hamborgarastaðurinn frægi, hefur nú sótt um einkaleyfi á samlokum. Hefur staðurinn sótt um leyfið í Bandaríkjunum og Evrópu og segir að það muni hjálpa sér að þróa sínar samlokur og að ná því að hafa þær eins alls staðar.

Börnin eiga að njóta forgangs

Kofi Annan ávarpaði í dag öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og sagði þar frá því að í átökunum í Mið-Austurlöndum væru börn farin að verða hermenn. Hann talaði um nauðsyn þess að koma í veg fyrir þessa þróun og bætti við að flestir flóttamenn á átakasvæðum væru konur og börn.

NATO-ríki lofa aukinni þátttöku í Afganistan

Á ráðstefnu Norður-Atlantshafs Bandalagsins (NATO) lofuðu aðildarríki því að leyfa herliðum sín í Afganistan að taka þátt í bardögum en George W. Bush Bandaríkjaforseti hafði lagt mikla áherslu á málið fyrir ráðstefnuna.

Býflugur í bandaríska herinn

Bandaríski herinn er farinn að þjálfa nýja tegund af hermönnum. Og með nýrri tegund er átt við aðra tegund en mannkynið því nýju hermennirnir eru býflugur. Rannsóknarstofnun bandaríska hersins skýrði frá því í gær að þeim hefði tekist að þjálfa venjulegar býflugur til þess að finna lykt af mörgum tegundum af sprengiefni og að leita það uppi.

Karlmaður heimtaði frí vegna óléttu

Suður-Afrískur maður ákvað nýlega að verða sér úti um vikufrí í vinnunni. Hann fór því með kærustu sinni, sem var ólétt, til kvensjúkdómalæknis og stal þar vottorði. Þvínæst fyllti hann það út með sínu nafni og skilaði inn til yfirmanna sinna. Á vottorðinu stóð að hann þyrfti viku frí frá vinnu þar sem hann væri óléttur.

Íraski herinn að verða tilbúinn

Þrettán af 112 herdeildum íraska hersins geta nú barist óstuddar við uppreisnarmenn þar í landi. Þetta kom fram í ræðu sem breskur ráðherra hélt í dag. Hann sagði ennfremur að 78 herdeildir þyrftu lágmarksstuðning en þær sem eftir væru væru enn í þjálfun. Ein írösk herdeild hefur um 500 hermenn.

Frelsi á internetinu

Kanadískir tölvufræðingar hafa búið til forrit sem mun gera notendum þess kleift að komast fram hjá eldveggjum ríkisstjórna á internetinu sem þýðir að fólk í löndum sem takmarka aðgang að efni á internetinu gæti skoðað hvað sem það vildi.

Haldið upp á 80 ára afmæli Kastró

Hátíðishöld vegna 80 ára afmælis Fídels Kastró, forseta Kúbu, hófust í dag en Kastró sást þó hvergi þar sem hann er enn að jafna sig eftir neyðaruppskurð sem hann fór í þann 31. júlí síðastliðinn. Margir Kúbverjar telja að Kastró sé of gamall til þess að snúa aftur til valda en hann eftirlét bróður sínum stjórntaumana eftir uppskurðinn.

Fimm stúlkur láta lífið í áhlaupi Bandaríkjahers

Sex Írakar, þar á meðal fimm ungar stúlkur, létu lífið í skotabardögum á milli bandarískra hermanna og grunaðra uppreisnarmanna í bænum Ramadi í dag. Bandaríska hersveitin notaði vopn gegn skriðdrekum, hríðskotabyssu og venjulegar byssur í skotbardaganum gegn tveimur mönnum sem voru uppi á þaki hússins sem stúlkurnar voru í.

Norðmenn að taka við flugvellinum í Kabúl

Norðmenn hafa boðist til þess að taka við stjórninni á flugvellinum í Kabúl en þeir tóku þó fram að þeir myndu aðeins gera það í sex mánuði og að þátttaka þeirra ylti á því hvað þeir yrðu beðnir um að gera.

Lögreglan á Akureyri lýsir eftir manni

Lögreglan á Akureyri lýsir eftir Gunnhalli Gunnhallssyni sem ekkert hefur spurst til síðan aðfararnótt laugardagsins 25. nóvember. Gunnhallur var sennilega klæddur í svarta dúnúlpu og gallabuxur og er 44 ára gamall. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Gunnhalls eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Akureyri í síma 464-7705.

Fleiri fjölmiðlar segja ástandið í Írak borgarastríð

Eftir að sjónvarpsstöðin CNN fór að kalla ástandið í Írak borgarastyrjöld hafa fleiri fréttamiðlar tekið heitið upp og það gegn vilja Hvíta hússins. Á meðal þessara miðla er dagblaðið New York Times en ritstjóri þess sagði að erfitt væri að færa rök fyrir því að það væri ekki borgarastyrjöld í Írak.

Pútin ekki til Riga

Talsmenn Pútins Rússlandsforseta sögðu í kvöld að hann gæti ekki farið til Riga til þess að eiga fund með forsetum Frakklands og Lettlands en nú stendur yfir leiðtogafundur NATO í Riga. Talað var um að fundur gæti átt sér stað á miðvikudaginn þegar að leiðtogafundi NATO myndi ljúka en ekki var hægt að finna tíma þar sem þeir gátu allir hist og því var hætt við fyrirhugaðan fund.

Myrti fimm veiðimenn

Grískur sauðfjárbóndi hefur viðurkennt að hafa skotið fimm veiðimenn til bana sem farið höfðu í óleyfi um landareign hans.

Ísraelar halda sig við vopnahlé

Ísraelski forsætisráðherrann Ehud Olmert sagðist í dag vonsvikinn yfir því að enn væri verið að skjóta flugskeytum frá Gaza á Ísrael en hélt því engu að síður fram að Ísraelar héldu sig við vopnahléið.

Sjá næstu 50 fréttir