Handbolti

Eini þýski þjálfarinn á EM þjálfar Ítalíu en hefur mikla trú á Al­freð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bob Hanning er ávallt líflegur á hliðarlínunni eins og við Íslendingar munum kynnast annað kvöld.
Bob Hanning er ávallt líflegur á hliðarlínunni eins og við Íslendingar munum kynnast annað kvöld. Getty/City-Press

Bob Hanning er þjálfari Ítalíu sem mætir Íslandi í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu á morgun. Hann telur þýska landsliðið vera eitt af sigurstranglegustu liðunum á Evrópumótinu í handbolta.

Alfreð Gíslason þjálfar þýska landsliðið en Hanning telur jafnvel mögulegt að vetrarævintýrið frá 2016 endurtaki sig þegar annar íslenskur þjálfari, Dagur Sigurðsson, gerði Þjóðverja að Evrópumeisturum.

„Ég tel áttatíu prósent líkur á að Þýskaland komist í undanúrslit. Ég hefði sagt 75 prósent áður, en í leikjunum gegn Króatíu mátti finna fyrir yfirburðum, breiddin í hópnum og varnarleikurinn eru öðruvísi en á HM,“ sagði Bob Hanning í viðtali við SID fyrir upphaf mótsins. „Ég hækka það kannski jafnvel í 83 prósent,“ bætti Hanning við.

Danska landsliðið, sem hefur unnið tvo síðustu stórmót (HM 2025 og ÓL 2024), er ekki ósigrandi að mati Hanning.

Orðinn þreyttur á að heyra bara talað um Dani

„Það er alls ekki óhugsandi,“ sagði hinn 57 ára gamli þjálfari um mögulegan titil hjá Alfreði og félögum: „Ég er líka orðinn þreyttur á að heyra alltaf bara talað um Dani sem sigurstranglegasta liðið. Já, þeir eru með frábært lið en þeir hafa ekki unnið EM-titil síðan 2012,“ sagði Hanning.

Þýska liðið, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, hefur keppni sína á EM í kvöld á móti Austurríki.

Í milliriðli má búast við hörkuleikjum hjá þeim þýsku gegn Danmörku, ríkjandi meisturum Frakklands, auk Noregs, sem er meðgestgjafi, og Portúgals, sem komst í undanúrslit á HM.

Vongóður fyrir hönd Þjóðverja

Hanning er engu að síður bjartsýnn, en Þýskaland vann báða æfingaleiki sína gegn Króatíu (32-29 og 33-27). „Breiddin í hópi bestu leikmanna liðsins verður sífellt meiri. Þeir hafa fleiri möguleika á að skipta inn á á hæsta stigi. Það gerir mig mjög vongóðan,“ sagði Hanning.

„Þeir geta brugðist við mismunandi andstæðingum á mismunandi hátt. Það skiptir ekki öllu máli hvort einn eða tveir leikmenn séu fjarverandi. Í augnablikinu eru allir leikmenn heilir. Þetta er besti hópurinn sem þú getur sett saman í bakvarðar- og línustöðunum,“ sagði Hanning.

Þýðir alls ekki neitt fyrir hann

Framkvæmdastjóri Füchse Berlin er eini þýski landsliðsþjálfarinn á Evrópumótinu því Alfreð þjálfari þýska landsliðið og það austurríska er með Slóvenann Ales Pajovic sem þjálfara. Þrír íslenskir þjálfarar eru með lið á mótinu því Dagur Sigurðsson þjálfar Króata.

Það þýðir „alls ekki neitt“ fyrir Hanning sem segist frekar myndu „gleðjast ef fleiri þýskir þjálfarar sætu á bekknum hjá landsliðum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×