Handbolti

Vitum ekki um tvo fyrstu mót­herjana fyrr en annað kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar hans í íslenska landsliðinu fá ekki að vita það fyrr en annað kvöld við hverja liðið spilar í fyrsta leik milliriðilsins.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar hans í íslenska landsliðinu fá ekki að vita það fyrr en annað kvöld við hverja liðið spilar í fyrsta leik milliriðilsins. EPA/Johan Nilsson/TT

Íslenska karlalandsliðið í handbolta fer með tvö stig í milliriðilinn á EM í handbolta og fyrsti leikurinn þar er á föstudaginn. Það er ljóst eftir frábæran sigur á Ungverjum í kvöld en við vitum þó ekki enn hver mótherjinn verður í þessum fyrsta leik.

Ísland mun mæta annaðhvort Króatíu eða Svíþjóð í fyrstu tveimur leikjum sínum í milliriðli en það kemur ekki í ljós hvort liðið spilar við strákana okkar á föstudaginn.

Króatar og Svíar hafa tryggt sig áfram í milliriðil en spila hreinan úrslitaleik um sigurinn í honum annað kvöld. Stigin sem liðin vinna sér inn í þeim leik fylgja þeim líka áfram í milliriðilinn.

Það lið sem tapar þessum leik annað kvöld mætir íslensku strákunum á föstudaginn en það lið sem vinnur spilar við Ísland á sunnudaginn.

Íslenska landsliðið mætir svo Svisslendingum í þriðja leiknum sínum í milliriðlinum á þriðjudaginn í næstu viku og lokaleikurinn er síðan daginn eftir á móti Slóvenum. Slóvenar fóru með tvö stig í milliriðilinn alveg eins og íslenska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×