Umræðan

Lengsta sjálfs­vígs­bréf í sögu Banda­ríkjanna

Anne Applebaum skrifar

Á síðasta ári ferðaðist hópur bandarískra erindreka frá Global Engagement Center í utanríkisráðuneytinu til um tuttugu ríkja og undirritaði fjölmargar viljayfirlýsingar. Í samstarfi við starfsbræður sína í jafn ólíkum löndum og Ítalíu, Ástralíu og Fílabeinsströndinni skuldbundu þeir sig til að deila upplýsingum um skaðlegar og villandi netáróðursherferðir sem ættu rætur að rekja til Rússlands, Kína eða Írans.

Í september síðastliðnum felldi Trump-stjórnin þessa samninga úr gildi. Fyrrverandi forstöðumaður miðstöðvarinnar, James Rubin, kallaði ákvörðunina „einhliða afvopnun“ – og það með réttu. Í reynd lýstu Bandaríkin því yfir að þau hygðust ekki lengur sporna gegn áhrifaherferðum Rússa, pólitískri íhlutun Kína í innlend stjórnmál annarra ríkja eða ríkisstuddum írönskum öfgasamtökum. Þá yrði ekki lengur varið neinum bandarískum fjármunum til að hjálpa öðrum ríkjum að verjast slíkum aðgerðum.

Nýútkomin þjóðaröryggisstefna Trump-stjórnarinnar sýnir að þessi ákvörðun var engin tilviljun. Einhliða afvopnun er nú orðin opinber stefna. Þrátt fyrir heitið er þetta skjal hins vegar ekki stefnumótandi plagg í hefðbundnum skilningi. Það er í raun kveðjubréf. Ef hugmyndir þess verða lagðar til grundvallar raunverulegri stefnumótun mun áhrifavald Bandaríkjanna í heiminum dvína hratt og geta landsins til að verja sig sjálft og bandamenn sína minnka verulega. Afleiðingarnar verða bæði pólitískar og efnahagslegar – og þær munu snerta alla Bandaríkjamenn.

Það eina sem er raunverulega nýtt og róttækt

Áður en lengra er haldið er rétt að staldra við sérkennilega gerð skjalsins sem virðist, líkt og Biblían, hafa marga höfunda. Sumir þeirra beita gortandi og árásargjörnu orðalagi. Bandaríkin eigi þannig að vera „sterkasta, ríkasta og valdamesta ríki heims um ókomna áratugi“ á meðan aðrir kjósa hins vegar óljósar vísanir og loðið málfar. Stundum stangast þessar ólíku raddir á. Þannig er á einni síðu talað um samstarf við bandamenn, en á þeirri næstu um að grafa undan þeim. Skoðanirnar sem birtast í skjalinu endurspeglar ekki skoðanir alla ráðherra bandarísku ríkisstjórnina, Repúblikanaflokkinn né einu sinni alla Trump-stjórnina. Áberandi atriðin virðast fremur koma frá tilteknum hugmyndafræðilegum armi sem nú ræður för í utanríkisstefnu stjórnarinnar og gæti vel gert það áfram í framtíðinni.

Nýútkomin þjóðaröryggisstefna Trump-stjórnarinnar sýnir að þessi ákvörðun var engin tilviljun. Einhliða afvopnun er nú orðin opinber stefna.

Það eina sem er raunverulega nýtt og róttækt í hugsun þessa arms er algjör synjun á því að viðurkenna tilvist óvina eða nefna nokkur ríki sem gætu viljað Bandaríkjunum illt. Þetta er afgerandi frávik frá fyrstu Trump-stjórninni. Þjóðaröryggisstefnan frá 2017 talaði skýrt um bandalag gegn Norður-Kóreu; hún benti á að Rússland beitti undirróðursaðgerðum til að grafa undan skuldbindingum Bandaríkjanna gagnvart Evrópu og veikja evrópskar stofnanir; og hún lýsti því hvernig Kína notaði efnahagslegan þrýsting, áhrifaaðgerðir og óbeinar hernaðarógnir til að kúga önnur ríki. Þar var einnig talað um „geópólitíska samkeppni milli frjálsra og kúgandi hugmynda um skipan heimsmála“.

