Handbolti

Skandall á EM í hand­bolta: „Hefði aldrei átt að gerast“

Aron Guðmundsson skrifar
Frá æfingaleik króatíska landsliðsins fyrir EM
Frá æfingaleik króatíska landsliðsins fyrir EM Vísir/Getty

Fulltrúum Evrópska handknattleikssambandsins, þykir það miður að lag eftir króatísku hljómsveitina umdeildu, Thompson, hafi verið spilað í keppnishöllinni í Malmö fyrir fyrsta leik Króata á EM en söngvari hljómsveitarinnar er afar umdeildur svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Sænski miðilinn Afton­bladet segir frá þessu á vef­miðli sínum í kvöld og ber frétt miðilsins fyrir­sögnina: „Skandall skekur EM í hand­bolta.“

Það var í kringum leik Króatíu, sem þjálfað er af Degi Sigurðs­syni, og Georgíu í fyrstu um­ferð E-riðils á EM í hand­bolta sem lag eftir hljómsveitina Thomp­son tók að heyrast í keppnis­höllinni í Mal­mö.

Þegar að lag sveitarinnar var spilað mátti, sam­kvæmt Afton­bladet, sjá og heyra viðbrögð frá áhorf­endum í stúkunni. Marko Per­ko­vic, for­sprakki og söngvari hljómsveitarinnar, er afar um­deildur á Balkan­skaganum, sakaður um að vera fas­isti og eru textar við sum lög hans sagðir styðja það.

Þar megi meðal annars finna upp­hefð á verkum Ustasha hreyfingarinnar, fasískrar hreyfingar sem var þekkt fyrir þjóðernispólitík og of­beldis­fullar að­gerðir en hún var alþjóð­lega tengd við nas­ista Þýska­lands sem og fas­ista á Ítalíu á tímum seinni heim­styrj­aldarinnar.

Sökum þessa hefur Per­ko­vic og hljóm­sveit hans verið meinað að spila tón­list sína í sumum Evrópulöndum og jafnan eru lög hans ekki spiluð á alþjóð­legum íþrótta­viðburðum að sögn Afton­bladet.

Miðilinn leitaði viðbragða hjá Evrópska hand­knatt­leiks­sam­bandinu sem sagði að lag hljómsveitarinnar hafi ekki verið á spilunar­listum sem voru sér­stak­lega samþykktir fyrir Evrópumótið í hand­bolta.

Segir enn fremur í svari sam­bandsins að full­trúar króatíska lands­liðsins hafi krafist þess að lag með Thomp­son yrði spilað.

„Á leik­dag krafðist sendi­nefnd Króata ítrekað að um­rætt lag yrði spila, þeirri beiðni var hafnað í hvert einasta skipti. Það að lagið hafi á endanum verið spilað þykir okkur miður og hefði aldrei átt að gerast. Um­rætt lag endur­speglar alls ekki þau gildi sem þetta stór­mót stendur fyrir.“

Nú sé allt kapp lagt á að svona lagað komi ekki fyrir aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×