Skoðun

Hug­mynda­fræði­legur horn­steinn ESB

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Markmiðið með samrunaþróuninni innan Evrópusambandsins og forvera þess frá upphafi, að til verði að lokum evrópskt sambandsríki, var Kristjáni Vigfússyni að yrkisefni í grein á Vísi í gær. Kristján, sem er aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og fer fyrir vinnuhópi Viðreisnar um Evrópumál, rifjaði þar upp eftirfarandi orð Winstons Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, í ræðu í Zurich í Sviss 19. september 1946: „Við verðum að byggja upp eins konar Bandaríki Evrópu.“ Með því, segir í grein Kristjáns, hafi Churchill lagt „hugmyndafræðilegan hornstein að því sem koma skyldi.“

Tæpum fjórum árum síðar, þann 9. maí 1950, útvarpaði Robert Schuman, þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, yfirlýsingu úr franska utanríkisráðuneytinu sem lagði grunninn að Evrópusambandinu eins og við þekkjum það í dag. Þar kallaði Schuman eftir því að kola- og stálframleiðsla Evrópuríkja yrði sett undir yfirþjóðlega stjórn sem yrði fyrsta skrefið að lokamarkmiðinu um evrópskt sambandsríki. Árið eftir varð Kola- og stálbandalag Evrópu að veruleika og síðan hefur hvert skrefið á fætur öðru verið tekið í áttina að lokamarkmiðinu. Hefur sambandið þegar öðlast flest einkenni ríkis.

Til að mynda má velta því fyrir sér hvaða alþjóðastofnun eða annað milliríkjasamstarf í heiminum hafi sinn eigin hæstarétt, ríkisstjórn (framkvæmdastjórnina), löggjöfarþing, ígildi stjórnarskrár, löggjöf æðri löggjöf ríkjanna sem aðild eiga að henni, seðlabanka, gjaldmiðil, utanríkisþjónustu, ríkisborgararétt, vegabréf, ökuskírteini og jafnvel þjóðsöng svo eitthvað sé tínt til. Tvennt vantar helzt upp á í þeim efnum, ríkissjóð og eina utanríkisstefnu. Hins vegar hefur markvisst verið unnið að því á liðnum árum að hægt verði að sama skapi að merkja við þau atriði og er það langt komið.

Hitt er annað mál að Churchill hafði aldrei í huga sambandsríki sem slíkt heldur fremur eitthvað í líkingu við Evrópuráðið sem stofnað var 1949, sem Ísland og 45 önnur Evrópuríki eiga aðild að og tengist ekki Evrópusambandinu. Fjallað er til dæmis um það í endurminningum franska diplómatans Jeans Monnet sem öðrum fremur hefur verið nefndur faðir sambandsins. Sjálfur beitti Monnet sér fyrir því að til yrði eiginlegt evrópskt sambandsríki. Hið sama átti við og á enn við um helztu forystumenn á meginlandi Evrópu. Leitun er að slíkum einstaklingum sem ekki hafa stutt lokamarkmiðið.

Meðal þeirra er Guy Verhofstadt, forseti samtakanna European Movement International og fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, sem hefur lengi verið einn ötulasti stuðningsmaður lokamarkmiðsins um sambandsríki. Samtökin sem hann fer fyrir voru stofnuð árið 1947 og hafa síðan haft það meginmarkmið en Evrópuhreyfingin hér á landi er aðili að þeim. Verhofstadt var heiðursgestur á landsþingi Viðreisnar í september og kallaði í ræðu sinni ekki aðeins eftir sambandsríki heldur evrópsku heimsveldi. Var ræðunni fagnað með standandi lófaklappi landsþingsfulltrúa flokksins.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×