Önnur Trump-stjórnin virðist hins vegar ekki lengur geta nefnt nein ríki sem gætu ógnað Bandaríkjunum, né heldur hvaða aðgerðir þau kynnu að grípa til. Heill áratugur af rússneskum netárásum, pólitískri íhlutun og upplýsingastríði innan Bandaríkjanna er hvergi nefndur. Skemmdarverk Rússa víða um Evrópu, stuðningur þeirra við grimmdarleg stjórnvöld á Sahel-svæðinu og innrásin í Úkraínu fá heldur enga raunverulega umfjöllun. Eina undantekningin er stríðið í Úkraínu, sem er afgreitt sem evrópskt vandamál fremur en alþjóðlegt öryggismál.

Kína ekki lengur sagður geópólitískur keppinautur 

Enn furðulegra er hvernig Kína er teiknað upp, ekki sem geópólitískur keppinautur heldur fyrst og fremst sem keppinautur í viðskiptalegu tilliti. Það er eins og kínverskar tölvuárásir, nethernaður og tilraunir til að smygla sér inn í bandaríska innviði séu ekki til. Áróðursherferðir Kína og viðskiptaafskipti þess í Afríku og Rómönsku Ameríku virðast einnig lítils metin. Skjalið vísar aðeins óljóst til efnahagslegrar nærveru Kína í Rómönsku Ameríku og hugsanlegrar ógnar gagnvart Taívan. Þegar hið síðarnefnda er rætt hverfur sjálfshólið um vald Bandaríkjanna og í staðinn tekur við þurrt skrifræðismál og sagt að Bandaríkin styðji ekki einhliða breytingar á stöðunni í Taívansundi.

Aðrir keppinautar og möguleg uppspretta átaka fá sömuleiðis enga athygli. Norður-Kórea er horfin. Íran er lýst sem „verulega veikluðu“. Íslömsk hryðjuverkastarfsemi eru ekki lengur talin verðug umfjöllunar. Deilan milli Ísraels og Palestínu er enn „þyrnum stráð“, en þökk sé Donald Trump hafi „framfarir orðið í átt að varanlegum friði“. Hamas muni brátt hverfa. Bandarískir hermenn sem enn berjast — og í sumum tilvikum falla — í Sómalíu og Sýrlandi eru einfaldlega hundsaðir, eins og þeir séu ekki til.

Þótt engin ríki séu nefnd sem óvinir beinist fjandskapurinn að einni hugmyndafræði. Hún er hvorki kínverskur kommúnismi, rússneskt einræði né íslömsk öfgahyggja, heldur evrópskt frjálslynt lýðræði.

Ef Bandaríkin eiga hins vegar enga keppinauta og búast ekki við neinum átökum, þá þarf hvorki herinn, utanríkisráðuneytið, CIA né gagnnjósnadeild FBI að gera sérstakar ráðstafanir til að vernda borgarana. Skjalið endurspeglar þessa forsendu og beinir í staðinn athyglinni að málefnum á borð við landamæraeftirlit, náttúruhamfarir, ósanngjarna viðskiptahætti, töpuð störf og af-iðnaðarvæðingu. Fentanýl er nefnt og, nokkuð undarlega, „áróður, áhrifaaðgerðir og menningarlega undirróður“. Engin skýring er þó gefin á því hver standi að slíku né hvernig eigi að bregðast við, sérstaklega í ljósi þess að Trump-stjórnin hefur þegar lagt niður allar stofnanir sem áttu að sinna þessu hlutverki.

Það er því eðlilegt að spyrja hvort skjalið hafi yfirleitt verið skrifað fyrir þá sem fást við þjóðaröryggi. Hugsanlega var það fremur samið fyrir hugmyndafræðilegan innlendan áheyrendahóp, þar á meðal forsetann sjálfan. Þar er endurtekið fáránlegt tal um að Trump hafi bundið enda á fjölda stríða, fullyrðingar sem eru jafn fjarri raunveruleikanum og ímynduð friðarverðlaun FIFA. Jafnframt er gert kerfisbundið lítið úr allri fyrri utanríkisstefnu Bandaríkjanna, meðal annars stefnu fyrstu Trump-stjórnarinnar eins og aðeins þessi stjórn, undir forystu nær áttræðs forseta, sjái aðeins heiminn skýrt.

