Upp­gjör: Ár­mann - Valur 94-77 | Frá­bær sigur Ár­manns á lánlausum Vals­mönnum

Árni Jóhannsson skrifar
Daniel Love var frábær í kvöld fyrir Ármann.
Daniel Love var frábær í kvöld fyrir Ármann. Vísir / Anton Brink

Botnlið Ármanns vann ríkjandi bikarmeistara Vals með fantagóðri frammistöðu í Laugardalshöllinni í kvöld. Valsliðið var ekki heilt en Ármann nýtti það til góðra verka ásamt því að Valsmenn náðu engum takti. Lokatölur 93-77 og Ármenningar kampakátir.

Keyshawn Woods vantaði hjá Valsmönnum ásamt því að Callum Lawson byrjaði leikinn á bekknum og mundaði nuddbyssuna af mikilli áfergju þegar hann var utan vallar. Ármann kom út á völlinn af fítonskrafti og áður en við var litið var staðan orðin 18-6. Valsmenn voru ekki í neinum takti á meðan heimamenn léku við hvurn sinn fingur. Fyrsta leikhluta lauk í stöðunni 31-16 og útlitið gott fyrir heimamenn.

Velgengnin hélt áfram og um miðjan annan leikhluta var staðan 38-20 og ein af ástæðunum fyrir vondu gengi gestanna var að þeir höfðu hitt úr tveimur þriggja stiga skotum í 14 tilraunum á þeim tímapunkti. Ármann gerði líka vel í vörn og nýtti tapaða bolta Valsmanna til góðra verka. Valur reyndu að ná upp áhlaupi en þau voru stutt og heimamenn áttu alltaf svar. Staðan í hálfleik var 50-34.

Svipaða sögu er að segja af seinni hálfleik. Valsmenn náðu nokkrum áhlaupum en þau voru of lítil og vörðu of stutt til að draga heimamenn nær sér sem komust mest 22 stigum yfir og leiddu með 18 stigum fyrir lokaleikhlutann þar sem staðan var 68-50.

Það var alltaf von á risa áhlaupi frá gestunum en það kom aldrei. Þeir komu muninum mest niður í 12 stig en Ármenningar fengu framlag frá mörgum mönnum sem gerði það að verkum að það kom ávallt svar við sprettum Valsmanna sem náðu ekki að hala Ármann inn og þurfa að snúa aftur í Hlíðarnar stigalausir. Ármann sýndu fantagóða frammistöðu á báðum endum vallarins og mega vel við una. 

Leik lauk með sigri heimamanna 94-77 og Ármann er að þrýsta sér upp í baráttu um að halda sér upp.

Atvik leiksins

Tvö atvik fá að verða fyrir valinu í dag. Í bæði skipti var það þristur sem kom Ármanni aftur á bragðið eftir að Valsmenn hótuðu að fara af stað í áhlaup. Í fyrra skiptið var það Arnaldur Grímsson sem boraði niður þrist úr horninu í þriðja leikhluta og svo Ingvi Þór Guðmundsson í þeim fjórða. Þetta voru einu stig þessara leikmanna í kvöld og þau skiptu máli.

Stjörnur og skúrkar

Það er hægt að kenna í brjóst Valsmanna sem vantaði Keyshawn Woods ásamt því að Callum Lawson og líklega Kári Jónsson eru tæpir vegna meiðsla. Kári t.d. hitti bara úr einu þriggja stiga skoti í 10 tilraunum. Frank Booker leiddi sína menn áfram með 26 stig og 10 fráköst.

Hjá heimamönnum voru aðalstjörnur leiksins. Bragi Guðmundsson skoraði 20 stig og Daniel Love skoraði 22 stig. Báðir stálu þeir þremur boltum og mötuðu liðsfélaga sína með stoðsendingum. Daniel með fimm slíkar og Bragi fjórar.

Umgjörð og stemmning

Fín mæting í Laugardalshöllina í kvöld og á löngum köflum létu áhorfendur vel í sér heyra. Ágætis stemmning í þessum stóra geymi.

Dómarar leiksins

Eins og oft áður í vetur þá er línan skrýtin í leiknum. Á köflum er allt leyft og svo ekki neitt. Svo er beðið með að flauta og það fer í taugarnar á öllum. Hallaði þó á hvorugt lið.

Viðtöl

Finnur Freyr: Maður vill náttúrlega bara sleppa við skíta vikurnar

Það er augljóst að lið Valsmanna gengur ekki heilt til skógar þessa dagana. Þjálfari Vals, Finnur Freyr Stefánsson var spurður að því hvort það væri ástæðan fyrir þessu tapi?

