Viðskipti innlent

Ætlar að endur­reisa Niceair

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Martin Michael er sagður ætla að endurreisa Niceair.
Martin Michael er sagður ætla að endurreisa Niceair.

Þýskur athafnamaður hyggst endurreisa ferðaskrifstofuna Niceair og hefur af því tilefni boðað til blaðamannafundar í flugstöðinni á Akureyri í næstu viku. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Niceair hefur mikla trú á verkefninu enda Norðlendingar komnir á bragðið með að fljúga til Evrópu án viðkomu á Keflavíkurflugvelli.

Martin Michael segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að helstu spurningum verði svarað um endurreisnina þriðjudaginn 16. desember klukkan 11:45. Martin var markaðsfulltrúi Niceair og fulltrúi félagsins í Þýskalandi.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, stofnandi Niceair og framkvæmdastjóri, þekkir vel til hans. 

„Mér líst mjög vel á þetta og myndi halda að flugleiðin Akureyri - Kaupmannahöfn myndi ganga mjög vel. Hún gekk mjög vel hjá okkur.“

Niceair fór í jómfrúarferð sína í júní 2022 en varð gjaldþrota tæpu ári síðar. Niceair var ekki með flugrekstrarleyfi heldur samdi það við portúgölsku flugvélaleiguna Hi Fly.

„Endalok Niceair voru mjög svipleg. Við vorum svikin af okkar erlenda samstarfsaðila sem er rosalega sorglegt að rifja upp,“ segir Þorvaldur. 

Easy Jet hafi gripið gæsina við fall Niceair og byrjað að fljúga á milli Akureyrar og Bretlands. 

„Við vorum búin að ryðja brautina, leggja í markaðsrannsóknir og sanna að það var markaður til staðar. Akureyringar og Norðlendingar voru komnir á bragðið að nota Kastrup sem sinn helsta tengivöll. Það er minni fyrirhöfn en nokkurn tímann að fara til Keflavíkur.“

Þorvaldur segist vona að endurreisn Niceair gangi vel og Martin njóti sama velvilja og hann hafi notið á sínum tíma.

Martin segist munu greina frá fyrirætlunum félagsins á þriðjudag.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×