Róttækur armur sem vill grafa undan frjálslyndu lýðræði

Þótt engin ríki séu nefnd sem óvinir beinist fjandskapurinn að einni hugmyndafræði. Hún er hvorki kínverskur kommúnismi, rússneskt einræði né íslömsk öfgahyggja, heldur evrópskt frjálslynt lýðræði. Þetta er það sem þessi róttæki armur óttast í raun: gagnsæi, ábyrgð, borgaraleg réttindi og réttarríki. Það eru sömu gildi og helstu hugmyndafræðingar MAGA-hreyfingarinnar hafna heima fyrir. Þau öfl sem berjast gegn því að Bandaríkin verði skilgreind sem hvítt þjóðríki, standa gegn spillingu lýðræðislegra stofnana og mótmæla því þegar vinir, fjölskylda og bandamenn Trumps í tæknigeiranum beina utanríkisstefnu landsins í þágu eigin hagsmuna.

Evrópskt og bandarískt frjálslynt lýðræði er svo mikil ógn við þetta verkefni að hugmyndafræðingar MAGA virðast beinlínis hafa í hyggju að grafa undan því. Þeir segjast ekki ætla að skipta sér af innlendum stjórnmálum annarra ríkja, nema í Evrópu. Þar er nú opinber stefna Bandaríkjanna að „hjálpa Evrópu að leiðrétta núverandi stefnu sína“ – orðalag sem felur í sér beina íhlutun.

Samkvæmt umfjöllun fjölmiðilsins Defense One kom fram í fyrri drögum þjóðaröryggisstefnunnar að bandarísk utanríkisstefna ætti jafnvel að styðja ófrjálslynd öfl í Ungverjalandi, Póllandi, Ítalíu og Austurríki til að fá þau til að yfirgefa Evrópusambandið. Fyrir þessi ríki yrði slíkt efnahagslegt stórslys; fyrir öryggismál álfunnar í heild væri það hörmung. Veikt og sundrað ESB ætti í erfiðleikum með að sporna gegn rússneskum fjölþáttaógnum og efnahagsþrýstingi Kína, auk þess sem framkvæmdastjórn sambandsins myndi ekki lengur geta sett bandarískum tæknifyrirtækjum skorður. Hugsanlega er það einmitt markmiðið.

Þeir lifa í ímynduðum heimi, blindir á raunverulegar hættur og búa til uppskáldaðar ógnir. Upplýsingar þeirra koma frá samsæriskenningasíðum og tilviljanakenndum reikningum á X.

Hatur höfunda á Evrópu virðist sömuleiðis byggt á röngum hugmyndum eða hreinni bitingarmynd eigin ótta. Þeir óttast að ákveðin NATO-ríki verði brátt með meirihluta íbúa sem ekki eru Evrópubúar. Með öðrum orðum að ríki á borð við Frakkland og Þýskaland verði „ekki hvít“. Raunin er hins vegar sú að Bandaríkin, ekki Evrópa, eru mun líklegri til að verða svokallað „meirihluta-minnihluta“ samfélag á næstu árum.

Skjalið talar einnig með fremur óvenjulegum hætti um að Evrópa standi frammi fyrir „siðmenningarlegri útrýmingu“ – orðalag sem fáir evrópskir stjórnmálamenn nota, jafnvel á ysta jaðri hægri aflanna. Carl Bildt, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur kallað þessa hugsun „lengra til hægri en öfgahægrið“. Í raun raðast evrópsk ríki ofar Bandaríkjunum í fjölmörgum mælikvörðum, svo sem lífslíkum, heilsu, hamingju og lífskjörum. Evrópubúar lifa lengur, eru síður heimilislausir og ólíklegri til að falla í fjöldaskotárásum.

Eina raunhæfa niðurstaðan er þessi: Höfundar skjalsins vita lítið um Evrópu, eða nenna ekki að kynna sér hana. Þeir lifa í ímynduðum heimi, blindir á raunverulegar hættur og búa til uppskáldaðar ógnir. Upplýsingar þeirra koma frá samsæriskenningasíðum og tilviljanakenndum reikningum á X. Ef slíkar hugmyndir verða grundvöllur stefnumótunar má búast við alvarlegum afleiðingum. Mun herinn í alvöru hætta samstarfi við bandamenn sem hann hefur starfað með í áratugi? Mun FBI hætta að leita að rússneskum og kínverskum njósnurum?