„Nei, bara léleg frammistaða. Jú jú það vantaði mennog menn tæpir en þetta var bara slappt hérna.“

Finnur gat ekki fundið eitthvað sérstakt í lélegri frammistöðu og talaði um að hans teymi þyrfti að skoða þennan leik og sjá hvað hægt væri að gera. Þarf hann að hafa einhverjar áhyggjur af stöðunni?

„Maður hefur alltaf áhyggjur þegar maður tapar leik. Við náum aldrei upp andanum og ég veit ekki hverju er um að kenna. Hvort það sé svekkjandi tap fyrir þremur dögum eða eitthvað annað. Það skemmtilega við þessa deild er að öll lið eru góð og Ármann átti góða frammistöður gegn KR í síðustu umferð og fá Brandon Averette sem smellpassar inn í liðið. Þeir voru bara mjög góðir.“

Er það kannski ágætt að taka út svona skíta viku á þessum tímapunkti tímabilsins?

„Maður vill náttúrlega bara sleppa við skíta vikurnar en við þurfum bara að fara aftur á æfingagólfið og láta hlutina gerast þar.“

Að lokum var spurt úr í Keyshawn Woods sem meiddist gegn Keflavík á mánudaginn.

„Það var náttúrlega stigið undir hann á móti Keflavík og hann sneri sig á ökkla. Hann er að jafna sig en var bara á þannig stað að hann gat ekki spilað.“

Steinar Kaldal: Við höfum trú

Alveg öfugt við kollega sinn Valsmegin sem var mjög þungur á brún þá gat Steinar Kaldal þjálfari Ármanns leyft sér að vera himinlifandi með sigur sinna manna í kvöld.

„Mér fannst við geta róterað betur í kvöld, leikmenn fengu hvíld á réttum tíma og það virkaði í kvöld“, sagði Steinar en eftir tapið gegn KR taldi hann að sína menn hafi skort þol til að klára þann leik.

Var það eitthvað sérstakt sem skóp þennan sigur að mati Steinars?

„Til þess að við séum í leik við lið þá þarf ég að fá framlag frá öllum útlendingunum og einum til tveimur íslenskum leikmönnum. Við vorum held ég með meira en 60 stig frá útlendingunum og svo aftur frábæran leik frá Braga. Svo stigu aðrir upp sem komu inn. Ef við ætlum að vera í þessum liðum þá þarf það að vera svona. Þannig hefur það verið í sigurleikjunum okkar, minna í öðrum.“ 

„Svo vorum við að frákasta vel en við vorum á pari í fráköstum. Við þurfum að vera þannig til að eiga séns og þessi atriði voru í lagi í dag. Auðvitað vantaði frábæra leikmenn hjá Val en ég ætla ekki að taka neitt frá mínum mönnum. Við spiluðum frábæran leik í dag, frábæra vörn og af miklum krafti.“

Brandon Averette þreytti frumraun sína í dag og var Steinar spurður að því hvað hann kæmi með að borðinu.

„Hann gefur okkur miklu meiri ógn sóknarlega. Hann er snöggur, getur keyrt á menn og opnað fyrir aðra. Við vorum ekki með það í Vonterius sem var með okkur síðast. Hann kemur með góða skotnýtingu og sprengikraft sem opnar fyrir aðra.“

Það hefur verið stígandi í leik Ármanns síðan í desember. Úrslitin hafa ekki fylgt en það er tækifæri fyrir Ármann að gera atlögu að því að halda sæti sínu í deildinni.

„Við förum í alla leiki eins og önnur lið til að vinna. Við setjum upp plan og reynum að vinna eftir því. Það er rétt að það er stígandi þrátt fyrir tap í fyrsta leik. Það hefur samt verið stígandi undanfarinn mánuð, það er rétt hjá þér. Vonandi getum við bara byggt á því.“

Daniel Love átti mjög góðan leik og hefur átt mjög góða leiki undanfarið. 

„Hann er búinn að vera mjög öflugur. Við höfum náð að færa hann úr leikstjórnenda stöðunni út á vænginn meira. Svo er hann frábær einn á einn varnarmaður og getur sprengt upp varnir eins og Brandon. Hann er búinn að vera að stíga upp og Bragi líka búinn að spila ofboðslega vel. Svo hafa aðrir menn komið inn af bekknum sterkir í þessum leikjum þar sem við höfum unnið. Ef það er svoleiðis þá eigum við séns en við höfum trú.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira