Handbolti

Birtu tölvu­póst þar sem efast er um heilsu for­seta IHF

Sindri Sverrisson skrifar
Hassan Moustafa var mættur á HM karla í byrjun þessa árs, þó hann hafi ekki verið á HM kvenna nú um helgina.
Hassan Moustafa var mættur á HM karla í byrjun þessa árs, þó hann hafi ekki verið á HM kvenna nú um helgina. Getty/Mateusz Slodkowski

Egyptinn Hassan Moustafa, sem orðinn er 81 árs gamall, vinnur nú að því að hljóta endurkjör sem forseti IHF, alþjóða handknattleikssambandsins, eftir að hafa gegnt þeirri stöðu í 25 ár. Ljóst er að ekki vilja allir sjá það ganga eftir.

Moustafa var fyrst kjörinn árið 2000 og hefur ekki þurft að glíma við mótframbjóðanda síðan árið 2009. Hann hefur þó síður en svo verið óumdeildur.

Núna fær hann hins vegar mótframboð því Þjóðverjinn Gerd Butzeck, Slóveninn Franjo Bobinac og Hollendingurinn Tjark de Lange ætla sér allir að velta Moustafa úr sessi. Kosið verður á þingi IHF á sunnudaginn en þar verður Moustafa á heimavelli því þingið er í Kaíró, höfuðborg Egyptalands.

Í aðdraganda kjörsins, nú á mánudag, munu fulltrúar HSÍ og annarra landsambanda innan IHF hafa fengið tölvupóst þar sem varað er við því að kjósa Moustafa. Handboltamiðillinn GoHandball greinir frá þessu og hefur birt bréfið.

„Var hann bara „svolítið“ veikur eða er þetta alvarlegra?“

Bréfið sendi Blaise Millon, fyrrverandi framkvæmdastjóri frönsku deildakeppninnar í handbolta, sem byrjaði á að benda á þá staðreynd að Moustafa var ekki viðstaddur í Rotterdam um helgina þegar úrslitin réðust á HM kvenna.

„Hver gæti verið ástæðan fyrir þessu? Er þetta alvarlegt? Var hann bara „svolítið“ veikur eða er þetta alvarlegra??? Það er augljóst að öll gamalmenni, orðin 81 árs, þurfa hvíld, jafnvel mikla hvíld,“ sagði Millon í tölvupóstinum.

Hann sagði mikilvægt að velta þessu upp því það væri „samkomulag“ í gangi um að Philippe Bana, formaður franska handknattleikssambandsins, yrði varaforseti IHF og myndi svo taka við af Moustafa á miðju kjörtímabili, annað hvort árið 2027 eða 2028. 

Það telur Millon algjörlega ótækt og fullyrðir að Bana sé búinn að koma öllu í kaldakol hjá franska sambandinu, þar sem átta milljónir evra hafi horfið á þremur árum og síðasti ársreikningur sýnt fram á tveggja milljóna evra tap. Allt hafi þetta gerst án nokkurra útskýringa frá formanninum eða gjaldkera, og það sé alveg ljóst að Bana og varaforseti hans Rémy Lévy séu bara að reyna að komast að hjá IHF til að losna undan sínum málum í Frakklandi.

Af hverju var Moustafa ekki á HM?

GoHandball tekur fram að hvorki hafi náðst í Millon né Bana fram til þessa, og hvað þá Moustafa sem aldrei hafi veitt miðlinum viðtal heldur aðeins boðið upp á að spurningar væru sendar og skrifleg svör veitt. Það er góð leið til að þurfa ekki að takast á við krefjandi spurningar.

Miðillinn segist hafa heimildir fyrir því að Moustafa hafi ekki mætt á HM kvenna vegna anna við undirbúning fyrir þingið í Kaíró um helgina, þar sem hann hafi þurft að eiga við það að þrjátíu fulltrúum hafi verið neitað um vegabréfsáritun. Ekki sé hins vegar vitað hvort þeir fulltrúar séu frá þjóðum hliðhollum Moustafa eða hvort hann sé mögulega að reyna að koma í veg fyrir að viðkomandi fulltrúar komist á þingið til þess að kjósa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×