Rangt mat á óvinum hefur áður leitt til hörmulegra mistaka

Fyrr í þessum mánuði greip bandaríska dómsmálaráðuneytið til aðgerða gegn tveimur rússneskum netglæpahópum, studdum af ríkinu, sem höfðu meðal annars ráðist gegn bandarískum innviðum í iðnaði. En ef raunverulegur óvinur er „siðmenningarleg útrýming“ í Evrópu ætti þá ekki að beina fjármunum frá slíkum „aukaverkefnum“ og einbeita sér að ógninni sem stafar af breska Verkamannaflokknum eða þýsku Kristilegu demókrötunum?

Maður freistast til að hlæja að þessum hugmyndum eða snúa sér einfaldlega að einhverju öðru. En samsæriskenningahugsun af þessu tagi hefur þegar valdið raunverulegum skaða. Elon Musk trúði rangfærslum um USAID sem hann las á eigin vettvangi, X, og lagði stofnunina niður með þeim afleiðingum að tugir eða jafnvel hundruð þúsunda manna gætu látið lífið. Í utanríkisráðuneytinu hefur Darren Beattie, einn aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneytinu, ítrekað haldið því ranglega fram að Global Engagement Center hafi ritskoðað Bandaríkjamenn. Afleiðingin var að stofnunin var lögð niður og alþjóðlegt samstarf hennar stöðvað. Nú stendur yfir nornaveiði innan ráðuneytisins í leit að sönnunum – eða tilbúnum gögnum – fyrir samsæriskenningum hans.

Með því að heimfæra eigin ótta upp á aðra munu höfundar þessarar stefnu líklega misskilja hverjir raunverulega geta ógnað Bandaríkjunum á næstu árum. Ímyndaður heimur þeirra setur okkur öll í hættu.

Saga Bandaríkjanna sýnir að rangt mat á óvinum hefur áður leitt til hörmulegra mistaka. Árið 2003 töldu margir bandarískir sérfræðingar í einlægni að Saddam Hussein byggir yfir gereyðingarvopnum. Á tímum kalda stríðsins töldu margir greinendur að Sovétríkin stæðu styrkari fótum en raunin var. En sjaldan, ef nokkru sinni, hefur utanríkisstefna Bandaríkjanna verið mótuð af jafn mikilli þráhyggju á innlendum vettvangi með beinum áhrifum á allan á umheiminn. Með því að heimfæra eigin ótta upp á aðra munu höfundar þessarar stefnu líklega misskilja hverjir raunverulega geta ógnað Bandaríkjunum á næstu árum. Ímyndaður heimur þeirra setur okkur öll í hættu.


Lausleg þýðing á grein sem birtist eftir Anne Applebaum á vefsíðu The Atlantic þriðjudaginn 16. desember.

Anne Applebaum er bandarískur sagnfræðingur og blaðamaður og starfar í dag sem pistlahöfundur hjá The Atlantic. Hún er jafnframt með ríkisborgararétt í Póllandi og gift utanríkisráðherra landsins, Radoslaw Si­korski. Hún er meðal annars höfundur bókanna Aurocracy, Inc., Gulag: A History, Red Famine og Twilight of Democracy: The Seductive Lure of Authoritarianism.


Tengdar fréttir

Af hverju reyndi Kína ekki að „leika Kissin­ger“ til að kljúfa Evrópu frá Bandaríkjunum?

Kína hefur varpað þunga sínum á vogarskál Rússlands í stríðinu í Úkraínu, en það virðist hafa fengið minni athygli meðal evrópskra leiðtoga en efni standa til. Frá því að hafa veitt Moskvu fjárhagslega líflínu til afhendingar á lykiltækni til rússneska vopna­iðnaðarins hefur svonefnt „takmarkalaust“ samstarf ríkjanna tvær augljósar og víðtækar afleiðingar fyrir gang stríðsins – og um leið framtíðaröryggi Evrópu.

Pólitísk stríðs­yfir­lýsing

Viðeigandi viðbragð við nýrri þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna er ekki aðeins að gera lítið úr henni fyrir þvæluna sem hún sannarlega er. Fyrir bandamenn Bandaríkjanna í áratugi, einkum í Evrópu, er hún mun alvarlegri. Skjalið er í raun yfirlýsing um árás á evrópskt lýðræði og evrópska lífshætti.






×